Brautskráningarathöfn LBHÍ fór fram í Hjálmakletti í dag

Brautskráningarathöfn LBHÍ fór fram í Hjálmakletti í dag

Brautskráning háskólabrauta og búfræði í dag

Brautskráningardagur er mikill hátíðardagur. Það er stór stund fyrir nemendur  að uppskera eins og sáð hefur verið til og ljúka með formlegum hætti stórum áfanga í lífinu.Nú bíða nýjar áskoranir handan við hornið í síbreytilegum heimi þar sem tækifærin eru endalaus og frjósamur jarðvegur fyrir nýjar hugmyndir sem byggja á sjálfbærri nýtingu auðlinda landsins og tryggja heilnæmt og gott umhverfi. Brautskráning LBHÍ fór fram við hátíðlega athöfn í Hjálmakletti í Borgarnesi þar sem 68 nemendur tóku við brautskráningarskírteinum sínum. Við viljum óska öllum kandídötum, búfræðingum og aðstandendum þeirra innilega til hamingju með daginn. Í athöfninni flutti Bjarni Freyr Gunnarsson nokkur lög við undirleik Saidhbhe Emily Canning.

Guðrún Sunna Jónsdóttir stóð efst á BS prófi við LBHÍ en hún var á skógfræðibraut. Hér til vinstri ásamt Ragnheiði rektor

Skólinn verðlaunaði nemanda fyrir frábæran árangur á BS prófi og stóð efst í ár Guðrún Sunna Jónsdóttir af skógfræðibraut með einkunnina 9,23. Þá gáfu Bændasamtök Íslands verðlaun þeim nemanda sem var með samanlagðan bestan árangur á búfræðiprófi og þar voru þær Kara Nótt Möller og Marta Guðlaug Svavarsdóttir jafnar.

Búfræðingar

Ragnheiður rektor ásamt þeim Köru Nótt og Mörtu Guðlaugu sem stóðu jafnar efst á búfræðiprófi

Í ár settu upp kolla 32 nýir búfræðingar og var við tækifærið veitt verðlaun fyrir góðan námsárangur. Fyrir frábæran árangur í hagfræðigreinum gáfu Búnaðarsamtök Vesturlands verðaun og hlaut þau Kara Nótt Möller. Fyrir frábæran árangur í bútæknigreinum hlaut Ísak Godsk Rögnvaldsson verðlaun frá Líflandi. Þá hlutu Kara Nótt Möller og Ísak Godsk Rögnvaldsson verðlaun fyrir frábæran árangur í búfjárræktargreinum og gefandi var Ráðgjafamiðstöð landbúnaðarins. Minningarsjóður Hjartar Snorrasonar og Ragnheiðar Torfadóttur veitti verðlaun fyrir frábær árangur í námsdvöl þeim Mörtu Guðlaugu Svavarsdóttur og Þorfinni Frey Þórarinssyni. Þá verðlaunaði Landbúnaðarháskóli Íslands Köru Nótt Möller fyrirframúrskarandi lokaverkefni á búfræðiprófi.

Háskólabrautir

Landbúnaðarháskólinn brautskráði nemendur af fimm brautum til BS náms og eru það búvísindi, hestafræði, landslagsarkitektúr, náttúru- og umhverfisfræði og skógfræði auk nemenda úr meistaranámi í skipulagsfræði og einstaklingsmiðuðu rannsóknarnámi.

Nemendur af háskólabrautum hlutu einnig viðurkenningar fyrir góðan námsárangur. Elínborg Árnadóttir hlaut verðlaun fyrir góðan árangur á BS prófi af búvísindabraut en gefandi þeirra verðlauna voru Bændasamtök Íslands. Þá gaf Kaupfélag Borgfirðinga verðlaun fyrir góðan árangur á BS prófi á hestafræðibraut og var það Freyja Þorvaldardóttir sem hlaut þau.

Í landslagsarkitektúr gaf Félag íslenskra landslagsarkitekta verðlaun fyrir góðan árangur á BS prófi og hlaut Lúisa Heiður Guðnadóttir þau en hún hlaut einnig verðlaun frá Skipulagsfræðingafélagi Íslands fyrir góðan árangur í skipulags- og landslagsarkitektafögum.

