Ragnheiður I. Þórarinsdóttir rektor og Bragi Þór Svavarsson skólameistari að lokinni undirritun.

Samningur um sameiginlega gráðu til stúdentsprófs og garðyrkju- eða búfræðings

Í síðustu viku var undirritaður endurnýjaður samningur milli Menntaskóla Borgarfjarðar (MB) og Landbúnaðarháskóla Íslands (LbhÍ). Eldri samningurinn byggði á samstarfi um sameiginlega náttúrufræðibraut með búfræðisviði til stúdentsprófs þar sem nemendur taka fyrstu tvö árin í Menntaskóla Borgarfjarðar og síðari tvö árin á Hvanneyri til búfræðiprófs. Nemendur útskrifast þá eftir fjögurra ára nám með sameiginlega gráðu sem stúdent og búfræðingur.

Nú hefur samningurinn verið útvíkkaður og tekur einnig til náms á garðyrkjubrautum skólans á Reykjum. Nemendur geta þá stundað nám til stúdentsprófs og búfræðings eða garðyrkjufræðings. Þá hefja þeir fyrri tvö árin í MB og síðari tvö á Reykjum eða Hvanneyri. Á Reykjum er hægt er að velja á milli sex brauta; ylræktar, lífrænnar ræktunar matjurta, garð- & skógarplöntuframleiðslu, skrúðgarðyrkju, blómaskreytinga og skóg & náttúrubraut (skógtækni). Búfræðin er svo kennd á Hvanneyri.

Bragi Þór Svavarsson skólameistari MB segir það mikið ánægjuefni fyrir Menntaskóla Borgarfjarðar að geta útvíkkað samstarfið við Landbúnaðarháskólann á Hvanneyri enn frekar. „Nú bjóðum við nemendum okkar ekki einungis að  útskrifast samhliða sem búfræðingur og stúdent heldur núna sem garðyrkjufræðingur og stúdent. Við í MB höfum fundið fyrir auknum áhuga á þessari námsleið og greinilegt að margir sjá hana sem gott tækifæri“ segir Bragi um samstarfið.

Allt að fimm nemendur árlega sem innritast á brautina hjá MB eiga vísa skólavist í búfræði annarsvegar og garðyrkju hinsvegar hjá LbhÍ eftir að hafa lokið þeim hluta námsins sem fram fer í MB. Nemendur sem velja að stunda nám á garðyrkjubrautum útskrifast sem garðyrkjufræðingar eftir að hafa lokið 60 vikna verknámi undir handleiðslu meistara eða garðyrkjufræðings að loknu bók- og verklegu námi við LbhÍ á Reykjum.

“Landbúnaðarháskóli Íslands og Menntaskóli Borgarfjarðar hafa í nokkur ár átt farsælt samstarf um sameiginlega braut til stúdentsprófs og búfræðings. Það er mikið gleðiefni að sá samningur hafi verið endurnýjaður og taki nú einnig til garðyrkjunámsins þannig að nemendur okkar geti tekið stúdentspróf samhliða námi til garðyrkjufræðings” segir Ragnheiður I. Þórarinsdóttir rektor LbhÍ við undirskrift samnings.

logo

Þekking á sviði sjálfbærrar nýtingar auðlinda, umhverfis, skipulags og matvælaframleiðslu.

LBHÍ

Hvanneyri - 311 Borgarbyggð
Sími 433-5000
lbhi@lbhi.is
Kt. 411204-3590
Rafrænir reikningar
Image

Starfsstöðvar

Flýtileiðir

Samfélagsmiðlar

Image
Image