Skrúðgarðyrkja

Þriggja ára nám á starfsmenntasviði, staðarnám og fjarnám.
Kennt á Reykjum í Ölfusi.

--Aðeins er tekið inn á brautina annað hvert ár. Næst verður opið fyrir umsóknir vor 2022--

Skrúðgarðyrkja er lögfest iðngrein og stunda nemendur samningsbundið iðnnám hjá viðurkenndum skrúðgarðyrkjumeistara með bóklegu námi. Náminu lýkur með sveinsprófi sem síðar gefur möguleika á meistaranámi í skrúðgarðyrkju. Námið skiptist í tveggja ára bóklegt staðarnám sem kennt er á Reykjum í Ölfusi og 60 vikna verknám undir handleiðslu skrúðgarðyrkjumeistara. Fjarnám er fjögurra ára bóklegt nám auk verknáms.

Skrúðgarðyrkjufræðingar annast m.a. nýframkvæmdir við gerð garða og útisvæða – leggja hellur, hlaða veggi og planta út trjám svo dæmi séu tekin. Þeir sjá líka um viðhald eins og trjá- og runnaklippingar, illgresiseyðingu, slátt, mosatætingu, úðun, áburðargjöf og margt fleira. Sérhæfing er umtalsverð. Sum fyrirtæki eru nær eingöngu í nýframkvæmdum en önnur helga sig viðhaldi garða og stórra opinna svæða.

Áherslur í námi

Í skrúðgarðyrkjunámi er kennt allt er viðkemur nýbyggingu, viðhaldi og endurgerð lóða af ýmsum stærðum og gerðum, hvort sem það er einkagarðurinn eða stór opin svæði. Skrúðgarðyrkjunemar læra auk þess öll helstu undirstöðufög garðyrkjunnar eins og grasafræði, jarðvegsfræði, plöntulífeðlisfræði, plöntuvernd, rekstrar- og markaðsfræði og plöntuþekkingu á trjám, runnum og garðblómum.

Að loknu námi

Skrúðgarðyrkjufræðingar hafa allnokkra atvinnumöguleika, m.a. hjá skrúðgarðyrkjufyrirtækjum, sveitafélögum eða garðyrkjudeildum stærri stofnana ýmist sem almennir starfsmenn eða verkstjórar. Margir fara út í sjálfstæðan rekstur eða vinna sem verktakar hjá stærri fyrirtækjum.

Framhaldsnám

Að loknu sveinsprófi er hægt að skrá sig í Meistaraskólann en það nám tekur að jafnaði þrjár til fjórar annir. Skrúðgarðyrkjubrautin er góður undirbúningur ef fólk vill hefja háskólanám eins og t.d. í umhverfisskipulagi, þó er æskilegt að nemar hafi þá lokið fleiri kjarnaeiningum í framhaldsskóla. Skrúðgarðyrkjufræðingum stendur einnig margvíslegt nám til boða í nágrannalöndum okkar og sækja það flestir til Danmerkur eða Svíþjóðar.

Brautarstjóri er Ágústa Erlingsdóttir

Inntökuskilyrði á skrúðgarðyrkjubraut Landbúnaðarháskóla Íslands

Námssamningur í skrúðgarðyrkju

Plöntusafn garðyrkjubrauta

Skrúðgarðyrkjubraut á Facebook

 

 

Þú ert að nota: brimir.rhi.hi.is