Undirritun samkomulags milli RML og LBHÍ

Ragnheiður I. Þórarinsdóttir rektor LbhÍ og Karvel L. Karvelsson framkvæmdastjóri RML í forgrunni og Helga Halldórsdóttir verkefnastjóri RML ásamt Álfheiði Marinósdóttur kennslustjóra LbhÍ við undirritun samkomulagsins

Efling samstarfs á sviði fræðslu, rannsókna og nýsköpunar

Samkomulag um samstarf Ráðgjafarmiðstöðvar landbúnaðarins og Landbúnaðarháskóla Íslands

 

Ráðgjafarmiðstöð landbúnaðarins (RML) og Landbúnaðarháskóli Íslands (LbhÍ) hafa lengi átt farsælt samstarf á sviði fræðslu, rannsókna og nýsköpunar. Í gær var undirritað samkomulag um að efla samstarfið enn frekar með formlegri stofnun faghópa til að vinna að málefnum búgreina og faglegra þátta sem snerta landbúnað, landnýtingu, umhverfis- og loftslagsmál. Faghóparnir munu greina tækifæri til aukins samstarfs á sviði ráðgjafar, kennslu, rannsókna og nýsköpunar og styrkja faglega stöðu greinanna. Sérlega verður hugað að samstarfi um ný rannsóknaverkefni BS, MS og PhD nema og leiðir til fjármögnunar þeirra verkefna m.a. með sameiginlegum styrkumsóknum.

 

Ný verkefni og nýsköpun í kynbótum búfjár og umhverfis- og loftslagsmálum

Á komandi tímabili verður sérstaklega stefnt að aukinni samvinnu á sviði nýrra verkefna og nýsköpunar í kynbótum búfjár, og umhverfis- og loftslagsmálum. Endurmenntun LbhÍ hefur eflst mikið á undanförnum misserum og lögð er áhersla á að standa saman um áframhaldandi uppbyggingu námskeiða sem svara best þörfum bænda og annarra hagaðila. Í ágúst verður sameiginlegur ráðunautafundur RML og LbhÍ þar sem starfsmönnum gefst kostur á að setja sig inn í verkefni hvors annars ásamt þvi að ræða nýja samstarfsfleti.

 

Farsælt samstarf

Ragnheiður Þórarinsdóttir, rektor LbhÍ  og Karvel L. Karvelsson framkvæmdastjóri RML segja samstarf  RML og Lbhí hafa verið einstaklega farsælt og gott, sérfræðingar RML koma mikið að kennslu hjá LbhÍ og tryggja faglega breidd og gæði námsins. Sérfræðiþekking einstakra greina í landbúnaði byggir á mjög fáu fólki og því mikilvægt að samvinnan sé góð á milli aðila Mikil tækifæri eru til að efla enn frekar samstarfið og þá ekki síst til að sækja fram og auka enn frekar samstarf í rannsóknum og nýsköpun.

logo

Þekking á sviði sjálfbærrar nýtingar auðlinda, umhverfis, skipulags og matvælaframleiðslu.

LBHÍ

Hvanneyri - 311 Borgarbyggð
Sími 433-5000
lbhi@lbhi.is
Kt. 411204-3590
Rafrænir reikningar
Image

Starfsstöðvar

Flýtileiðir

Samfélagsmiðlar

Image
Image