Brautskráning háskóla- og búfræðibrauta LbhÍ

Í dag var fór brautskráning Landbúnaðarháskóla Íslands á Hvanneyri fram í Hjálmakletti í Borgarnesi. Dr. Björn Þorsteinsson, rektor LbhÍ, flutti ræðu og óskaði nemendum velfarnaðar í framtíðinni. Ræðu rektors má lesa neðst í fréttinni.  Alls útskrifuðust 35 nemendur af búfræðibraut, 11 úr fjarnámi og 24 úr staðarnámi.

 Háskóli Íslands
Búfræðinemar, staðar- og fjarnemar, ásamt brautarstjóra og rektor.

Þórunn Rögnvaldsdóttir hlaut verðlaun fyrir góðan árangur á búfræðiprófi sem og góðan árangur í nautgriparækt.

Arnar Már Sigurðsson hlaut verðlaun fyrir góðan árangur í bútæknigreinum og einnig fyrir góðan árangur í hagfræðigreinum. Karen Helga Steinsdóttir hlaut verðlaun fyrir góðan árangur í sauðfjárrækt og Einar Dan Jepsen hlaut verðlaun fyrir góðan árangur í námsdvöl.

Þá var einnig útskrifað á háskólabrautum. 13 nemendur útskrifuðust með BS próf af Búvísindabraut og Hestafræðibraut. Verðlaun fyrir góðan árangur á B.S. prófi á Búvísindabraut hlaut Egill Gautason.

Háskóli Íslands
B.S. nemar í búvísindum og hestafræði ásamt brautarstjóra og rektor

Fjórir nemendur luku BS prófi í Náttúru- og umhverfisfræði. Jónína Hólmfríður Pálsdóttir hlaut verðlaun fyrir góðan námsárangur á BS prófi á brautinni.

Háskóli Íslands
B.S. nemar á Náttúru- og umhverfisfræðibraut ásamt brautarstjóra og rektor

Fimm nemendur luku BS prófi á Skógfræði- og landgræðslubraut. Bergþóra Jónsdóttir hlaut verðlaun fyrir góðan árangur á BS prófi á brautinni.

Háskóli Íslands
B.S. nemar í skógfræði og landgræðslu ásamt brautarstjóra og rektor

Þá útskrifuðust átta nemendur með BS próf af Umhverfisskipulagsbraut. Ruth Guðmundsdóttir hlaut verðlaun fyrir góðan árangur í skipulagsfögum, góðan árangur í plöntunotkun sem og góðan námsárangur á námsbrautinni.  Þá fékk Anna Kristín Guðmundsdóttir viðurkenningu frá kennurum brautarinnar fyrir óeigingjarnt framlag til styrktar brautarinnar.

Háskóli Íslands
B.S. nemar í Umhverfisskipulagi ásamt kennurum og rektor

Ruth Guðmundsdóttir hlaut einnig verðlaun fyrir frábæran árangur fyrir lokaverkefni á B.S. prófi með einkunina 9,6. Egill Gautason hlaut verðlaun fyrir bestan árangur á B.S. prófi með einkunina 9,02. Naomi Désirée Bos hlaut einnig verðlaun fyrir góðan árangur á B.S. prófi en einungis munaði 0,02 á þeim Agli í einkunn.

Fjórir nemendur  luku M.S. prófi í Skipulagsfræðum og hlaut Myrra Ösp Gísladóttir verðlaun fyrir góðan námsárangur á brautinni. Þá lauk Hrannar Smári Hilmarsson rannsóknarmiðuðu meistaranámi.

Háskóli Íslands
M.S. nemar í Skipulagsfræðum ásamt brautarstjóra og rektor.

Um tónlistarflutning sáu Anna Kristín Guðmundsóttir og Eva Margret Eiríksdóttir. Starfsmenn LbhÍ óska nýútskrifuðum nemendum til hamingju með daginn og óska þeim alls hins besta í framtíðinni.

Hér má finna nöfn útskriftarnema.

Háskóli Íslands
Eva Margrét Eiríksdóttir og Anna Kristín Guðmundsdóttir.

Háskóli Íslands
 

 

Hvanneyri - útskriftarræða rektors LbhÍ 3. Júní 2016

 Kæru útskriftarnemar, aðstandendur, starfsmenn og aðrir gestir

Ég býð ykkur öll hjartanlega velkomin til þessarar útskriftarhátíðar.

 Frá Landbúnaðarháskóla Íslands útskrifast á þessu vori yfir 90 manns. Þar af í hér dag um 70 en sl. laugardag voru úrskrifaðir frá garðyrkjuskólanum á Reykjum 25 nemendur, þ.e. 15 í garðyrkjuframleiðslu og 10 í skrúðgarðyrkju. 

