Nýr lektor í landupplýsingum og fjarkönnun

Emmanuel Pierre Pagneux er nýr lektor í landupplýsingum og fjarkönnun við deild Náttúru og skóga. Hann hóf störf í byrjun vikunnar og bjóðum við hann innilega velkominn. Emmanuel er með skrifstofu á Keldnaholti.

Emmanuel kemur frá Frakklandi og lauk meistaranámi í landfræði frá háskólanum í Montpellier III árið 2006. Þar sem hann lagði áherslu á hættumat og áhættustjórnun vegna náttúruvár. Hann hóf doktorsnám við Háskóla Íslands árið 2008  í samstarfi við Orkustofnun og Veðurstofu Íslands sem hann lauk 2011. Fyrir doktorsverkefnið hlaut hann Tison verðlaunin sem veitt eru af alþjóðlegum samtökum um Vatnsfræði (International Association of Hydrological Sciences). Í verkefni sínu rannsakaði Emmanuel áhrif fyrri flóða í Ölfusá.

Eftir að hafa lokið doktorsnáminu vann Emmanuel áfram fyrir Veðurstofu Íslands sem sérfræðingur í flóðarannsóknum frá 2011 til 2019. Þar leiddi hann hættumatsverkefni fyrir vatnsflóð og jökulhlaup. Emmanuel hannaði ofanflóðakortasjá Veðurstofu Íslands ásamt því að vinna að Íslensku eldfjallavefsjánni.

Ásamt því að vinna á Veðurstofu Íslands hefur Emmanuel kennt fjarkönnun, túlkun loftmynda og kortagerð við Verkfræði- og náttúruvísindasvið HÍ undanfarin ár.

„Landupplýsingafræði (GIS) og fjarkönnun er mjög mikilvægt tæki til að rannsaka náttúrulegt og manngert umhverfi, það afhjúpar fyrirkomulag hlutanna og segir sögu sem reynir á rýmisgreind þess er á horfir. Ég er mjög ánægður með að ganga til liðs við Landbúnaðarháskóla Íslands og fullur tilhlökkunar að deila minni þekkingu áfram til nemenda skólans.“ segir Emmanuel að lokum.

Þú ert að nota: brimir.rhi.hi.is