Blómaskreytingar
Blómaskreytinganámið veitir nemendum undirstöðuþekkingu í störfum sem lúta að blómaskreytingum sem notaðar eru við margvísleg tækifæri. Nemendur fá innsýn í rekstur blómaverslana og læra að setja fram vörur í verslunum en auk þess er þeim kennd meðferð afskorinna blóma og greina og að þekkja algengustu pottaplöntur og meðferð þeirra. Nemendum er kennt að þekkja og vinna með algengustu stílbrigði blómaskreytinga.

Að loknu námi fá nemendur starfsheitið garðyrkjufræðingar af Blómaskreytingabraut eða blómaskreytar. Á námstímanum læra nemendur flest það sem kemur að meðferð og notkun blóma í blómaskreytingum, form og litafræði, útstillingar og fleira sem nýtist þeim í starfi sem blómaskreytar. Auk þess læra þeir meðhöndlun helstu garðplanta.

Störf
Starfsvettvangur blómaskreyta er blómaverslanir, blómaheildsölur, sjálfstætt starfandi blómaskreytar. Að loknu námi geta nemendur starfað sjálfstætt sem blómaskreytar og tekið að sér verslunarstjórn og/eða rekstur blómaverslunar. Starfið er ákaflega fjölbreytt og blómaskreytar eru þátttakendur í stærstu viðburðum viðskiptavina sinna svo sem stórafmælum og brúðkaupum. Námið býður upp á möguleika á framhaldsnámi erlendis auk þátttöku í alþjóðlegum keppnum á sviði blómaskreytinga.

Inntökuskilyrði
Gert er ráð fyrir að umsækjandi hafi lokið 12 vikna reynslutíma við alhliða blómaverslunarstörf, auk hluta af verknámi áður en þeir hefja bóknám.
Umsækjandi þarf að hafa lokið tveimur til fjórum önnum í framhaldsskóla. Framhaldsskólapróf er æskilegur undirbúningur, auk íslensku (6e), dönsku (4e), ensku (4e) og stærðfræði (4e) er ætlast til að nemendur hafi lokið grunnáföngum í, viðskiptagreinum (5e) og tölvufræði (3e).
Heimilt er að meta reynslu úr atvinnulífi til hluta fornáms á framhaldsskólastigi og er það skoðað hverju sinni.
Umsókn um skólavist skulu fylgja prófskírteini frá framhaldsskóla, vottorð um verklegt nám og reynslutíma og ósk um samþykki verknámsstaðar.

Umsókn um nám. Smella hér.