Gerum þorpin okkar aðlaðandi

Í átt að sjálfbærri endurnýjun lítilla þéttbýla: með söguna að leiðarljósi við hönnun almenningssvæða

Borgarskipulag — eða rannsóknir á skipulagi bæja — hefur í gegnum tíðina beinst að stórum þéttbýlissvæðum. Þessi áhersla sprettur annars vegar af sögu skipulagsfræði sem faggreinar, sem mótaðist í kjölfar hraðrar þróunar stórborga á 19. öld, og hins vegar af nútímalegri staðreynd að meirihluti mannkynsins býr í borgum. Þrátt fyrir þetta er vaxandi áhugi á smáum og jafnvel afskekktum þorpum og þéttbýlisstöðum víða um Evrópu.

Þessar byggðir hafa lengi staðið frammi fyrir kerfisbundnum áskorunum (meðal annars fólksfækkun, efnahagslegri jaðarsetningu, þar sem fjárhagur og nauðsynleg þjónusta er háð borgum og menningarlíf er takmarkað) en búa líka yfir talsverðum eignum. Margar þeirra geyma ríkulega menningararfleifð, bæði sýnilega og ósýnilega, og eiga inni ónýtt tækifæri fyrir sjálfbæra þróun.

Undanfarin ár hafa sum smáþorp orðið fyrir aukinni ásókn bæði ferðamanna og nýrra íbúa, bæði í skammtímagistingu og til lengri tíma búsetu. Þróunin stafar að hluta af því að staðir sem virðast fjarlægir í tíma og rúmi (gætu kallast "fjarlægir staðir") vekja áhuga, en einnig af því að fjarvinna hefur orðið ægi viðráðanlegri, sem gerir borgarbúum kleift að íhuga annað lífsmynstur utan stórborgasvæða (Barbera et al., 2019).

Þessar breytingar skapa ný tækifæri til þróunar. Lykilspurningin er þó hvernig þróuninni er stýrt þannig að hún þjóni sem best langtímahagsmunum samfélagsins. Hvernig tryggjum við verndun umhverfisins? Hvernig geta staðbundin efnahagur, lífsgæði og menning notið góðs af auknum ferðamannastraumi og tilkomu nýrra íbúa? Hvernig er hægt að bæta lífsgæði núverandi íbúa? Og síðast en ekki síst, hvernig er best að styðja við sveitarstjórnir til að gera þær reiðubúnar til að skipuleggja og stýra hönnun þessara umbreytinga á sjálfbæran hátt?

Endurvakinn áhugi á smáum (og oft afskekktum) byggðum nýtur stuðnings þróunaráætlana Evrópusambandsins, t.d. í gegnum rannsóknar- og þróunarstyrki.

Árin 2020–2024 unnu tíu evrópskir háskólar, fyrirtæki og stofnanir saman að hönnun með þátttöku íbúa og hagsmunaðila á almenningsrýmum í smáum og afskekktum byggðum, sem hluti af verkefninu „Human Cities – SMOTIES“, fjármagnað af evrópsku menningaráætluninni (Creative Europe Programme of the European Union). Í mörgum tilfellum höfðu byggðirnar langa sögu, og þar af leiðandi ríka menningar- og náttúruarfleifð. Verkefnið beindist að rannsóknum og bættum almenningssvæðum og menningarafi.

Hágæða almenningssvæði (staðir þar sem fólk getur hist og tekið þátt í fjölbreyttum athöfnum) eru grundvallaratriði til að tryggja lífsgæði í þorpum. Menningararfurinn er jafn mikilvægur. Rannsóknir á tilfinningatengslum við staðinn „sense of place“ og staðaranda hvetja til þess að viðhalda slíkum tengslum sem auka lífvænleika samfélaga (Dameria, 2020). Rannsóknir á menningartengdri ferðaþjónustu og endurnýjun þéttbýlis undirstrika einnig efnahagslegt gildi menningararfs (Rudan, 2023). Í stuttu máli: arfleifð er lykilauðlind fyrir félags-, menningar- og efnahagsþróun þorpa.

Að bæta menningaríkt almenningsrými er því dýrmæt stefna bæði í dreifbýlis- og þéttbýlisþróun. Slík verkefni þurfa þó að byggjast á samfélagslegum gildum — þau þurfa að vera hönnuð í samvinnu við íbúa, fyrirtæki og sveitarstjórn, til að tryggja að þörfum allra hagsmunaaðila sé mætt.

Arfleifð í smáum og afskekktum byggðum fellur eftir staðsetningu í ýmsar flokka, t.d. dreifbýlis- og þéttbýlisafleifð. Þó getur UNESCO-hugmyndafræðin Historic Urban Landscape (HUL) verið gagnlegt greiningartól, þökk sé víðtækri skilgreiningu landslags sem arfs. HUL skilgreinir sögulegt landslag sem fjölbreyttan heild: svæðið og náttúrulega eiginleika þess, byggt umhverfi, innviði, opin rými og garða, landnotkun, rýmisskipulag, og einnig skynjun og sjónræn tengsl. Þetta skiljanlega heildræna sjónarmið styður þróun sem innheldur raunverulegt hlutlægt umhverfi. Þá leggur það áherslu á að slík þróun eigi sér stað í samstarfi við nærsamfélög.