Fyrir Landbúnaðarháskólann hafa síðustu misserin einkennst af pólitískum hræringum og biðstöðu. Á sama tíma hefur verið stigin glíma innanbúðar hjá skólanum við að laga reksturinn að fjárveitingum. Mjög litlu munaði að við næðum endum saman við uppgjör ársins 2014, en við uppgjör ársins 2015 náðist í fyrsta sinn afgangur af rekstrinum þannig að skólinn gat byrjað að greiða upp í skuld sína við ríkissjóð í samræmi við kröfur menntamálaráðuneytisins.

Þessi árangur náðist m.a. vegna tímabundinna viðbótafjárveitingar sem fengust frá Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu, sem við erum einnig aðnjótandi nú á yfirstandandi ári, en um framhaldið fyrir árið 2017 og áfram er þó með öllu óljóst.

Til að tryggja lífskjör á Íslandi til framtíðar er nauðsynlegt að efla alla þekkingu og menntun því þekking er grundvöllur verðmætasköpunar. Í þeim löndum þar sem rannsóknir og háskólamenntun hafa fengið góðan stuðning má finna öflugustu fyrirtæki samtímans og lífskjör almennings eru með besta móti. 

En fræðileg þekking er ekki nægileg ein sér, samfélagið þarf einnig fjölbreytta verkmennt sem nýtir fræðilega þekkingu í hagnýtum tilgangi.

Á Íslandi sjáum við mikla þróun í þekkingarfyrirtækjum sem orðið hafa til á síðustu tveimur áratugum. Stór hluti af þeirri verðmætaaukningu sem orðið hefur í hefðbundnum atvinnugreinum, eins og landbúnaði og sjávarútvegi, byggja á þeirri tækni og þekkingu sem myndast hefur í háskólum, rannsóknastofnunum og ýmsum tæknifyrirtækjum –

Því er nauðsynlegt efla háskólakerfið á Íslandi svo unnt sé að byggja samfélag þar sem verðmætasköpun byggir á hugviti og þekkingu, í umhverfi sem er jafnframt virkur bakhjarl fyrir starfsmenntanám og verkmennt.

Í stefnu Vísinda- og tækniráðs fyrir árin 2014–2016 segir að fjármögnun háskóla skuli að minnsta kosti verða sambærileg við meðaltal aðildarríkja innan Efnahags- og framfarastofnunarinnar (OECD) árið 2016 og Norðurlanda árið 2020. Til þess að svo megi verða þarf að setja milljarðatug inn í íslenska háskólakerfið.

Það var því með nokkurri eftirvæntingu sem háskólamenn biðu fjármálaáætlunar fyrir ríkissjóð sem kynnt var fyrir fáum vikum síðan. Það olli hins vegar miklum vonbrigðum aðeins er gert ráð fyrir útgjaldaaukningu fyrir háskólastigið um 6% fram til ársins 2021.

Landbúnaðarháskóli Íslands hefur gagnvart stefnumörkun stjórnvalda um háskólastigið lagt áherslu á að skóli eins og okkar sem er einn um að sinna afmörkuðum sérsviðum sé gert kleift að reka fámennar námsbrautir og sérhæfð rannsóknasvið með skírskotun til þjóðarhagsmuna varðandi öflun, viðhald og miðlun þekkingar á fræðasviðum sínum. Þetta eigi sérstaklega við um sérsvið sem varðar séríslenskan raunveruleika á borð við íslenska auðlindanýtingu og íslenska náttúru, eða tengist íslenskri menningu eða lagaumhverfi með sérstökum hætti.

Menntamálaráðherra setti nýlega á fót starfshóp sem vinna skal að því að þróa fagháskólanám þannig að háskólar geti haft í boði starfstengdar námsbrautir í takt við þarfir atvinnulífsins.

Þetta skuli gert með tilvísun til þess að fagháskólanám geti í sumum tilfellum brúað bil á milli framhaldsskólastigs og háskólastigs, þar sem fyrri hluti þess gæti fallið undir viðbótarnám við framhaldsskóla en háskólagráða sé veitt af viðurkenndum háskóla.

Segja má að starfsmenntanám Landbúnaðarháskólans í búfræði og garðyrkju geti komið til sérstakrar skoðunar í þessu samhengi þar sem það er á hæfniþrepi sem liggur á mótum framhaldsskóla og háskóla og er einmitt starfstengt nám tengt atvinnulífinu. Landbúnaðarháskólinn hefur t.d. í samstarfi við Háskólann á Bifröst mótað hugmynd að nýju námi búrekstrarfræði, sem skólarnir eru til í að bjóða fram sem nýtt verkefni á fagháskólastigi.

