Gústaf Jarl Viðarsson ver meistararitgerð sína í skógfræði

Gústaf Jarl Viðarsson ver meistararitgerð sína í skógfræði

Gústaf Jarl Viðarsson ver meistararitgerð sína í skógfræði: „Kolefnisbinding og vöxtur mismunandi skógargerða í þremur skógum á Suðvesturlandi: Heiðmörk, Nesjavöllum og Ölfusvatni“ e. Carbon sequestration and growth of different forest types in three forests in South-West Iceland: Heiðmörk, Nesjavellir and Ölfusvatn við deild Náttúru og skóga við Landbúnaðarháskóla Íslands.

 

Leiðbeinendur Gústafs Jarls eru Bjarni Diðrik Sigurðsson, prófessor við LbhÍ og Arnór Snorrason, skógfræðingur MSc og Björn Traustason, landfræðingur MSc, báðir sérfræðingar við Rannsóknastöð Skógræktarinnar á Mógilsá. Prófdómari er Ellert Arnar Marísson, skógfræðingur MSc og framkvæmdastjóri Land Life á Íslandi

Meistaravörnin fer fram mánudaginn 4. september 2023 kl. 14:00 í Geitaskarði, 2. hæð í húsi LbhÍ á Keldnaholti í Reykjavík. Vörninni verður einnig streymt á Teams, hlekkur hér. Mikilvægt er að vera kominn inn tímanlega og hafa slökkt á hljóðnema.

 

Ágrip

Markmið þessa verkefnis var að

i) lýsa og aðlaga aðferðafræði til að meta kolefnisbindingu í lífmassa trjáa í afmörkuðum skóglendum (einstaka skógajörðum) á áreiðanlegan hátt,

ii) framkvæma úttektir og mælingar með þeirri aðferðafræði á þremur skógræktarsvæðum á suðvesturhorninu, og

iii) bera saman niðurstöðurnar á kolefnisbindingu þessara svæða eftir svæðum, aldri skóga og ríkjandi trjátegundum.

Úttektin var framkvæmd árið 2017. Skógarnir voru fyrst endurkortlagðir og flokkaðir með tilliti til trjátegunda og aldurs. Skógmælingar og árhringjamælingar voru gerðar á hverjum mælifleti sem nægðu til að meta aldur ríkjandi trjáa, kolefnisforða í lífmassa trjáa árið 2017 og 2012, og þar með árlega kolefnisbindingu síðustu fimm árin fyrir úttektina.

Niðurstöðurnar voru að flatarmál flestra skóganna breyttist nokkuð við endurkortlagningu, en þar munaði mestu um náttúrulega birkiskóga sem höfðu aukið útbreiðslusvæði sitt eða ekki verið teknir með í fyrri úttektum á jörðunum.

Heildarmat á kolefnisforða í lífmassa trjágróðurs (sem bundið CO2) í Heiðmörk, Ölfusvatni og Nesjavöllum var alls 101.406, 2.585 og 1.752 tonn CO2 árið 2017. Þessi kolefnisforði skiptist á milli ólíkra skógargerða á eftirfarandi hátt:

Í Heiðmörk 15%, 13%, 11% og 61% á milli náttúrulegra birkiskóga, blandskóga, barrskóga undir 5 metra hæð og barrskóga yfir 5 metra hæð;

Á Ölfusvatni 93% og 7% á milli barrskóga <5 m og ræktaðra birkiskóga;

Á Nesjavöllum 35% og 65% á milli ræktaðra og náttúrulegra birkiskóga.

Núverandi (2012-2017) árlegur hraði kolefnisbindingar í lífmassa trjáa var metinn vera 7.749, 300 og 148 tonn CO2 á ári fyrir heildarflatarmál skóga Heiðmerkur, Ölfusvatns og Nesjavalla. Að jafnaði var hraði kolefnisbindingar 2012-2017 um 0,7 tonn CO2 á ha og ári í birkiskógum og 9,8 tonn CO2 á ha og ári í barrskógum.

Ekki reyndist vera munur á hraða kolefnisbindingar í ræktuðum eða náttúrulegum birkiskógum. Til að útiloka áhrif mismunandi aldurs þá var samanburður einnig gerður á barr og birkiskógum sem voru á aldrinum 15-25 ára og 40-60 ára í gagnasafninu. Allar breytur sem tengdust viðarmagni eða kolefnisbindingu voru marktækt hærri fyrir barrskóginn á báðum þessum aldursbilum.

Niðurstöður þessarar rannsóknar eru mikilvægar fyrir þróun verklags við vottun á kolefnisbindingu á stökum skógræktarjörðum.

logo

Þekking á sviði sjálfbærrar nýtingar auðlinda, umhverfis, skipulags og matvælaframleiðslu.

LBHÍ

Hvanneyri - 311 Borgarbyggð
Sími 433-5000
lbhi@lbhi.is
Kt. 411204-3590
Rafrænir reikningar
Image

Starfsstöðvar

Flýtileiðir

Samfélagsmiðlar

Image
Image