Starfsreglur starfsmenntanámsStarfsreglur starfsmenntanáms við LbhÍ

Almennt

Landbúnaðarháskóli Íslands rekur starfsmenntun í búfræði, blómaskreytingum, garð- og skógarplöntuframleiðslu, ylrækt, lífrænni ræktun matjurta, skógi/náttúru og skrúðgarðyrkju. Háskólinn miðlar fræðslu til almennings og veitir samfélaginu þjónustu í krafti þekkingar sinnar. Leitað er samráðs fagnefnda um skipulag og innihald námsins, sem og endurmenntunar.

Inntökuskilyrði

Nám á starfsmenntabrautum Starfs- og endurmenntunardeildar LbhÍ er sérhæft starfsmenntanám með námslok á þriðja hæfniþrepi.

Umsækjandi þarf að hafa lokið þremur til fjórum önnum í framhaldsskóla og vera orðinn 18 ára.  Einnig er heimilt að taka inn nemendur sem orðnir eru 25 ára gamlir og hafa reynslu úr faginu en eru ekki með formlega menntun á framhaldsskólastigi.  Um nemendur sem koma inn gegnum raunfærnimat gilda þær reglur sem raunfærnimatsferillinn innifelur.

Gert er ráð fyrir að umsækjandi á búfræðibraut hafi að minnsta kosti eins árs reynslu af störfum úr landbúnaði sem skólinn viðurkennir, áður en bóknám hefst.

Gert er ráð fyrir að umsækjandi á garðyrkjubrautir hafi lokið að minnsta kosti 12 vikna verknámi á verknámsstað sem skólinn viðurkennir, áður en bóknám hefst.

Nemendur sem koma inn í fjarnám búfræði þurfa að vera orðnir 25 ára gamlir og hafa aðalatvinnu sína af landbúnaðarstörfum.  

Nemendur sem koma inn í fjarnám í garðyrkju þurfa að vera orðnir 25 ára gamlir og vera starfandi í faginu.

Umsækjandi þarf að hafa lokið að lágmarki eftirtöldum áföngum í almennum framhaldsskóla (alls 45 fein): 

 • Íslenska á fyrsta og öðru hæfniþrepi, alls 10 fein
 • Enska á fyrsta og öðru hæfniþrepi, alls 10 fein
 • Danska 5 fein
 • Stærðfræði á öðru hæfniþrepi, alls 5 fein
 •  Efnafræði – nemendur þurfa að hafa lokið almennri efnafræði á fyrsta eða öðru hæfniþrepi (5 fein) og æskilegt er að nemendur í búfræði hafi einnig lokið lífrænni efnafræði (5 fein).
 • Almenn líffræði á fyrsta eða öðru hæfniþrepi 5 fein
 • Bókfærsla á fyrsta hæfniþrepi 5 fein
 • Gert er ráð fyrir að nemendur séu vel tölvufærir og hafi góð tök á námstækni.

Æskilegt er að nemendur í búfræði hafi einnig lokið lífrænni efnafræði (5 fein).

Æskilegt er að  nemandi hafi gilt skyndihjálparskírteini. 

Heimilt er að meta reynslu úr atvinnulífi til hluta fornáms á framhaldsskólastigi og er það skoðað í hverju tilviki. Umsókn um skólavist skulu fylgja prófskírteini frá framhaldsskóla og upplýsingar um starfsreynslu úr landbúnaði. 

Umsóknir skulu berast kennsluskrifstofu skv. auglýsingum þar um. Til að hljóta innritun þarf nemandi að standa skil á skrásetningargjöldum.

Mat á fyrra námi

Nemendur sem áður hafa lokið einstökum námsáföngum geta sótt um að fá metna þá áfanga sem eru sambærilegir námsáföngum starfsmenntanáms að mati skólans. Kennsluskrifstofa framkvæmir matið og hefur kennslunefnd heimild til að gera kröfu um lágmarkseinkunn í viðkomandi áföngum. Námsskylda viðkomandi minnkar þá sem þessum einingum nemur en að jafnaði styttir slíkt mat ekki námstíma. Skólinn metur ekki inn nám í faggreinum eldra en 10 ára en nemandi með mikla reynslu á viðkomandi sviði getur farið fram á að taka stöðupróf í viðkomandi fagi til að sýna fram á þekkingu sína.

