Efling þverfaglegs samstarfs um nám í skipulagsfræði. Anna Sigríður Jóhannsdóttir og Harpa Stefánsdóttir.

Anna Sigríður Jóhannsdóttir t.v. og Harpa Stefánsdóttir vinna að verkefninu sem heitir Efling þverfaglegs samstarfs um nám í skipulagsfræði. Ljósmynd aðsend.

Efling þverfaglegs samstarfs um nám í skipulagsfræði

Landbúnaðarháskóli Íslands er umsjónaraðili verkefnisins „Efling þverfaglegs samstarfs um nám í skipulagsfræði” og er Harpa Stefánsdóttir prófessor í skipulagsfræði við LBHÍ verkefnisstjóri þess. Anna Sigríður Jóhannsdóttir hefur verið ráðin í 50% stöðu til verkefnisins og hóf störf fyrr í sumar. Anna Sigríður er arkitekt og hefur lokið námi í kennslufræði fyrir háskólastig.

Verkefnið hlaut styrk úr samstarfssjóði háskólanna sem settur var á laggirnar af Háskóla-, iðnaðar og nýsköpunarráðuneytinu. Tilurð verkefnisins tengist því að skipulagsfræði er þverfagleg grein sem byggir á þekkingu úr náttúruvísindum, félagsvísindum og arkitektúr og snýr að greiningu á möguleikum beins samstarfs LBHÍ, HÍ, HR og LHÍ á þeim fræðasviðum sem tengjast viðfangsefnum skipulagsfræði.

Efling náms í skipulagsfræði

Það er mikilvægt að vinna greiningu á námsframboði hér á landi, mögulegum samstarfsflötum milli háskólanna, stuðla að samlegðaráhrifum og styrkja þekkingu á viðfangsefnum skipulags. Markmiðið er að tryggja sterkari námsbraut í skipulagsfræði á meistarastigi. Í verkefninu verður skoðað hvernig megi bæta flæði nemenda og akademískra starfsmanna með það í huga að styrkja m.a. þekkingagrundvöll tengt viðfangsefnum skipulagsmála, auka gæði námsbrautar í skipulagsfræði og bæta hagkvæmni og þverfaglega umræðu.

Eftirspurn eftir faglærðu fólki á sviði skipulagsfræði

Eftirspurn eftir skipulagsfræðingum er vaxandi um land allt, enda gegna skipulagsfræðingar lykilhlutverki í að leiða saman þekkingu um sjálfbæra þróun þéttbýlis, dreifbýlis, náttúrusvæða og samfélög framtíðarinnar. Sífellt flóknari og margsamsett viðfangsefni kalla auk þess á að sérfræðingar sem koma að skipulagsverkefnum hafi betri innsýn inn í og hæfni til að takast á við þau frá sjónarhorni síns fræðasviðs.

Tryggja þarf því nauðsynlega uppbyggingu M.Sc. námsbrautar í skipulagsfræði og að viðfangsefni sem varða skipulagsmál verði í auknum mæli tekin upp innan annarra námsbrauta með því að styrkja verulega samstarf í háskólum landsins. Til að stuðla að bættri þróun námsbrautar í skipulagsfræði og tryggja samtal og þekkingarsköpun um skipulagsmál af þeim gæðum sem samfélagið krefst, er nauðsynlegt að byggja betur á þeim akademíska mannauði og námsframboði sem til er í háskólum landsins og getur komið að gagni.

logo

Þekking á sviði sjálfbærrar nýtingar auðlinda, umhverfis, skipulags og matvælaframleiðslu.

LBHÍ

Hvanneyri - 311 Borgarbyggð
Sími 433-5000
lbhi@lbhi.is
Kt. 411204-3590
Rafrænir reikningar
Image

Starfsstöðvar

Flýtileiðir

Samfélagsmiðlar

Image
Image