Úrkoma, afrennsli og tap af næringarefnum af mýrartúnum á Hvanneyri,

Fyrsta rannsóknin á tapi næringarefna af ræktunarlandi og afar mikilvægt innlegg í umræðu um tap efna í landbúnaði

Magn efna í afrennslisvatni frá túnum á Hvanneyri er umfjöllunarefni nýútkominnar greinar eftir þá Björn Þorsteinsson, Guðmund Hrafn Jóhannesson, Arngrím Thorlacius og Þorstein Guðmundsson og birtist í hefti 32/2019 í alþjóðlega vísindatímaritinu Icelandic Agricultural Scieneces.

Helstu næringar- og áburðarefnin, köfnunarefni (N), fosfór (P), kalí (K), kalsíum (Ca), magnesíum (Mg), natríum (Na) og brennisteinn (S), voru mæld í afrennslisvatninu, auk úrkomu og rennsli. Auðleyst ammóníum, nítrat, og fosfat voru einnig mæld.

Niðurstöðurnar sýndu að mikill munur var bæði á magni og styrk efna í frárennslinu milli árstíða, þar sem mun meira afrennsli var yfir vetrarmánuðina og styrkur efna var þá einnig hærri en yfir vaxtartímann. Heildarútskolun Ca, Mg, K og Na reyndist frekar mikil en útskolun köfnunarefnisþátta og fosfórs var minni en búast mátti við með tilvísun til þess að um er að ræða áborið ræktarland á framræstri mýri.

Þetta er fyrsta rannsóknin á tapi næringarefna af ræktunarlandi á vel skilgreindu vatnasviði þar sem hægt er að gera almennilega grein fyrir afdrifum næringarefna í frárennsli skurða. Þetta er því afar mikilvægt innlegg í umræðu um tap efna í landbúnaði og hugsanlega ofauðgun í afrennsli af túnum.

Greinina í heild sinni má nálgast hér.

Þú ert að nota: brimir.rhi.hi.is