Stefna og skipurit Landbúnaðarháskóla Íslands

Ný stefna til fimm ára

Landbúnaðarháskóli Íslands starfar á þremur meginstarfstöðvum, að Hvanneyri í Borgarbyggð, Reykjum í Ölfusi og Keldnaholti í Reykjavík. Í júní síðastliðnum var samþykkt ný stefna til fimm ára fyrir Landbúnaðarháskólann. Sett voru fram þrjú gildi: SJÁLFBÆRNI, HAGSÆLD og FRAMSÆKNI og framtíðarsýnin sett fram í eftirfarandi setningu: Landbúnaðarháskóli Íslands er þekktur innanlands sem og á alþjóðavettvangi fyrir framsækna kennslu, rannsóknir og nýsköpun sem stuðli að verðmætasköpun og fæðuöryggi til framtíðar með sjálfbærri nýtingu auðlinda. 

Stefnunni er skipt í sex áherslur; 

  • Stuðla að nýsköpun og verðmætasköpun,
  • Sækja fram á sviði rannsókna og þróunar,
  • Bjóða framsækið og virðisaukandi nám,
  • Tryggja skilvirka nýtingu innviða,
  • Efla mannauð og liðsheild og
  • Tryggja traust og gott orðspor.

Hverri áherslu er síðan fylgt eftir með aðgerðum, mælikvörðum og markmiðum og hefur skólinn unnið markvisst að eftirfylgni og þegar náð góðum árangri. Í því sambandi má nefna að styrkir sem fengust úr samkeppnissjóðum voru rúmlega tvöfalt hærri en undanfarin ár, nemendum hefur fjölgað, innviðir hafa verið styrktir, ráðið hefur verið í nýjar stöður, nýir samstarfssamningar verið gerðir og reglulega birtast jákvæðar fréttir úr starfi skólans. Stefnu skólans má lesa í heild sinni hér.

Nýtt skipurit

Um síðustu áramót var nýrri stefnu fylgt eftir með nýju skipuriti. Háskólaráð fer með yfirstjórn skólans og dagleg stjórnun er í höndum framkvæmdastjórnar sem skiptist í fræðasvið og sameiginlega stjórnsýslu. Fagbrautum er nú skipt á þrjár fagdeildir sem bera heitin Ræktun og fæða, Náttúra og skógur og Skipulag og hönnun. Á hverri deild er boðið upp á starfsmenntanám á framhaldsskólastigi, grunnnám (BS) og framhaldsnám (MS og PhD).

Lögð er áhersla á að efla rannsóknir og nýsköpun til að styðja við kennslu á öllum námsstigum. Deildarforsetar voru valdir til forystu fyrir hverja deild og með þeim í deildarráði sitja brautarstjórar sem tryggir að allar brautir komi að stjórnun, sem og fulltrúar nemenda.

„Með nýjum fagdeildum er ætlunin að efla samstarfið á milli námsstiga, ná fram samlegðaráhrifum, bæta innviði skólans og nýtingu þeirra og styrkja um leið þverfaglegt samstarf“ segir Ragnheiður I. Þórarinsdóttir rektor  

Fagdeildirnar mynda saman fræðasvið skólans og rektor, deildarforsetar og starfsmenntanámsstjóri mynda stjórn þess. Til að styðja við fagdeildir er stoðþjónusta skólans sem nú skiptist í rektorsskrifstofu, rekstrarsvið, rannsóknir og alþjóðasamskipti og kennsluskrifstofu. Stoðþjónusta skólans hefur verið efld með nýjum mannauðs- og gæðastjóra og upplýsinga- og skjalastjóra sem tóku til starfa í byrjun ársins. Rektor stýrir stjórnsýslu skólans ásamt skrifstofustjóra rektorsskrifstofu, rekstrarstjóra, rannsókna- og alþjóðafulltrúa og kennslustjóra. Skipurit skólans má finna hér.

Endurmenntun

Endurmenntun og fræðsla fyrir almenning er starfrækt í þeim fræðum sem viðurkenning háskólans tekur til. Endurmenntun skólans hefur náð miklum vinsældum og er bæði boðið upp á einstök námskeið og viðbótarnám. Má þar sem dæmi nefna fjölmörg námskeið sem tengjast ræktun og náttúrunytjum, jurtalitun, Reiðmanninn og Grænni skóga.

Landbúnaður, umhverfi og skipulag skipta okkur öllu máli

Á næstu árum mun áfram verða lögð áhersla á að efla rannsóknir og alþjóðastarf og samþætta rannsóknir, nýsköpun og kennslu á lykilsviðum skólans sem snúa að sjálfbærri nýtingu auðlinda, umhverfis, skipulags og matvælaframleiðslu á norðurslóðum. Eftir hremmingar sem gengið hafa yfir heiminn að undanförnu ætti öllum að vera ljóst að þetta eru þau svið sem skipta okkur öll mestu máli þegar allt kemur til alls.

Þú ert að nota: brimir.rhi.hi.is