Skipulag náms á búfræðibraut

1. stuttönn: Grunnnám á Hvanneyri

2. stuttönn: Grunnnám á Hvanneyri

3. stuttönn: Grunnnám á Hvanneyri

4. stuttönn: Námsdvöl á kennslubúi

5. stuttönn: Nám á Hvanneyri

6. stuttönn: Nám á Hvanneyri

7. stuttönn: Nám á Hvanneyri

8. stuttönn: Nám á Hvanneyri

Heildarnámstími spannar tvö ár, frá lok ágúst, þegar nám á 1. önn hefst og fram í miðjan maí á 2. námsári, þegar 8. önn lýkur.

[…].

Skipulag náms á garðyrkjubrautum

Nám á garðyrkjubrautum skiptist í fjórar annir á Reykjum (bóklegt nám með verklegum æfingum) og alls 60 vikna verknám á verknámsstað sem skólinn viðurkennir. 

Kennslufyrirkomulag

Kennsla fer fram með fyrirlestrum, verkefnatímum, dæmatímum, verklegum æfingum, námsdvöl, verknámi og námsferðum.

Um kennslustundir gildir eftirfarandi:

- Hver kennslustund er 40 mínútur.

- Hverri einingu eru ætlaðar 12-16 kennslustundir á önn eða þrír heilir vinnudagar nemandans, hvort sem um er að ræða fyrirlestra, verklegar æfingar eða heimanám.

- Áætlaðar eru 34-38 kennslustundir á viku hverri í skólanáminu og a.m.k. 30 stunda vinnuvika í námsdvöl/verknámi og bóklegt nám að auki.

Fyrra kennsluár búfræðibrautar skiptist í fyrri og seinni haustönn sem eru 7 kennsluvikur hvor auk 1-2 prófavikna í lok hverrar annar og í fyrri vorönn í skóla (9-10 kennsluvikur auk prófa).  Einstaka áfangar falla ekki undir stuttannakerfið heldur geta dreifst á heilt misseri (tvær samliggjandi annir að vori eða hausti).  Námsdvöl hefst að loknum þeim prófum og stendur yfir í þrjá mánuði (12 vikur). Á seinna kennsluári eru 4 stuttannir sem eru 7 vikur hver auk 1-2 prófavikna. Við skiptingu námsins á búfræðibraut er miðað við eftirfarandi forsendur:

- Námstími á stuttönn sem alfarið er tekin við skólann er 7 vikur auk prófa.

- Heildartími í námsdvöl í búfræði er 12 vikur (lágmark 60 vinnudagar)

Fyrra kennsluár garðyrkjubrauta skiptist í haustönn og vorönn.  Verklegar lotuvikur eru 1., 5., og 10. kennsluvika hverrar annar og mæta þá allir nemendur í verklegar æfingar, bæði staðar- og fjarnemar.  Seinna kennsluár garðyrkjubrauta skiptist einnig í haustönn og vorönn. 

Námsdvalarbú búfræði

Búfræðibraut LbhÍ er í samstarfi við 70 til 80 bú víðs vegar um landið. Bændur á þessum búum taka nemendur í námsdvöl í þrjá mánuði á tímabilinu apríl-júlí. Á búum þessum er að minnsta kosti einn aðili með búfræðimenntun eða frekari menntun í búvísindum. Nemendur taka þátt í öllum venjulegum bústörfum, auk þess sem þeir safna upplýsingum og vinna verkefni tengd búrekstrinum undir handleiðslu bóndans og kennara við skólann. Námsdvöl á kennslubúi jafngildir 15 einingum auk þess eru unnin ýmis verkefni sem alls telja 5 einingar.

Undanþágur frá námsdvöl á bændabýlum

Nemanda með mikla starfsreynslu í búskap má veita undanþágu frá venjulegri námsdvöl og þarf hann þá að uppfylla eftirfarandi lágmarkskröfur:

- vera orðinn 25 ára.

