Land og skógur hefur fengið tvo óháða sérfræðinga til að stýra vinnu við að móta framtíðarleiðir í tegundavali og tegundanotkun í landgræðslu og skógrækt á Íslandi með tilliti til áhrifa á líffræðilega fjölbreytni.
Þetta eru þeir Bjarni Diðrik Sigurðsson prófessor í skógfræði við LBHÍ og Skúli Skúlason prófessor við Háskólann á Hólum.
Markmiðið er að tryggja að starfið sé unnið með ábyrgum hætti og taki mið af þekkingu, reglum og viðmiðum, bæði hérlendis og alþjóðlega, til að draga úr mögulegum neikvæðum áhrifum ræktunar á líffræðilega fjölbreytni.
Í vinnunni framundan verður haft náið samráð við innlenda og erlenda hagsmunaaðila á þessu sviði þar sem farið verður yfir stöðu mála hér og í nágrannalöndunum og hvernig breyta mætti verklagi til að betur koma á móts við áhrif á líffræðilega fjölbreytni.
Litið er á þetta verk sem mikilvægt skref til að skilgreina og treysta þann grunn sem starf landgræðslu- og skógræktar á Íslandi byggir á.
Verkefnið uppfyllir vel fyrirheit sem sett voru fram í „Landi og lífi“, aðgerðaáætlun stjórnvalda í skógrækt og landgræðslu sem fjallar m.a. um fyrirhugaða ræktun og endurheimt á landinu fyrir árabilið 2022-2030. Einnig fellur það vel að þeirri endurnýjuðu stefnu um líffræðilega fjölbreytni sem stjórnvöld áætla að afgreiða á vorþingi 2026.





