Styrkur til mastersnáms í jarðvegsvistfræði og jarðvegsheilbrigði í lífrænni ræktun

VOR – verndun og ræktun, félag framleiðenda í lífrænum búskap og Landbúnaðarháskóli Íslands hafa nú tekið saman höndum til að efla rannsóknir í lífrænum landbúnaði hér á landi.

Nokkuð hefur skort á rannsóknir í lífrænni ræktun hérlendis og þykir mikilvægt að kanna áhrif hennar hér á landi í ljósi nýrra áskorana í umhverfismálum og mótun landbúnaðar í framtíðinni. Erlendis hafa rannsóknir sýnt fram á margvíslega kosti lífrænnar ræktunar m.t.t. vistkerfis og sjálfbærni. Heilsa jarðvegs sé almennt betri og jafnvel sé kolefnisbinding meiri. Í samstarfi sínu munu VOR og LBHÍ leita leiða til að koma á rannsóknum og mælingum á þeim lykilþáttum sem snúa að samspili þessa ræktunarforms og umhverfisverndar í landbúnaði.

Styrkur til mstersnema við Landbúnaðarháskóla Íslands til rannsókna 

Verkefnið er á sviði jarðvegsvistfræði og miðar að því að kanna og bera saman smádýr, sveppi og örverur (með DNA greiningu) í jarðvegi sem annars vegar hefur fengið tilbúinn áburð og hins vegar sauðatað. Einnig verður mæld öndun í jarðvegssýnunum og hvernig hún bregst við ólíkum umhverfisþáttum. Markmiðin eru að leiða fram áhrif ólíkra áburðarmeðferða, þ.e. lífrænna og ólífrænna, á líffræðilega fjölbreytni og starfsemi jarðvegsins og þar með heilbrigði hans.

Rannsóknin skal fara fram á framræstu tilraunalandi skólans á Hvanneyri sem hefur til áratuga fengið ólíka skammta af hefðbundnum áburði annars vegar og sauðatað hins vegar.

Leiðbeinendur í verkefninu verða Próf. Jan Axmacher LBHÍ og Próf. Ólafur S. Andrésson HÍ. VOR og LBHÍ óska hér með eftir umsóknum nemenda með háskólapróf í lífvísindum/umhverfisfræðum í þetta verkefni.

Umsókninni þarf að fylgja ferilskrá og stutt persónuleg greinargerð frá viðkomandi sem lýsir áhugasviði og framtíðaráformum. Styrkupphæðin er 1,5 milljón króna, þar af eru áætlaðar 500.000 kr í efniskostnað. Umsóknum skal skila á rafrænu formi til Guðmundu Smáradóttur, mannauðs- og gæðastjóra LbhÍ (gudmunda@lbhi.is) fyrir 10. febrúar 2020.

Facebókar síða VOR

Þú ert að nota: brimir.rhi.hi.is