- hafa unnið við landbúnaðarstörf í fullu starfi samfellt í 2 ár á síðastliðnum 5 árum.

Slíkar undanþágur gilda ekki um bóklega hluta námsdvalarinnar, verkefni og plöntusafn.

Verknám í garðyrkju

Nemendur þurfa sjálfir að útvega sér verknámsstað með því að hafa samband við viðkomandi garðyrkjufyrirtæki og sækja um verknámspláss.  Gert er ráð fyrir því að verknám í garðyrkju sé alltaf undir handleiðslu fagmanns.  Eigi nemandi erfitt með að finna verknámsstað getur skólinn aðstoðað hann við að komast í verknám, eftir því sem tök eru á.  Nemendur halda dagbók á verknámstímanum og skila dagbókinni til námsbrautarstjóra við komuna í skólann að hausti eða eftir nánara samkomulagi við námsbrautarstjóra.  Verknám í garðyrkju jafngildir 100 einingum. 

Fjarnám

Heimilt er að bjóða upp á fjarnám við einstakar brautir í starfsmenntanámi við Landbúnaðarháskóla Íslands. Skólinn setur sérstakar reglur um fjarnám.

Reglur um Skólasókn

Við starfsmenntanám Landbúnaðarháskóla Íslands gildir sú regla að nemendur skuli sækja allar kennslustundir sem þeir eru skráðir í.

Fjarvistir eru skráðar í gegnum netkerfið Uglu og ber hver nemandi ábyrgð á að fylgjast með að fjarvistir séu rétt skráðar. Ábendingum og leiðréttingum vegna einstaka skráninga þarf að koma til kennara þess áfanga sem við á innan við viku eftir að skráning á sér stað.

 

Fjarvistarskráning

Fjarvistir eru skráðar af kennara jafnóðum inn í Ugluna.

Sé nemandi fjarverandi úr tíma eru skráð tvö fjarvistarstig. Mæti nemandi innan við 10 mínútum eftir að kennsla hefst, eða fari úr tíma áður en kennslu lýkur er skráð eitt fjarvistarstig.

Fjarvistir

Fari heildarmæting nemanda undir 90% fær hann senda áminningu um að bæta ráð sitt.

Fari heildarmæting nemanda undir 85% fær hann senda viðvörun.

Fari heildarmæting nemanda undir 80% hefur hann sjálfkrafa sagt sig frá námi.

Fari nemandi undir 75% mætingu í einstaka áfanga hefur nemandi sjálfkrafa sagt sig úr þeim áfanga.

Gerð er krafa um raunmætingu í a.m.k. 60% tíma í hverjum áfanga til þess að nemandi hafi próftökurétt og geti staðist áfangann.

Heildarmæting: Heildarmæting nemanda í alla áfanga frá upphafi annar.

Raunmæting: Raunveruleg mæting í tíma í hverjum áfanga, fyrir utan vottorð og leyfi.

Leyfi

Nemendur geta sótt um leyfi frá mætingu vegna sérstakra aðstæðna eða fyrir sérstaka viðburði. Sækja skal um leyfi til kennsluskrifstofu sem tekur ákvörðun um hvort leyfi er veitt í samráði við námsbrautarstjóra. Að öðrum kosti skulu leyfi rúmast innan 80% ramma um heildarmætingu. Þó er gert ráð fyrir 100% mætingu í verklega þætti.

Veikindi

Veikindi koma ekki til frádráttar á fjarvistarstigum og skulu rúmast inna 80% rammans. Komi til langtíma veikinda (veikindi sem vara 3 daga eða lengur) skal skoða hvert mál sérstaklega og fyrir því liggja vottorð læknis. Þó ber að tilkynna veikindi samdægurs á skiptiborð skólans eða með tölvupósti til kennsluskrifstofu fyrir kl. 9:00 á morgnanna.

Komi til langtímaveikinda skal vottorði skilað til kennsluskrifstofu innan 5 virkra daga eftir að veikindum lýkur. Vottorð sem berast eftir þann tíma eru ekki tekin gild.