Hið Íslenska náttúrufræðifélag gaf verðlaun þeim nemanda sem bestan árangur hlaut á BS prófi í náttúru- og umhverfisfræði og féllu þau í skaut Maríu Rúnarsdóttur. Þá hlaut Guðrún Sunna Jónsdóttir verðlaun fyrir góðan árangur á BS prófi í skógfræði, gefandi var Skógræktarfélag Reykjarvíkur.

Þá voru einnig brautskráðir nemendur úr meistaranámi við skólann. Skipulagsfræðingafélag Íslands gaf viðurkenningu fyrir bestan árangur á MS prófi í skipulagsfræði en þau hlaut María Markúsdóttir. Fyrir bestan árangur á MS prófi í rannsóknarmiðuðu meistaranámi hlaut Guðrún Björg Egilsdóttir viðurkenningu sem gefin var af LBHÍ.

Styrkveitingar á brautskráningu

Framfarasjóður Ingibjargar Guðmundsdóttur og Þorvaldar Guðmundssonar styrkir Hörpu Ósk Jóhannesdóttur.

Ragnheiður rektor afhendir styrkinn fyrir hönd Framfarasjóðsins

 

Harpa Ósk útskrifaðist sem dýralæknir frá Kaupmannahafnarháskólanum árið 2018 og hóf doktorsnám við Landbúnaðarháskóla Íslands haustið 2021. Verkefnið hennar fjallar um dauðfædda kálfa hjá fyrsta kálfs kvígum. Meginmarkmið verkefnisins er að kanna áhættuþætti kálfadauða hjá fyrsta kálfs kvígum með annars kálfs kýr til viðmiðunar. Rannsóknin fer fram á Hvanneyrarbúinu þar sem fylgst er náið með hverjum burði og haldin um það nákvæm burðarskráning. Eins eru tekin blóðsýni úr kvígum og annars kálfs kúm síðasta mánuðinn fyrir burð til greiningar á meðgönguhormónum sem gætu gefið vísbendingu um gang meðgöngunnar fyrr en ella. Hjartsláttur fóstursins er einnig mældur með sónarskoðun um kvið móðurinnar til þess að tímasetja hvenær fóstrið deyr. Slíkt hefur ekki verið gert hérlendis fyrr. Komi dauður kálfur er möguleg dánarorsök rannsökuð með krufningu á Keldum.

Blikastaðastjóður

Magnús Sigsteinsson fulltrúi stofnenda Blikastaðasjóðs afhenti tvo styrki til meistaranáms en þá hlutu Hafrún Hlinadóttir og Karen Björg Gestsdóttir.

Magnús afhendir Karen Björgu styrkinn

Hafrún Hlinadóttir lauk B.Sc. námi í búvísindum frá Landbúnaðarháskóla Íslands vorið 2018 og hóf meistaranám í búvísindum við Landbúnaðarháskólann í Noregi NMBU haustið 2021 með næringarfræði og líffræði sem sérgreinar. Hún hefur jafnframt lagt áherslu á að auka við þekkingu sína í erfðafræði, velferð, sjálfbærni og tækninýjungum í landbúnaði. Næsta námsár mun að mestu leyti einkennast af vinnu að lokaverkefninu.

Karen Björg hefur lokið námi í búfræði og B.Sc. námi í búvísindum frá Landbúnaðarháskóla Íslands. Hún hefur starfað sem búfræðikennari við LbhÍ frá 2017. Hún hóf meistaranám sitt við Háskólann í Árósum haustið 2019 og eru námslok áætluð í desember 2022. Meistaraverkefni hennar fjallar um áhrif þroska við fyrsta burð á át og afurðir á fyrsta mjaltaskeiði.

Að lokinni athöfn í Hjálmakletti var haldið kaffiboð á Hvanneyri fyrir brautskráða, gesti þeirra og starfsfólk.

logo

Þekking á sviði sjálfbærrar nýtingar auðlinda, umhverfis, skipulags og matvælaframleiðslu.

LBHÍ

Hvanneyri - 311 Borgarbyggð
Sími 433-5000
lbhi@lbhi.is
Kt. 411204-3590
Rafrænir reikningar
Image

Starfsstöðvar

Flýtileiðir

Samfélagsmiðlar

Image
Image