Þann 20. ágúst varði Sólveig Sanchez doktorsritgerð sína „Mótun jarðvegsþátta við þróun skóglendis frá skóglausu landi til birkiskógar“ við Landbúnaðarháskóla Íslands. Andmælendur voru prófessorarnir Graeme Paton frá University of Aberdeen og Paul McDaniel frá University of Idaho.
Rannsóknir Dr. Sólveigar tóku til 10 birkiskóga vítt um landið og höfðu ungan skóg og skóglaust land til samanburðar við eldri skógarteiga. Þær sýna m.a. að jarðvegur birkiskóga safnar miklum kolefnisforða í langan tíma og hefur að jafnaði mun meiri kolefnisforða en skóglaust land. Árleg uppsöfnun kolefni nemur 0,04 til 0,07 kg C/m2 á ári. Endurheimt birkiskóganna getur haft veruleg áhrif kolefnisbúskap landsins og dregið úr heildarlosun gróðurhúsaloftegunda frá Ísland.
Mold birkiskóga er afar frjósöm og sýrustig helst að jafnaði hagstætt, en breytileikinn er umtalsverður á milli svæða. Rannsóknirnar sýna að það eru svokallaðir sortueiginleikar („andic soil properties“) sem einkenna eldfjallajörð sem valda uppsöfnun kolefnisins, en því valda bæði leirsteindir og binding kolefnissambanda við ál og járn. Rannsóknir Dr. Sólveigar leiddu í ljós að áfok ryks hefur mikil áhrif á íslenskan jarðveg, m.a. eiginleika hans á borð við sýrustig og uppsöfnun kolefnis. Þá hefur rykið áhrif efnasamsetningu leirsteindarinnar allófan (Al/Si hlutfall) – sem ekki hefur sést í rannsóknum annars staðar. Rykið grefur jafnframt kolefni smám saman í moldinni. Vatnseiginleikar jarðvegs birkiskóga eru afar hagstæðir, moldin bindur mikið vatn, sem á jafnframt greiða leið ofan í jarðveginn. Í heildina sýna rannsóknir Dr. Sólveigar að jarðvegur birkiskóga er kolefnisrík og frjósöm auðlind og þær benda til þess að verndun og endurheimt birkiskóga þjóni mikilvægu hlutverki í þágu umhverfisins í dag og fyrir Ísland framtíðarinnar.
“Vörnin var stórkostlegur dagur þar sem tilfinningarnar voru blendnar: gleði og ánægja yfir því að kynna og verja verkefnið mitt, en einnig mikið stress vegna svo mikilvægs dags, eins og oft gerist.
Það var mikill heiður að fá að rannsaka okkar ríku birkiskóga og eldfjallajörð, ásamt því að vinna með frábærum leiðbeinanda og rannsakendum frá BirkiVist-verkefninu. Ég trúi því innilega að verkefnið mitt hafi verulega aukið þekkinguna á íslenskum birkiskógum og eldfjallajörð, sem og á mikilvægi endurheimtar þeirra.” Segir Sólveig Sanchez.
Rannsóknir Dr. Sólveigar Sanchez voru hluti af verkefninu BirkiVist (https://birkivist.is/), sem er stórt þverfaglegt rannsókna- og þróunarverkefni sem spannar fjölmarga þætti birkivistkerfisins og endurheimtar birkiskóga. Leiðbeinendur voru Ólafur Arnalds (LbhÍ), Jóhann Þórsson (LogS), Randy Dahlgren (University of California, Davis) og Ása L. Aradóttir (LbhÍ).
Við óskum Sólveigu innilega til hamingju með áfangann!