Í sambandi við samspil háskóla og atvinnulífs er verið að ýta fleiri verkefnum úr vör og má þar nefna nýtt verkefni um svokallaða sameiginlega tæknifyrirfærsluskrifstofu háskóla, rannsóknastofnana og fleiri aðila sem hefur það að markmiði að aðstoða við meðferð uppfinninga, hugverkavernd og hagnýtingu vísindastarfs og efla þannig nýsköpun og atvinnulíf. Stofnfundur þessarar skrifstofu stendur yfir einmitt núna í dag undir forystu eins af fyrrverandi samstarfsmönnum okkar á Keldnaholti Einars Mäntylä sem var í sinni tíð einn af stofnendum Orf Líftækni eitt sinn sprotafyrirtæki sem nú blómstrar á sínu sviði.

Sameiginleg tækniyfirfærsluskrifstofa er eitt dæmi af fjölmörgum viðfangsefnum sem hentar vel að gera í samstarfi en hentar ekki fyrir smærri stofnanir að gera einar. Samstarf bæði opinberu háskólanna og háskólastigsins alls hefur verið vettvangur árangursríks samstarfs í mörgum efnum síðan því var komið á.  – Opinberu háskólarnir hafa sameinast um sameiginlegt gagnakerfi – Uglu og ýmis önnur málefni sem hefur orðið öllum að gagni. Í þessu hafa skapast fagleg tengsl milli stjórnsýslueininga skólanna sem ekki voru fyrir hendi áður. Nýlega efndum við til samstarfs við Hólaskóla og Háskóla Íslands um sameiginlegan námsráðgjafa og samstarf um námsráðgjöf sem lofar mjög góðu. Á þessum vettvangi bjóðum við Helgu Helgadóttur námsráðgjafa velkomna til starfa.

Gæðaráð og ráðgjafanefnd gæðaráðs háskóla hefur einnig verið mjög gagnlegur vettvangur þar sem fara fram umræður um aðferðir til að bæta starfsemi þessara stofnana og menn skiptast á reynslu, aðferðum og sýn auk þess að vera vettvangur hinna formlegu úttekta. Nú er lokið fyrsta hring gæðaúttektar gæðaráðs á íslenskum háskólum sem hefur gagnvart Landbúnaðarháskóla Íslands verið fyrirhafnarsamur en ánægjulegur ferill þar sem skólinn nýtur traust á þeim þáttum sem teknir voru til mats.

Til þess að efla stöðu gæðamála þá hefur einn starfsmanna okkar tekið að sér nýtt verkefni, en frá síðustu áramótum hefur Brita Berglund tekið við hlutverki sviðsstjóra Kennslu- og gæðamála í hálfu starfi við skólann. Hún hafði áður um nokkurt skeið verið verkefnisstjóri í gæðamálum – en ég býð Britu velkomna til starfa á þessum vettvangi.  Þá var í upphafi skólaársins ráðinn nýr kennari í umhverfisskipulagi, Edda Ívarsdóttir landslagsarkitekt  sem einnig er boðin velkomin í nýtt starf.

Aðrar mannabreytingar eru þær að Áslaug Helgadóttir sem verið hefur annar tveggja aðstoðarrektora skólans frá 2005 óskaði eftir lausn frá þeim störfum um síðustu áramót en heldur áfram sem umsjónarmaður rannsóknarnáms. Tveir starfsmenn sem hafa sinnt meðfram kennslu- og rannsóknastörfum sínum námsbrautarstjórn frá upphafi skólans 2005 þær Anna Guðrún Þórhallsdóttir í Náttúru- og umhverfisfræði og Emma Eyþórsdóttir í búvísindum láta nú keflin í annarra hendur. Þessum þremur sómakonum eru þökkuð frábær frumkvöðlastörf í þágu skólans og fyrir að hafa staðið ósérhlífna vakt svo lengi sem raun ber vitni, en rannsókna- og kennsluverkefnin bíða óskiptra krafta þeirra.   

Þá styttist í að Jónatan Hermannsson, tilraunastjóri, láti af störfum fyrir aldurs sakir en sökum eðlis starfa hans þótti ófært annað en að ráða eftirmann hans nú þegar– en hlutskarpastur umsækjenda um starfið reyndist Hrannar Smári Hilmarsson sem er að útskrifast með meistaragráðu frá skólanum nú en gat því miður ekki verið með okkur hér í dag. Hann er boðinn velkominn til starfa.

