Föstudaginn 21. nóvember var Emmanuel Pierre Pagneux formlega tekinn inn í Kennsluakademíu opinberu háskólanna. Þetta er mikil viðurkenning á framúrskarandi starfi Emmanuels í kennslu og kennsluþróun
Emmanuel er annar starfsmaður stofnunarinnar sem hlýtur þennan heiður en prófessor Harpa Stefánsdóttir var tekin inn í akademíuna í fyrra. Þetta sýnir fram á þann metnað og þá gæðakennslu sem er lögð áhersla á innan veggja LbhÍ.
Viðurkenning og hvatning
,, Að vera tekinn inn í Kennsluakademíu opinberu háskólanna er mér bæði heiður og hvatning. Þetta er viðurkenning á minni skuldbindingu við nemendamiðaða og vandaða kennslu, og tengir mig við öflugt samfélag samstarfsfólks sem leggur metnað í að efla gæði í kennslu á háskólastigi," segir Emmanuel.
LbhÍ er ákaflega stolt af þessum árangri og óskar Emmanuel innilega til hamingju með þessa verðskulduðu viðurkenningu.
Hvað er Kennsluakademía opinberu háskólanna?
Kennsluakademían er mikilvægur vettvangur að norrænni fyrirmynd sem ætlað er að stuðla að kennsluþróun innan háskólasamfélagsins. Meginmarkmið akademíunnar er að efla samtal um kennslu og kennsluþróun innan og á milli opinberu háskólanna á Íslandi
Kennsluakademían var stofnuð með stuðningi og hvatningu menntamálaráðuneytis og eiga allir opinberu háskólarnir aðild að henni: Háskóli Íslands, Háskólinn á Akureyri, Háskólinn á Hólum og Landbúnaðarháskóli Íslands.
Hlutverk akademíunnar
Hlutverk akademíunnar er að efla umræður um kennsluþróun og góða kennsluhætti, að koma að faglegri skipulagningu kennsluþróunar, og standa að ráðstefnum og útgáfu.
Einnig að skipuleggja starfshætti og verkefni í nánu samstarfi við kennslusvið/kennslumiðstöðvar háskólanna.





