Anne Steinbrenner ver meistararitgerð sína í skipulagsfræði

Greining á Selfossi út frá skipulagshugmyndinni um 20 mínútna bæinn

Anne Steinbrenner ver meistararitgerð sína í skipulagsfræði „Greining á Selfossi út frá skipulagshugmyndinni um 20 mínútna bæinn. Kortlagning svæða eftir aðgengi að þjónustu í GIS og tillögur að skipulagi“ við deild Skipulags & Hönnunar við Landbúnaðarháskóla Íslands.

Leiðbeinendur Anne voru Dr. Emmanuel Pierre Pagneux doktor í landfræði og lektor hjá Lbhí og Dr. Bjarni Reynarsson, doktor í landfræði og skipulagsfræði. Prófdómari Jón Kjartan Ágústsson skipulagsfræðingur og svæðisskipulagsstjóri höfuðborgarsvæðisins.

Meistaravörnin fer fram 3. febrúar 2023 kl 14:00 á Keldnaholti í Reykjavík. Vörninni verður einnig streymt á Zoom. Hlekkur hér. Mikilvægt er að vera kominn inn tímanlega og hafa slökkt á hljóðnema.

Ágrip

Módernískt skipulag með bílmiðuðum ákvörðunum hefur verið einkennandi á Íslandi frá því um miðbik 20. aldar og hefur skilið eftir sig einhæf hverfi og dreifða byggð. Samgöngur eiga mikinn þátt í losun gróðurhúsalofttegunda og þar með hlýnun jarðar. Á síðustu árum eru alvarlegar afleiðingar loftslagsbreytinga orðnar augljósar og samfélagið verður að aðlagast, svo skaðinn verði sem minnstur. Tækifærin liggja í ferðamátabreytingum til að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda. Með því að hanna lifandi bæjarrými með áherslu á gönguvænni þar sem er stutt frá heimili í þjónustu, almenningssamgöngur og útivistarsvæði verður dregið úr akstursþörf. Skipulagshugmyndin og stefna um 20 mínútna bæinn kemur með tillögur um hvernig hið byggða umhverfi ætti að vera til að auka hlutdeild gangandi og hjólandi á Íslandi. Viðfangsefni rannsóknarinnar er að greina Selfoss út frá hugmyndinni, sérstaklega með tilliti til göngufjarlægðar að verslun og þjónustu. Aðgengi íbúa er kortlagt í GIS með netgreiningu og tillagan að aðalskipulagi fyrir Árborg borin saman við markmiðin úr tillögunni aðlandsskipulagsstefnu. Einnig var framkvæmd skoðanakönnun meðal íbúa á Selfossi varðandi ferðahegðun. 

Helsti ávinningurinn af þessari rannsókn eru tillögur fyrir sveitarfélagið Árborg um atriði sem ættu að gegna lykilhlutverki í skipulagi. Eftirfarandi skref voru nauðsynleg framlög til að þróa tillögurnar: a) túlkun á hugmyndinni um 20 mínútna bæinn og útfærsla hennar fyrir Selfoss, b) greining á dreifingu núverandi þjónustu og aðgengi íbúa, c) auðkenning á svæðum sem þarfnast betri skipulagningar, d) tillögur að staðsetningu á nýjum þjónustukjörnum, e) greining á þáttum sem ógna markmiðinu og f) greining á þörfum íbúa.  

Helstu niðurstöður eru þær að 35% Selfossbúa hafa mjög takmarkaðan aðgang að þjónustu innan 10 mínútna göngufjarlægðar og 20% hafa einungis aðgengi að um helmingi af þjónustutegundunum. Þetta þýðir að ganga er oftast ekki raunhæfur ferðamáti, sem dregur úr sjálfstæði ýmissa hópa í samfélaginu.  

Mikil íbúafjölgun á stuttum tíma, uppbygging nýja miðbæjarins á Selfossi og tilfærsla hringvegarins eru áskoranir sem sveitarfélagið Árborg þarf að takast á við. Niðurstöðurnar úr rannsókninni geta hjálpað sveitarfélaginu að átta sig á helstu framkvæmdaatriðum til að gera Selfoss að gönguvænni bæ. 

logo

Þekking á sviði sjálfbærrar nýtingar auðlinda, umhverfis, skipulags og matvælaframleiðslu.

LBHÍ

Hvanneyri - 311 Borgarbyggð
Sími 433-5000
lbhi@lbhi.is
Kt. 411204-3590
Rafrænir reikningar
Image

Starfsstöðvar

Flýtileiðir

Samfélagsmiðlar

Image
Image