Verklegir tímar

Um verklega kennslu gildir sú almenna regla að 100% mætingarskylda er í alla tíma.

Ábyrgð nemenda

Nemanda ber sjálfum að fylgjast með skólasókn sinni í Uglunni. Hafi hann athugasemdir vegna fjarvistaskráninga verður hann að koma þeim á framfæri við viðkomandi kennara innan við viku frá því að skráning á sér stað. Sé nemandi fjarverandi úr tíma ber hann sjálfur ábyrgð á að nálgast upplýsingar um hvað fram fór í tímanum.

Frjáls mæting

Heimilt er að veita nemendum 25 ára og eldri frjálsa mætingu ef um sérstakar aðstæður er að ræða. Nemandi skal gera skriflega grein fyrir ástæðum þess að hann skuli hljóta frjálsa mætingu og sækja um það sérstaklega fyrir hverja önn til námsráðgjafa. Slíkar umsóknir skulu afgreiddar á fyrstu viku hverrar annar.

Samskipti

Nemendum LbhÍ er útvegað sérstakt netfang innan kerfis skólans.  Mikilvægt er að nemendur fylgist vel með skólanetfangi sínu því öll samskipti skólans við nemendur fara í gegnum kennslukerfi skólans, þar með talin nemendanetföng skólans. 

Umgengni

Nemendur skulu leitast við að valda samstarfsfólki ekki truflun og vanda umgengni um húsnæði og lendur skólans og fara í einu og öllu að reglum þar um.

Má hér benda á að mælst er til að nemandi sé annað hvort mættur við upphaf kennslustundar eða bíði að öðrum kosti þar til næsta kennslustund hefst. Einnig er mælst til að nemendur yfirgefi ekki kennslustund nema brýna nauðsyn beri til og þá með leyfi kennara, enda veldur umgangur í kennslustundum ónæði.

Öll meðferð áfengis og annarra vímuefna er óheimil í kennsluhúsnæði og námsferðum. Meðferð tóbaks er bönnuð í kennslustofum. Fartölvur séu ekki notaðar í kennslustundum, nema um beina notkun vegna kennslunnar sé að ræða. Nemendur sýni kennara og félögum sínum þá virðingu að fylgjast með framvindu kennslunnar í skólastofunni. Notkun farsíma er óheimil í kennslustundum nema í neyðartilfellum og þá með leyfi kennara.

Um próf

Próftímabil, gerð prófa

Próf eru haldin að loknum tilgreindum fjölda kennsluvikna (sjá um lengd anna). Sjúkra- og endurtökupróf skal að öllu jöfnu halda vegna haustanna fyrir 15. janúar og vegna voranna fyrir 20. maí.

 

Próf geta verið skrifleg, verkleg eða munnleg. Heimilt er að meta ritgerðir, skýrslur o.þ.h. í stað prófs eða sem hluta af námsmati og áskilja lágmarkseinkunn í hverjum þessara hluta. Samráð skal vera um þetta á milli kennslustjóra og hlutaðeigandi kennara og ákvörðun kunngerð nemendum í kennsluáætlun við upphaf kennslu í viðkomandi áfanga.

Vægi lokaprófs skal að jafnaði ekki vera minna en 50% af lokaeinkunn nema um próflausan áfanga sé að ræða (á þessu geta þó verið undantekningar).

 

Skyndipróf

Á hverri námsönn er heimilt að halda skyndipróf. Úrlausnum skyndiprófa skal skila nemendum í kennslustund viðkomandi námsgreinar og getur nemandi gert athugasemd við einkunn í lok þeirrar yfirferðar. Heimilt er að láta skyndipróf gilda sem hluta af lokaeinkunn. Skyndipróf, ef haldin eru og vægi þeirra í lokaeinkunn, eru tilkynnt fyrirfram í

kennsluáætlun.

