Góður dagur sumardaginn fyrsta á Reykjum

Um 3.500 gestir heimsóttu Reyki á sumardaginn fyrsta á opnu húsi í gær. Löng hefð er fyrir opnu húsi þennan dag og er fólki boðið að „sækja sér sumarið“ þar sem gróður í gróðurhúsum er farin á dafna á þessum tíma. Fjölbreytt dagskrá var í boði fyrir alla aldurshópa og var meðal annars hægt að kaupa íslenskt grænmeti og plöntur og þá var sölubásar með handverk og garðyrkjutengdar vörur. LbhÍ stóð fyrir kynningu á öllu námi við skólann og þá var einnig kynning á styttri námskeiðum við endurmenntunardeild.

Hátíðardagskrá var í garðskálanum þar sem umhverfis- og garðyrkjuverðlaunin 2018 voru veitt. Hvatningarverðlaun garðyrkjunnar 2018 hlaut Orri Freyr Finnbogason en hann starfar í dag við „arborisma“ sem er alþjóðlegt heiti þeirrar starfsgreinar að klifra í trjám í klifurbúnaði í þeim tilgangi að snyrta eða fella tré. Orri Freyr, arboristi, er einn af fáum íslendingum sem hafa sérhæft sig í trjáklifri en ljóst er að þörfin fyrir þessa tækni er orðin umtalsverð. Orri Freyr hefur lagt mikla áherslu á að farið sé að ítrustu öryggiskröfum í hans fagi og er það til fyrirmyndar. Orri Freyr rekur í dag sitt eigið fyrirtæki, Trjáprýði, sem sérhæfir sig í trjásnyrtingum, trjáfellingum og grisjun. Arborismi er ný atvinnugrein og verður spennandi að sjá hvernig hún þróast á næstu árum.

Hafsteinn Hafliðason, garðyrkjumaður, hlaut heiðursverðlaun garðyrkjunnar.

Landbúnaðarháskóli Íslands hlaut umhverfisverðlaun Ölfuss í ár og afhenti Sigurður Ingi Jóhannsson, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra þau verðlaun.

Nemendur í 7. bekk Grunnskólans í Hveragerði hlutu umhverfisverðlaun Hveragerðis árið 2018. Í umsögn um verðlaunin segir m.a. að nemendurnir hafi í fjölda ára tekið að sér að hreinsa rusl í bænum í fyrstu viku hvers mánaða á meðan að skólinn starfar. Er ruslatínslan hluti af fjáröflun bekkjarins fyrir ferðalög í lok vetrar og greiðir sveitarfélagið þeim samkvæmt samning sem hefur staðið í tæplega 30 ár. Þannig hafa nemendur sagt sitt að mörkum að halda bænum snyrtilegum. Þó að þessi verðlaun félli nemendum í 7. bekk skólaárið 2017 – 2018   í skaut að þessu sinni er litið svo á að verðlaunin sé til allra þeirra fjölmörgu sjöundu bekkinga sem á undan hafa komið og staðið sig með prýði en einnig að þau virki sem hvatning til komandi sjöundu bekkinga sem vonandi munu halda þessari frábæru en jafnframt ákaflega nytsömu hefð á lofti. Sigurður Ingi afhenti verðlaunin.

Gaman er að segja frá því að útskriftarnemendur garðyrkjunáms á Reykjum 2018 færðu kennurum sínum linditré að gjöf.

Eru starfsmenn skólans sérlega ánægðir og þakklátir gestum fyrir komuna og vonast til að sjá sem flesta á Reykjum aftur að ári.

Gleðilegt sumar!

 

Þú ert að nota: brimir.rhi.hi.is