Mótun matvælastefnu Íslands langt komin

Við fengum skemmtilega heimsókn í síðustu viku þegar fulltrúar í verkefnisstjórn ráðherranefndar um matvælastefnu kom og fundaði með okkur. Nefndin vinnur að grunnskýrslu um stöðu Íslands 2019 og mótunar tillagna um framtíðarstefnu fyrir Ísland.

Þau Vala Pálsdóttir formaður nefndarinnar, Kári Gautason og María Guðjónsdóttir kynntu fyrir okkur vinnuna sem hefur farið fram, helstu punkta um stöðuna í dag, sjónarmið hagaðila og hugmyndir stjórnvalda í þessum málum. Þetta var góður fundur og greinilega mikil vinna verið unnin og verður spennandi að sjá niðurstöður skýrslunnar.

Verkefnisstjórnin er skipuð fulltrúum ráðherra, Samtaka iðnaðarins, Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi, frá Bændasamtökum Íslands, Samtökum verslunar og þjónustu og fulltrúa Neytendasamtakanna. Verkefnisstjórnin mun í lok febrúar skila stöðuskýrslu sem notuð verður sem grunnur við gerð matvælastefnu fyrir Ísland.

Landbúnaðarháskóli Íslands kynnti framtíðarstefnu sína fyrir verkefnisstjórninni um að auka rannsóknir, nýsköpun og efla kennslu á öllum sviðum skólans. Þannig mun skólinn leggja sitt af mörkum til að styðja sáttmála ríkisstjórnarinnar sem leggur áherslu á sjálfbæra nýtingu auðlinda, aukið virði afurða, bættan rétt neytenda og að Ísland verði leiðandi í framleiðslu á heilnæmum landbúnaðarafurðum. Sjá nánar um um framtíðarstefnu skólans sem tekur undir þessar áherslur.

Þú ert að nota: brimir.rhi.hi.is