 

Prófkröfur

Námsárangur má meta til einkunnar eftir námsverkefnum, skyndiprófum og áfangaprófum auk lokaprófs í hverri námsgrein. Um prófkröfur gildir eftirfarandi:

- Nemandi þarf ávallt að ná lágmarkseinkunninni 4,5 í lokaprófi hverrar námsgreinar, óháð vægi þess. Heimilt er að krefjast hærri einkunnar.

- Einnig þarf meðaleinkunn námsverkefna í hverri námsgrein að ná lágmarkseinkunninni 4,5. - Heimilt er að krefjast hærri meðaleinkunnar námsverkefna.

- Heimilt er að krefjast lágmarkseinkunnar í einstökum verkefnum.

- Heimilt er að setja ákveðin skilyrði – önnur en lágmarkseinkunn til að nemandinn standist áfangann.

- Prófkröfur hvers áfanga skulu koma fram í kennsluáætlun sem kynnt er nemendum í upphafi annar og skal vera aðgengileg á námsvef.

Úrlausnir skriflegra prófa skulu metnar af viðkomandi kennara. Heimilt er að kalla til prófdómara við munnleg og verkleg próf, í samráði við kennslustjóra. Vilji nemandi gera athugasemdir við lokaeinkunn sína, skal hann skila þeim skriflegum til kennslustjóra innan þriggja virkra daga frá prófsýningu. Skólanum er skylt að varðveita skriflegar úrlausnir nemenda í samræmi við almennar reglur sem þar um gilda.

Um framkvæmd prófa

Kennarar standa fyrir prófum í samráði við kennslustjóra. Ætla skal eina klukkustund fyrir tveggja eininga (fein) áfanga, tvær klukkustundir fyrir þriggja og fjögurra eininga (fein) áfanga en hámarkslengd skriflegra prófa eru þrjár klukkustundir og verklegra prófa fjórar klukkustundir.

Heimilt er að veita nemendum með staðfesta lestrarörðugleika og erlendum nemendum lengdan próftíma – tuttugu mínútur fyrir hverja áætlaða klukkustund prófs.

Niðurstöður prófa skulu liggja fyrir eigi síðar en á ellefta virka degi eftir prófdag en eins fljótt og nauðsyn krefur vegna brautskráningar. Próftöflur skulu liggja fyrir eigi síðar en fjórum vikum áður en viðkomandi próftímabil hefst.

Kennari sér um færslu lokaeinkunna, varðveislu þeirra og birtingu. Kennslustjóri eða staðgengill hans skal vera tiltækur meðan próf stendur yfir.

Reglur um próftöku

a) Nemendur skulu mæta stundvíslega til prófs. Mæti nemandi eftir að 15 mínútur eru liðnar af auglýstum próftíma fær hann ekki að þreyta prófið og telst fallinn í áfanganum.

b) Enginn má skila úrlausnum fyrr en ein klukkustund er liðin frá upphafi auglýsts próftíma, nema annað sé tekið fram. Ef nemandi lýkur prófi áður en skilgreindum próftíma lýkur er honum heimilt að fara úr prófstofu en skal gæta þess að trufla ekki þá sem enn eru í prófi. Að loknum próftíma ber öllum að skila úrlausnum þegar í stað.

c) Í öllum skriflegum prófum á að skila prófspurningum, úrlausnum og krassblöðum til þess er situr yfir í prófinu að prófi loknu.

d) Nemendur mega ekki hafa yfirhafnir, töskur, farsíma eða annan búnað sem ekki tilheyrir leyfilegum hjálpargögnum við prófborðið. Ekki má valda truflun í prófstofu með neyslu matar eða drykkjar.

e) Nemendum er aðeins heimilt að yfirgefa prófborð áður en þeir hafa lokið prófinu til þess að fara á salerni og þá undir eftirliti fylgdarmanns.

f) Nemandi skal skila prófúrlausn með nafni sínu og kennitölu.

g) Nemendur eiga rétt á að fá útskýringar á orðalagi prófspurninga. Kennari sem heldur próf skal að öllu jöfnu vera tiltækur á meðan próf stendur yfir. Nemar sem velja að taka próf utan skólans (fjarnemar) eiga ekki kost á slíkum útskýringum.

h) Nemendum eru birtar einkunnir á eigin heimasvæði í nemendabókhaldi skólans.

i) Fjarnemum skal standa til boða, eftir því sem unnt er, að taka próf nærri heimili sínu ef samningar nást þar um við menntastofnanir (eða aðra aðila sem LbhÍ samþykkir) í næsta nágrenni. Fjarnemar standa sjálfir straum af þeim kostnaði sem af slíku fyrirkomulagi hlýst.