Sem hluti af Human Cities–SMOTIES verkefninu vann Skipulags- og hönnunardeild Landbúnaðarháskóla í samvinnu við Alternance Architecture and Urban Planning að verkefni sem rannsakaði menningarleg almenningssvæði í Borgarnesi. Svæðið er sérstakt fyrir mikilvægar fornleifar frá miðöldum, sem og byggða arfleifð frá 19. og 20. öld, sem hefur því miður verið vanmetin.

Undanfarna áratugi hefur þetta sögulega svæði drabbast niður, vegna flutnings lykilþjónustu og starfsemi á Brúartorg sem er nýtt miðbæjarhverfi við þjóðveginn. Þetta hefur leitt til sundurlausrar byggðar í gamla miðbænum, þar sem byggingum er illa viðhaldið, sumar yfirgefnar eða í tímabundinni notkun. Þar eru líka leifar af svæðum og almenningsrými sem eru illa hönnuð eða að mestu leyti mótuð fyrir bílaumferð. Gamli miðbærinn þarfnast nú að fá markvist og vandað skipulag.

Verkefnið, sem nefnt var Sögutorgin (www.sogutorgin.is), hafði það markmið að þróa fyrstu skissu að rýmislegri lausn sem beindist að því að efla og  endurvirkja menningararfinn innan elsta hverfis bæjarins.

Með stuðningi Borgarbyggðar var markmið Sögutorgsins að kortleggja, meta og hanna söguleg lykil-almenningssvæði í Borgarnesi. Einnig var stefnt að því að verkefnið myndi nýtast við gerð aðalskipulags, með yfirlýstu markmiði um að skapa stefnu fyrir sjálfbæra endurnýjun gamla bæjarhlutans. Að lokum var þróuð og prófuð aðferð sem myndi henta við skipulag á minni þéttbýlum á Íslandi.

Árið 2021–2024 þróaðist verkefnið Sögutorgin í nokkrum þrepum, allt frá staðargreiningu að rýmislegri forhönnun almenningsrýma. Verkefnið fól í sér þverfaglega samvinnu sérfræðinga úr hugvísindum (saga og umhverfissálfræði), skipulagsfræði og arkitektúr. Aðferðafræðin byggði á aðferðum úr þessum greinum og tryggði samræmi milli greiningar og hönnunar. Hópurinn samanstóð af arkitektinum Birgi Jóhannssyni, skipulagsfræðingnum Sigríði Kristjánsdóttur, umhverfissálfræðingnum Páli Líndal og Astrid Lelarge sagnfræðingi með sérhæfingu í borgarfræðum og skipulagi.

Í upphafi framkvæmdu teymin rannsóknir til að kortleggja svæði með menningararfleið og almenningsrými og valdi út þau sem höfðu samfélagslegan styrk og þróunarmöguleika. Aðferðir frá borgarformfræði (rannsóknir á byggðu og náttúrulegu umhverfi) og borgarhönnun, ásamt korti frá íbúasamtökum Borgarness frá 2021 og samtölum við íbúa, voru notuð til að kortleggja mikilvægu svæðin út frá menningarlegum gildum, skipulagi og þýðingu fyrir nærsamfélagið.

Í samráði við sveitarfélagið voru þrjú svæði valin fyrir forhönnunina. Áformin voru að búa til tvö torg, annað á milli Skallagrímsgarðs og Kveldúlfsvallar (við haug Skallagríms, föður aðal sögupersónunnar í Egilssögu) og hitt við enda Brákarbrautar norðan við Brákareyjarbrú (þar sem bærinn þróaðist á 19. öld). Göturnar Brákarbraut og Borgarbraut sem tengja torgin saman voru einnig hluti af verkefninu.

Svæðin voru síðan metin til að geta ákveðið bestu staðsetningu úrbóta. Matið fól í sér  vettvangsferðir til að greina hegðunarmynstur notenda og gæði svæða, sem og net- og vettvangskannanir til að safna innsýn í hvernig nærsamfélag upplifði þau og hverjar væru væntingar þeirra varðandi framtíðarþróun.

Loks vann teymið forhönnun með virkri þátttöku íbúa og hagsmunaaðila. Fjölmargir upplýsingafundir, sýningar, samhönnunar-vinnustofur og einstaklingsfundir voru haldnir til að fá íbúa til að taka þátt í sköpunarferlinu. Eins og við var að búast þá lýstu íbúar sterkum tilfinningalegum tengslum við gamla bæinn og sögustaði og vilja til að sjá þá endurlífgaða og gert hátt undir höfði, fyrst og fremst í þágu íbúa, en einnig gesta og ferðamanna. Þeir lögðu einnig áherslu á þörfina fyrir bæði innandyra- og utandyra almenningsrými sem henta til að hittast og safnast saman, sem styðja mismunandi ferðamáta, veita aðgang að náttúru og áhugaverðu útsýni.

