Elisabeth Jeanne ráðin sem sérfræðingur LIFE verkefnis sem snýr að endurheimt vistkerfa á Íslandi

Elisabeth Jeanne Marie Heloise Bernard hefur verið ráðin sem sérfræðingur til LbhÍ vegna spennandi verkefnis sem snýr að endurheimt vistkerfa á Íslandi.

Um er að ræða samstarfsverkefni sjö aðila, stofnana, háskóla og félagasamtaka, sem snýr að því að auka þekkingu og skilning á endurheimt votlendis á láglendi á Íslandi hvað varðar kolefnisbindingu, vistfræði votlendis og áhrif endurheimtar á líffræðilegan fjölbreytileika. Megináhersla verkefnisins verður á fræðslu og miðlun ásamt því að tryggja gott samstarf og sjálfbærni málaflokksins til framtíðar. Verkefnið er styrkt af LIFE, umhverfis- og loftslagsáætlun Evrópusambandsins. Landbúnaðarháskóli Íslands leiðir verkefnið og mun Elisabeth verða hluti af öflugu teymi sérfræðinga í málefnum endurheimtar þar sem áhersla er lögð á þverfaglega samvinnu.

Elisabeth er með MSc-gráðu í Norðurslóðafræðum frá Paris Saclay University sem hún lauk árið 2021, með áherslu á umhverfisferli á norðurslóðum, aðlögun að loftslagsbreytingum, stjórnun norðurslóða og hefðbundna vistfræðilega þekkingu (TEK). Að auki er hún með BA- og MA-gráðu í félagsmannfræði frá Paris Nanterre University, sem hún lauk 2016 og 2018. Þar rannsakaði hún hlutverk eldfjalla- og jarðfræðilegra ferla innan íslenskrar menningar.

Eftir að hafa unnið að meistararannsóknarverkefni um LULUCF-geirann á Íslandi hefur Elisabeth Bernard starfað hjá Skógræktarfélagi Íslands frá 2020 til 2025, fyrst sem sérfræðingur og síðan sem verkefnastjóri. Þar hefur hún meðal annars haft umsjón með evrópsku sjálfboðaliðaverkefni félagsins í nánu samstarfi við Rannís og önnur evrópsk samtök, auk þess að vera fulltrúi félagsins úti á vettvangi til að funda reglulega með dreifðum skógræktarfélögum og þróa ný og framsækin verkefni með öðrum samstarfsaðilum.

„Ég hef alltaf haft áhuga á að rannsaka samskipti fólks við umhverfið, sérstaklega með því að skoða náttúrutengdar lausnir til að takast á við loftslags- og umhverfiskreppuna. Ég hlakka til að dýpka þessa þekkingu og taka þátt í þessu metnaðarfullu verkefni. Ég er afar spennt fyrir því að ganga til liðs við teymið við Landbúnaðarháskóla Íslands og hlakka til að hitta samstarfsfólk mitt og alla samstarfsaðila verkefnisins.“ Segir Elisabeth Jeanne

Við bjóðum Elisabeth hjartanlega velkomna!

logo

Þekking á sviði sjálfbærrar nýtingar auðlinda, umhverfis, skipulags og matvælaframleiðslu.

LBHÍ

Hvanneyri - 311 Borgarbyggð
Sími 433-5000
lbhi@lbhi.is
Kt. 411204-3590
Rafrænir reikningar
Image

Starfsstöðvar

Flýtileiðir

Samfélagsmiðlar

Image
Image