Mennta og menningarmálaráðherra heimsækir Landbúnaðarháskóla Íslands

Opinn kynningarfundur ráðherra um Menntasjóð í Landbúnaðarháskóla Íslands

Nýtt frumvarp um Menntasjóð námsmanna, sem mennta- og menningarmálaráðherra mælti nýlega fyrir á Alþingi og felur í sér grundvallarbreytingu á fyrirkomulagi námsstuðnings hér á landi var kynnt nemendum Landbúnaðarháskóla Íslands mánudaginn 25. nóvember. Í frumvarpinu felst meðal annars að lánþegar fá 30% niðurfærslu af höfuðstól námsláns ef þeir ljúka námi innan ákveðins tíma og námsmenn með börn á framfæri fá beinan stuðning í stað lána áður. Boðað var til fundar á starfsstöðinni á Hvanneyri í samstarfi við Landssamtök íslenskra stúdenta og nemendafélög háskólanna. Lilja Alfreðsdóttir kynnti áherslur frumvarpsins og tók þátt í pallborðsumræðum með fulltrúum stúdenta frá Landbúnaðarháskólanum og Háskólanum á Bifröst.

Ráðherra heimsækir starfsstöðvarnar á Mið-Fossum og Hvanneyri

Við sama tækifæri bauð Landbúnaðarháskóli Íslands ráðherra að skoða aðstöðu skólans á Hvanneyri og Mið-Fossum. Á Mið-Fossum er góð aðstaða sem skólinn hefur nýtt undanfarin 15 ár til verklegrar kennslu í hestafræðum og reiðmennsku á starfs- og endurmenntunarnámsstigi sem og háskólastigi. Lilja skoðaði hesthúsið sem tekur 70 hross, þar nýta nemendur skólans góðan part en almenningi býðst einnig að leigja pláss. Við hesthúsið er björt og stór reiðskemma og kennslustofa og hefur aðstaðan einnig verið vel nýtt af endurmenntunardeild skólans og má þar nefna námskeiðsröðina Reiðmanninn sem dæmi. Mikið líf og fjör var í hesthúsinu og voru nemendur í tímum og við hirðingu og aðrir að sinna sínum hrossum. Lilja hitti nemendur, kennara og starfsfólk og mynduðust skemmtilegar umræður um námið, aðstöðuna og mikilvægi þess að hafa góða aðstöðu til að sinna náminu og áhugamálinu. Einnig voru framtíðar hugmyndir ræddar um hvernig efla mætti starfsemina enn frekar.  Að lokinni heimsókn í hesthúsið var haldið að Hvanneyri þar sem ráðherra fundaði með Ragnheiði I. Þórarinsdóttur rektor og að þeim fundi loknum var gengið um aðalbygginguna, Ásgarð, á Hvanneyri og síðan  hélt ráðherra vel sóttan kynningarfund um Menntasjóð með nemendum Landbúnaðarháskólans og Háskólans á Bifröst.

Þú ert að nota: brimir.rhi.hi.is