Metaðsókn í náttúru- og umhverfisfræði sem og skógfræði

Um 33% aukning varð á milli áranna 2018 og 2019 á umsóknarfjölda til háskólanáms við Landbúnaðarháskóla Íslands. Aðsókn í skógfræði og eins náttúru- og umhverfisfræði tóku hástökk en báðar brautir um þrefölduðu sinn umsóknarfjölda. Góð aðsókn var einnig í meistaranám við skólann þar sem talsverð aukning varð á umsóknum í rannsóknamiðað meistaranám sem og í doktorsnám við skólann. Sambærileg aðsókn og í fyrra var í nám í búvísindum og umhverfisskipulagi á BS stigi og eins verður nú tekið inn í BS nám í hestafræði sem er braut sem LbhÍ og Háskólinn á Hólum bjóða upp í samstarfi.

Í búfræði á starfsmenntastigi bárust um 50 umsóknir en vegna fjöldatakmarkanna í það nám var einungis um helmingur umsóknaraðila teknir inn. Í garðyrkjufræði á starfsmenntastigi er tekið inn annað hvort ár, síðast haustið 2018 og þar af leiðandi næst haustið 2020. Í endurmenntunardeild voru um 40 umsóknir í Reiðmanninn sem fer af stað á 3 stöðum á landinu í haust. 

Mikill áhugi á náttúru- og umhverfisfræði
Ragnhildur H. Jónsdóttir brautarsjóri í náttúru- og umhverfisfræði segir „Við sjáum það í mikilli fjölgun umsókna í náttúru- og umhverfisfræði að umræða samfélagsins hreyfir við og unga fólkið vill sækja sér menntun þar sem viðfangsefnið er meðal annars hvernig við getum dregið úr neikvæðum áhrifum okkar á umhverfið. Það er virkilega ánægjulegt að þetta þverfaglega nám sem við bjóðum veki athygli og greinilegt að þetta höfðar til fólks. Umsækjendur okkar hafa mjög ólíkan bakgrunn og það er kostur, því þannig koma inn ólík sjónarmið, sem gerir að námið verður ennþá betra og skemmtilegra fyrir vikið, bæði fyrir nemendur og kennara.“

Skógfræði sækir á 
Umsvif skógræktar og landgræðslu eru að aukast og mikil þörf orðin fyrir fólk með trausta fagþekkingu á þessu sviði. Við sjáum greinilega aukningu á áhuga þar en umsóknarfjöldi ríflega þrefaldaðist á milli ára og spennandi vetur framundan.

Þú ert að nota: brimir.rhi.hi.is