Upphaf skólaárs með tilliti til smitvarna

Nú styttist í að nýtt skólaár hefjist og hér að neðan eru nokkur atriði til upplýsingar vegna hertra smitvarna. Neyðarstjórn skólans fundaði í upphafi vikunnar og fór yfir stöðu mála. Reglur um fjarlægðarmörk og hámarksfjölda í rýmum gilda nú til 13. ágúst en viðbrögð skólans miðast við að þær reglur muni gilda áfram og verði jafnvel hertar. Unnið að því að skipta nemendum upp í hópa þannig að komið sé til móts við reglur um 2 metra fjarlægðarmörk og hámarksfjölda í rýmum (nú 100 manns). Gera má ráð fyrir því að hluti kennslunnar fari fram í fjarnámi sérstaklega þar sem um stóra hópa er að ræða. Samkvæmt upplýsingum frá ráðuneytinu koma grímur ekki í stað 2 metra reglunnar við kennslu í skólum.

Gert er ráð fyrir að skólasetning verði hópaskipt, en upplýsingar um fyrirkomulag þess sem og fjarnemaviku verða sendar í næstu viku. Sérstaklega verður haft samband við nýnema varðandi fyrirkomulag skólasetningar og kynningardaga.

Mötuneyti munu verða opin en skammtað verður á diska og hópaskiptingum komið á. Rétt er að minna fólk á að fylgja reglum og þvo sér vel um hendur og spritta. Ef fólk er viðkvæmt eða finnur fyrir veikindum er brýnt að halda sig heima. Skólinn munum senda út upplýsingar reglulega og þegar mál skýrast. Gert er ráð fyrir að samráðshópur ráðuneytisins og skólanna verði settur á fót aftur í lok þessarar viku.

Við vonum að þetta gangi yfir hratt og vel og starfsemin komist í eðlilegt form sem fyrst, en þangað til gerum við okkar ítrasta til að röskun á skólastarfi verði sem minnst.

Þú ert að nota: brimir.rhi.hi.is