Í stuttu máli benda niðurstöðurnar til að þessi nálgun (sem er ætluð fyrir íslensk þorp) sé bæði nauðsynleg og árangursrík. Að með aðferðunum sem voru þróaðar og prófaðar í Borganesi bjóðist lofandi tækifæri.

Á Íslandi er áhugi á smáum þorpum sérstaklega viðeigandi því flest þéttbýli eru lítil. Að höfuðborgarsvæðinu undanskildu eru mjög fáir bæir með 10.000 eða jafnvel 5.000 íbúa (Hagstofa Íslands, 2025).

Þá stendur landið frammi fyrir ferðamannaaukningu sem aldrei fyrr,  sem hefur sífellt meiri áhrif á sum minni þorp. Rannsóknir á ferðaþjónustu í íslenskum þorpum sýna að íbúar vilja sjá þróunina bera virðingu fyrir þeirra lífi og lífsmáta,  t.d. varðandi umferð og húsnæðismál (Helgadóttir et al., 2029). Á meðan náttúruferðaþjónusta eykst, þá er einnig aukinn áhugi á að kynna og efla staðarmenningu í bæjum og þorpum.

Í þessu samhengi er mikilvægt að við hald til haga að íslensk þorp eru varðveitendur mikilvægs menningararfs. Mörg þeirra búa yfir fornleifum frá miðöldum og áberandi byggingararfleifð frá 19. og 20. öld. Þar sem menningar- og arfleifðartengd ferðaþjónusta vex á heimsvísu, mun aukin áhersla á byggða arfleifð og góð gæði almenningsrýma, svo sem samkomusvæði, birtast sem dýrmæt stefna í átt að stöðugri efnahagslegri þróun ásamt félagslegri velferð í íslenskum þorpum.

Með hágæða aðsniðnu skipulagi og hönnun sem nýtir staðbundna möguleika og einkenni verða staðirnir mun meira aðlaðandi fyrir aðkomu-fyrirtæki, ný viðskipti og nýbúa sem leita að nýju áhugaverðu lífi og geta þannig boðið upp á hærri lífsgæði en höfuðborgarsvæðið.

Verkefnið um Borgarnes er birt í bókinni:

Fassi, D., De Rosa, A., Eller, I., Dumiak, M. (Eds.) (2024). Remote Places, Public Spaces. The Story of Creative Works with Ten Small Communities. Birkhauser.

https://birkhauser.com/en/book/9783035629132

Aðferðafræðin sem íslenski teymið þróaði er í bókinni:

Auricchio, V., De Rosa, A., Fassi, D., Johannsson, B., King, J., Lelarge, A., Líndal, P.J., Monna, V., Russo, P., van Hasselt, F. (Eds.) (2024). SMOTIES TOOLBOX. Design tools for the creative transformation of public spaces in small and remote places. Birkhauser.

Heimildir:

Barbera, F., Caputo, M. L., Baglioni (2019). Thesis 9: The social and economic development, attractiveness and collective well-being of remote, rural and mountain regions closely depend on the foundational economy. In A. Membretti, Th. Dax, A. Krasteva (eds.), The Renaissance of Remote Places. MATILDE Manifesto (pp.84-91). Routledge.

Dameria, Ch., Akbar, R., Natalivan Indradjati, P., Sawitri Tjokropandojo, D. (2020). A Conceptual Framework for Understanding Sense of Place Dimensions in the Heritage Context. Journal of Regional and City Planning, 31(2), 139-163.

Rudan, E. (2023). Circular Economy of Cultural Heritage—Possibility to Create a New Tourism Product through Adaptive Reuse. Journal of Risk and Financial Management, 16:196.

Helgadóttir, G., Einarsdóttir, A. V., Leah Burns, G., Gunnarsdóttir, G. Þ., Matthíasdóttir, J. M. E. (2019). Scandinavian Journal of Hospitality and Tourism, 19(4-5), 404-421.

Hagstofa Íslands. (2025, January 1). Sveitarfélög og byggðakjarnar.

https://www.hagstofa.is/talnaefni/ibuar/mannfjoldi/sveitarfelog-og-byggdakjarnar/

logo

Þekking á sviði sjálfbærrar nýtingar auðlinda, umhverfis, skipulags og matvælaframleiðslu.

LBHÍ

Hvanneyri - 311 Borgarbyggð
Sími 433-5000
lbhi@lbhi.is
Kt. 411204-3590
Rafrænir reikningar
Image

Starfsstöðvar

Flýtileiðir

Samfélagsmiðlar

Image
Image