Landbúnaðarháskóli Íslands (LbhÍ) hefur gefið út nýjan leiðarvísi fyrir kornbændur sem ber heitið Gullkorn. Ritstjóri og höfundur meginhluta efnisins er Þóroddur Sveinsson, meðhöfundar að fjórum köflum eru þeir Haukur Þórðarson og Jóhannes Kristjánsson.
Leiðarvísirinn er hluti samnings atvinnuvegaráðuneytisins og LbhÍ um sérhæfða ráðgjöf og þróunarvinnu í landbúnaði og er afrakstur margra ára rannsókna og reynslu af kornrækt og er ætlað að styðja við sjálfbæra og hagkvæma kornrækt á Íslandi.
Leiðarvísirinn er fyrst og fremst miðaður að ræktun vorbyggs við íslenskar aðstæður en ætti einnig að gagnast að stórum hluta fyrir aðrar korntegundir eins og hafra, hveiti eða rúg.
Gullkorn byggir á samantekinni þekkingu úr íslenskum og erlendum rannsóknum og veitir hagnýtar leiðbeiningar um allt frá vali á yrkjum og jarðvinnslu til áburðargjafar, kornskurðar og geymslu. Einnig er fjallað ítarlega um áhrif veðurfars, jarðvegsgerða og næringarefnaskorts á uppskeru.
Útgáfan er tileinkuð Jónatan Hermannssyni, brautryðjanda í kornrannsóknum á Íslandi. Ritið er opið öllum til afnota og má nálgast hér. Einnig má jafnframt finna níu myndbönd sem búfræðinemar við LbhÍ gerðu, Kristín Ólafsdóttir búfræðinemi stýrði mynd- og hljóðvinnslu.
