Rit um lífsferil Eimeria hnísla og áhættuþætti hníslasmits og hníslasóttar í ungkálfum

Út er komið Rit LbhÍ nr 134. Hníslasmit í ungkálfum og eru höfundar Charlotta Oddsdóttir dýralæknir á Keldum og gestalektor við LbhÍ, og Guðný Rut Pálsdóttir sníkjudýrafræðingur á Keldum

Hingað til er lítið vitað um tímasetningu Eimeria hníslasmits hjá íslenskum smákálfum eða tegundasamsetningu hnísla hjá þeim. Fjölmargar Eimeria tegundir þekkjast í nautgripum, en aðeins er talið að þrjár þeirra valdi sjúkdómi með niðurgangi, vanþrifum og jafnvel dauða. Hníslarnir geta valdið miklum skemmdum á þarmaveggnum og raskað meltingarstarfsemi og vökvajafnvægi, með vanþrifum sem koma niður á velferð dýranna jafnvel þó niðurgangseinkenni sjáist ekki. Bændur geta því orðið fyrir miklum tekjumissi, þar sem gripir ná sér jafnvel aldrei á strik. Óhjákvæmilegt er að hníslar finnist í umhverfi kálfa en til þess að minnka áhrif smitsins á heilbrigði og þrif kálfanna þarf að vita hvenær kálfar smitast og hvaða hníslategundir sýkja þá. Kálfar mynda hratt mótstöðu gegn hníslum og ef smitið veldur ekki einkennum eru allar líkur á því að þeir muni þroskast vel þrátt fyrir þetta smit.

Á þremur kúabúum þar sem kálfar þroskast almennt vel, en þar sem aðstæður til kálfauppeldis eru mismunandi voru tekin saursýni reglulega úr sömu kálfunum frá fæðingu og til rúmlega þriggja mánaða aldurs, skitustig metið, og Eimeria þolhjúpar taldir og greindir til tegunda.

Alls voru tekin 130 saursýni úr 11 kálfum og einungis 9,2% af sýnunum báru vott um niðurgang. Allir kálfar höfðu á einhverjum tímapunkti Eimeria þolhjúpa í saursýni, en greinilegt var að mikil aukning var í fjölda þolhjúpa 3-6 vikum eftir að kálfar komu saman við aðra kálfa í hópstíu. Kálfarnir voru almennt fljótir að mynda mótstöðu, þar sem næsti toppur í þolhjúpafjölda var mun lægri. Sjúkdómsvaldandi tegundir fundust á öllum þremur búum, og voru í flestum tilfellum mest áberandi á þessu tímabili, þó svo að einkenni hafi verið sjaldgæf og væg.

Íslenskir bændur geta notað sér þessar upplýsingar til þess að velja fyrirbyggjandi aðgerðir út frá aðstæðum í sínu kálfauppeldi, bæði hvað varðar hættuna á umhverfissmiti og fyrirbyggjandi meðhöndlun með hníslalyfjum.

Í ritinu er fjallað almennt um lífsferil Eimeria hnísla og áhættuþætti hníslasmits og hníslasóttar. Hér má nálgast ritið í heild sinni.

Ritröð LbhÍ

Þú ert að nota: brimir.rhi.hi.is