Landbúnaðarháskóli Íslands og íslenskt vísindasamfélag fagna framúrskarandi árangri tveggja vísindamanna, þeirra Dr. Ólafs G. Arnalds, prófessors emeritus í jarðvegsfræði og Dr. Bjarna Diðriks Sigurðssonar, prófessors í skógfræði, sem báðir hafa hlotið sæti á lista AD Scientific Index yfir topp 100 vísindamenn Íslands.
AD Scientific Index metur vísindamenn út frá vísitölum eins og H-vísitölu (H-index), i10-vísitölu og fjölda tilvitnana í greinar þeirra sem gefur vísbendingu um áhrif þeirra á alþjóðasamfélagið.
Áhrifamiklar rannsóknir
Vísindamennirnir hafa báðir lagt mikið af mörkum til rannsókna á íslenskri náttúru og umhverfi:
Dr. Bjarni Diðrik Sigurðsson er prófessor í skógfræði og hefur verið afkastamikill í rannsóknum á sviði vistkerfa, skógfræði og loftslagsbreytinga. Bjarni hefur markað spor í vísindasamfélagið og hefur m.a. tekið þátt í rannsóknum í Surtsey, þangað sem hann hefur farið í fjölmargar ferðir og rannsakað hvernig líf þróast á einangruðum eyjum. Bjarni Diðrik er m.a. meðlimur í Royal Swedish Academy of Agriculture and Forestry,
Dr. Ólafur G. Arnalds er þekktur fyrir áratuga rannsóknir á íslenskum jarðvegi, jarðvegsrofi, kolefnisbúskap og landvistkerfum. Hann hefur verið lykilmaður í kortlagningu og rannsóknum á eðli og myndun jarðvegs hér á landi. Ólafur hlaut Norrænu umhverfisverðlaunin (Nordic Council Environment Prize) árið 1998 fyrir störf sín á jarðvegsrofi á Íslandi.
Þá hlaut hann Landgræðsluverðlaunin (land reclamation / land restoration prize) árið 2018.
Árangur þeirra Bjarna og Ólafs endurspeglar mikilvægi þeirra rannsókna sem unnið er að hjá Landbúnaðarháskóla Íslands.
Til hamingju með þennan frábæra árangur!