Kennslustjóra er einnig heimilt, ef brýnar ástæður ber til, að heimila nemanda að taka prófið í annarri menntastofnun (eða á öðrum viðurkenndum prófstað) enda hafi verið samið fyrirfram um slíkt fyrirkomulag og þessi framkvæmd hafi engan aukakostnað í för með sér fyrir Landbúnaðarháskóla Íslands.

j) Við próf má nota þau gögn ein sem kennari leyfir. Nemendum sem eru í prófi er óheimilt að aðstoða aðra sem í prófi eru við prófúrlausnir eða leita aðstoðar annarra. Óheimilt er utanaðkomandi að veita nemanda aðstoð í prófi. Nemendum í prófi er óheimilt að tala saman meðan á prófi stendur. Brot gegn ákvæðum þessum og öðrum prófreglum sem Háskólaráð setur, varðar vísan frá prófi og eftir atvikum öðrum viðurlögum..

k) Verði nemandi uppvís að því að hafa rangt við í prófi skal prófverkefnið og úrlausnin umsvifalaust tekin af honum og kennslustjóri eða staðgengill hans kallaður til. Máli nemandans skal síðan vísað til rektors til úrskurðar.

l) Nemandi sem ekki getur mætt til prófs vegna veikinda, skal tilkynna forföll áður en próf hefst. Læknisvottorði skal skila til skrifstofu skólans um leið og mögulegt er og eigi síðar en fimm dögum eftir að próf var haldið, annars telst nemandi hafa þreytt prófið. Það sama gildir ef nemandi mætir ekki í próf vegna veikinda barns.

Um einkunnagjöf

Lokaeinkunn í hverri námsgrein skal gefin frá 0,0 til 10,0 með einum aukastaf. Mæti nemandi ekki til prófs og tilkynnir ekki fjarvist, telst hann fallinn í prófinu. Ef einkunn samanstendur af nokkrum námsþáttum skal gefa einkunn með einum aukastaf fyrir hvern námsþátt. Meðaleinkunn námsgreina reiknast með einum aukastaf. Til að nemandi standist lokapróf skal hann hljóta að minnsta kosti 4,5 í meðaleinkunn. Til að ljúka áfanga þarf lágmarkseinkunn 4,5 nema annað sé tekið fram í kennsluáætlun.

Kennari ber ábyrgð á því að birta nemendum sundurliðun einkunna í viðkomandi áföngum, ef námsmat er samansett úr tveimur eða fleiri þáttum.

Hætti nemandi í áfanga er áfanginn merktur H í prófskírteini. Fall er merkt sem F, metinn áfangi sem M og staðinn sem S. Hafi nemandi farið í sjúkra- eða endurtökupróf kemur slíkt fram á prófskírteini.

Um endurtöku prófa o.fl.

Nemandi hefur rétt á að endurtaka lokapróf (eða verkefnahluta) í áfanga tvisvar hafi hann ekki staðist lágmarkseinkunn í prófinu. Til að eiga rétt á að endurtaka lokapróf í áfanga þarf nemandi að hafa staðist að lágmarki 60% eininga á hverri önn. Miða skal við einingar bóklegra áfanga á hverri vor og haustönn. Heimili kennslustjóri endurtöku er æskilegt að hún fari fram í næsta skipti sem viðkomandi próf er haldið. Seinni einkunn skal gilda og halda verkefni vægi sínu á móti þeirri einkunn. Sé þriðji prófréttur nýttur getur heildareinkunn áfangans aldrei orðið hærri einkunn en lágmarkseinkunn eins og hún er skilgreind í kennsluáætlun/reglum skólans.

