Út er komið rit LbhÍ nr. 131: Sel og selstöður í Dýrafirði

Í ritinu er greint frá rannsóknum sem Bjarni Guðmundsson, áður prófessor við Landbúnaðarháskólann, hefur um langt árabil stundað á minjum um sel og seljabúskap við Dýrafjörð.

Fyrr á öldum tíðkaðist að hafa búfé í seli fjarri heimabæ, bæði til þess að hlífa heimalöndum við beit en ekki síður til þess að nýta kostamikil en fjarliggjandi beitilönd.  Við Dýrafjörð töldust vera 43 jarðir skv. Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalín frá 1710. Minjar um sel af einhverju tagi er að finna á að minnsta kosti 32 þeirra. Á sumum jarðanna hafa selin verið tvenn – og hugsanlega fleiri. Síðustu selin þar voru aflögð fyrir 130-140 árum svo munnlegar heimildir um þau voru orðnar mjög rýrar. Það eru því einkum sjáanlegar tóftir og mannvirkjaleifar sem eru til vitnis um selin og seljabúskapinn.

Selin lágu langflest á framdölum; voru þannig útstöðvar frá heimabýlunum. Selin og selstöðurnar voru liður í skipulegri landnýtingu. Af staðsetningu þeirra má greina skiptingu gróðurlendis jarðanna í tvennt: húshaga  og selhaga.  Auk kvía og leifa af smalakofum virðast á sumum seljanna hafa verið hús til dvalar og starfa: viðlegustaðir um seljatímann (júlí – ágúst/sept.). Á öðrum selstöðum var sýnilega minna umleikis – að selin hafi nánast verið sem stekkir. Trúlega voru selmannvirkin einnig notuð á öðrum tímum árs, svo sem vegna haustbeitar sauðfjár, sauðabeitar á útmánuðum og umönnunar lambfjár á vorum.

Í Grágás, lagasafni íslenska þjóðveldisins, voru skýr ákvæði um sel og selfarir. Landnámsbændur báru verkháttinn með sér, sem síðan þróaðist margvíslega, allt eftir náttúrulegum aðstæðum í hverri sveit, sem og eftir félagslegum skilyrðum einnig, svo sem mannafla og ábúðarháttum, auk árferðis.

En svo breyttust nýtingarhættir sauðfjár. Fráfærum, mikilvægri forsendu seljabúskaparins, var hætt, kýrnar einar lögðu til mjólkina en ærnar fengu að annast lömb sín ótruflaðar sumarlangt. Sel og stekkir urðu að hverfandi minjum.

Ritið er nr 131 í ritröð Landbúnaðarháskóla Íslands, Rit LbhÍ og má finna í heild sinni hér.

Yfirlit yfir útgefin rit í ritröðinni má finna hér

Þú ert að nota: brimir.rhi.hi.is