Starfsstöðvar LbhÍ

Hvanneyri
Aðalstarfsstöð Landbúnaðarháskólans er á Hvanneyri í Borgarfirði. Þar fer fram kennsla á háskólabrautum og á búfræðibraut. Á Hvanneyri eru skrifstofur og stjórnsýsla skólans. Tilraunastöð LbhÍ í jarðrækt.

Keldnaholt
Á Keldnaholti í Reykjavík er aðalaðsetur rannsóknasviðs LbhÍ. Kennsla í skipulagsfræði til meistaragráðu fer fram þar. Landgræðsluskóli Háskóla Sameinuðu Þjóðanna er þar með aðstöðu.

Reykir
Starfsstöðin á Reykjum í Ölfusi stendur rétt fyrir ofan sundlaugina í Hveragerði. Að Reykjum fer fram kennsla á garðyrkjubrautum. Á Reykjum eru einnig haldin ýmis námskeið á vegum Endurmenntunardeildar LbhÍ.

Hvanneyrarbúið, Hestur og Mið-fossar
Á Hvanneyri er tilrauna- og kennslufjós og aðstaða til allra jarðræktar- og umhverfisrannsókna. Á Hesti í Borgarfirði er tilraunabú skólans í sauðfjárrækt. Þar fara fram kynbóta- og erfðarannsóknir, ásamt tilraunum með jarðrækt og meðferð og fóðrun sauðfjár. Jörðin hefur einnig verið nýtt til rannsókna í umhverfismálum m.a. varðandi endurheimt votlendis. Nemendur sem stunda nám er lýtur að búskap og búvísindum fá náms- og rannsóknaraðstöðu á þessum stöðvum. Á Mið-fossum er hestamiðstöð og fer þar fram kennsla í hestatengdum áföngum.

Möðruvellir í Hörgárdal
Á Möðruvöllum í Hörgárdal var búrekstur á jörðinni lagður niður en hluti af húsakosti og landi hefur verið leigt út. Möðruvellir henta afar vel til vistfræðilegra rannsókna til dæmis á næringarefnahringrásum og margskonar umhverfisáhrifum af landbúnaði, en þar er hægt að vakta ýmsar mælingar samfellt yfir lengra tímabil.

Stóra Ármót
Á Stóra-Ármót í Flóahreppi er rekið tilraunabú í samvinnu við Kennslusvið Búnaðarsamband Suðurlands. Þar er tilraunafjós og öll aðstaða til fóðrunarrannsókna.

Þú ert að nota: brimir.rhi.hi.is