Komi sú staða upp að verkefni standist ekki þær kröfur um lágmarkseinkunn sem gerðar eru, skal eftirfarandi gilda: Kennari í samráði við kennslustjóra, getur ákveðið að nemandi vinni sérstakt (sérstök) verkefni til úrbóta á fyrri verkefnaeinkunn. Slík verkefni geta annað tveggja verið ígildi eins verkefnis eða ígildi allra verkefna annarinnar. Hvor leiðin sem valin er, fer eftir mati þessara tveggja aðila hverju sinni og skal stutt rökum þeirra, varðandi ákvörðun um umfang. Slík endurvinnsla verkefna, reiknast sem 1 endurtökuréttur áfangans. Skiladagur skal að jafnaði vera innan tveggja vikna frá því að nemanda er kynnt verkefnið. Heimilt er að hafa þennan tíma styttri ef umfang verkefnis eða aðstæður gefa tilefni til.  Endurunnin verkefni, skv. framansögðu, geta aldrei gefið hærri einkunn en lágmarkseinkunn eins og hún er skilgreind í kennsluáætlun/reglum skólans.

Háskólaráð setur reglur um gjaldtöku fyrir endurtökupróf.

Falli nemandi á önn standa þeir áfangar þar sem einkunn er 6,0 eða hærri.

Prófskírteini

Þeir sem hafa lokið námi á búfræðibraut hafa rétt til að bera starfsheitið búfræðingur.

Fagnefndir

Fagnefndir skulu vera starfandi fyrir hverja námsbraut. Fagnefndir eru skipaðar til 4 ára í senn og í þeim sitja fulltrúar skólans, atvinnulífsins og viðkomandi fagfélaga. Hlutverk fagnefnda er að vera skólanum til ráðgjafar um skipulag námsins, námsefni og endurmenntun. Brautarstjóri viðkomandi brautar er fulltrúi skólans í viðkomandi fagnefnd og jafnframt formaður nefndarinnar. Endurmenntunarstjóri stofnunarinnar situr fundi fagnefnda og samræmir hugmyndir að endurmenntunarnámskeiðum.

Eftirtöldum aðilum skal boðið að skipa fulltrúa í fagnefndir:

Búfræðibraut

 • Hagmunafélag ráðunauta
 • Landssamband kúabænda
 • Félag hrossabænda
 • Landssamtök sauðfjárbænda
 • Ráðgjafarmiðstöð landbúnaðarins
 • Bændasamtök Íslands
 • Samtök ungra bænda

Blómaskreytingabraut

 • Félag blómaskreyta
 • Félag iðn- og tæknigreina
 • Samband garðyrkjubænda (blómaframleiðendur)
 • Samtök verslunar og þjónustu

Garð- og skógarplöntubraut

 • Samband garðyrkjubænda (garðplöntuframleiðendur)
 • Félag iðn- og tæknigreina
 • Skógræktin

Skrúðgarðyrkjubraut

 • Félag iðn- og tæknigreina
 • Félag skrúðgarðyrkjumeistara
 • Félag landslagsarkitekta
 • Samtök garðyrkju- og umhverfisstjóra sveitafélaga

Skógræktarbraut

 • Félag iðn- og tæknigreina
 • Samtök garðyrkju- og umhverfisstjóra sveitarfélaga
 • Landsamtök skógareigenda
 • Skógræktin

Ylræktarbraut

 • Félag iðn og tæknigreina
 • Samband garðyrkjubænda (grænmetisframleiðendur)
 • Samband garðyrkjubænda (blómaframleiðendur)
 • Ráðgjafarmiðstöð landbúnaðarins

Lífræna brautin

 • Félag iðn og tæknigreina
 • VOR - verndun og ræktun
 • TÚN - vottunarstofan
 • Ráðgjafarmiðstöð landbúnaðarins

Tilnefna skal aðalmann og varamann. Formaður nefndarinnar sér um að boða hverja fagnefnd til funda og stýrir þeim. Að jafnaði skal boða til funda einu sinni á hverri önn. Hver tilnefningaraðili ber kostnað af sínum fulltrúa.