Tryggvi Eiríksson fóðurfræðingur lauk einnig dyggu ævistarfi sínu við stofnunina fyrir nokkru. Við munum finna okkur tækifæri á síðsumri til að heiðra og fagna starfslokum með þeim Tryggva og Jónatan. Sigvaldi Lárus Guðmundsson sem veitt hefur forstöðu hestamiðstöð skólans á Mið-Fossum hætti störfum hjá okkur um áramót og hvarf til annarra starfa á sínu fagsviði. Heimir Gunnarsson sem hefur verið verkefnastjóri í Reiðmanninum í endurmenntun skólans er á förum til annarra starfa í Svíþjóð. Við þökkum þeim Heimi og Sigvalda farsæl störf og velgengni á nýjum vettvangi. 

Þá stendur yfir ráðning deildarforseta sameinaðrar háskóladeildar skólans, en sameining auðlindadeildar og umhverfisdeildar sem nýlega tók gildi hefur m.a. það markmið að bæta þverfaglegt samtal innan stofnunarinnar og skapa breiðari og virkari aðkomu starfsmanna að mótun námsframboðs og stefnumörkun í kennslu og rannsóknum.

Hvað varðar húsakost og aðstöðu við skólann þá hafa Ríkiseignir haldið áfram viðhalds og endurbótaáætlun með fasteignir skólans bæði á Keldnaholti sem komið er í mjög gott stand og á Hvanneyri. Endurbætur á kjallarahæð Ásgarðs náði ágætum áföngum í vetur með nýrri kennslustofu og þrekæfingaaðstöðu – Þá er verið að vinna að endurbótum á byggingum gamla staðarins á Hvanneyri.

Hvað varðar húsakost garðyrkjuskólans á Reykjum þá hefur hann ekki enn komist í skjól viðhalds- og legusamnings við Ríkiseignir sem er mjög brýnt.

Búreksturinn á Hvanneyri og Hesti í höndum nýrra aðila á breyttum forsendum gengur eftir góðum væntingum. Ríkir bjartsýni með, að þær ráðstafanir sem gripið var til, muni duga vel til að gera reksturinn vel í stakk búinn til að axla þau hlutverk sem honum eru ætluð fyrir á vegum skólans.

Hvað varðar Hvanneyrarsamfélagið þá vannst varnarsigur í grunnskólahaldi á staðnum nú á vormánuðum þannig að áfram verður kennt 1.-4. bekk á staðnum. Starfshópur á vegum Samtaka sveitarfélaga á vesturlandi er að skoða hvernig hægt verður að bæta almenningssamgöngur við staðinn nemendum, starfsmönnum og staðarbúum almennt til hagsbóta.

Landbúnaðarháskóli Íslands er háskóli lífs og lands. Það eru sífellt í gangi breytingar í landbúnaði og landbúnaðartengdri landnýtingu. Kröfur markaða breytast, framleiðslukerfi þróast. Viðhorf í umhverfis og náttúruvernd breytast um leið og við sjáum breytingar í byggðamynstri og þróun dreifbýlis og þéttbýlis. Það er sprenging í útþenslu ferðamennsku á Íslandi

Það eru sífellt tímamót í málaflokkum lífs og lands.

Kæru tilheyrendur:

Það er af þessum ástæðum sem nám við Landbúnaðarháskóla Íslands er nám framtíðarinnar. Hér sækja nemendur þekkingu sem varðar rót tilvistar okkar og framfærslu. Ísland bíður eftir fólki sem kann til verka á sviði auðlinda- og umhverfisfræða og þeirra verkmennta sem þessum fögum tilheyra. Á því þarf sjálfstæð þjóð að halda.

Ég vil nota þetta tækifæri og þakka nemendum og starfsfólki Landbúnaðarháskóla Íslands, háskólaráði og öllum samstarfsaðilum gott samstarf á liðnu skólaári.

Kæru útskriftarnemar:

Góð menntun er gulls ígildi – þekkinguna tekur enginn frá manni, hún situr eftir þótt annað kunni að ganga úr greipum – á henni má byggja til framtíðar. Sjóðir þekkingarinnar eru digrir og þeirrar náttúru að eyðast ekki þótt af þeim sé tekið heldur vaxa stöðugt og örugglega. Þið hafi gengið í þessa sjóði og sótt ykkur skerf. Það veganesti mun reynast ykkur vel – það er okkar bjargfasta trú.

Kæru útskriftarnemar – sumarið bíður og lífið er framundan

Til hamingju með daginn!

 

 

logo

Þekking á sviði sjálfbærrar nýtingar auðlinda, umhverfis, skipulags og matvælaframleiðslu.

LBHÍ

Hvanneyri - 311 Borgarbyggð
Sími 433-5000
lbhi@lbhi.is
Kt. 411204-3590
Rafrænir reikningar
Image

Starfsstöðvar

Flýtileiðir

Samfélagsmiðlar

Image
Image