"Hæfni í mannlegum samskiptum" algeng krafa í atvinnuauglýsingum

Námskeiðið Samræður, samráð og átakastjórnun í umhverfis- og auðlindamálum er í boði hjá endurmenntunardeild LbhÍ en auk þess er það valnámskeið hjá háskóladeildum. Kennari á námskeiðinu er Agneta Setterwall, sjálfstætt starfandi ráðgjafi og umræðustjóri. Hún hefur einnig kennt og tekið þátt í rannsóknarverkefnum við umhverfissamskiptadeild Landbúnaðarháskóla Svíþjóðar (SLU). Henni til aðstoðaðar er Brita Berglund, umhverfissamskiptafræðingur við Landbúnaðarháskóla Íslands.

„Námskeiðið var upprunalega hannað fyrir starfsmenn stofnana í Svíþjóð sem þurfa að ræða við ýmsa hagsmunaaðila í sambandi við náttúruvernd og friðunarmál, sem oft geta verið erfið, flókin, og jafnvel komin í hnút. Við eigum mörg dæmi um slík mál hér á landi, t.d. deilur um beit eða friðun á litt grónum svæðum; Gálgahraunsmálið; deilur um tilverurétt lúpínunnar; virkjanir í neðri Þjórsá, umdeild plön um vegalagninga á svæðum með náttúruverndargildi og svo mætti lengi telja.
Allt eru þetta mál þar sem samskipti milli hagsmunaaðila, þar með talin yfirvöld, leika lykilhlutverki í bæði að skapa ágreinungum (skortur á samskiptum, óhentug eða klaufaleg samskipti o.fl.) og að leysa þeim (samræður, vönduð samskipti o.fl.). Ekki má heldur gleyma að samskiptahæfni er mikilvæg í skipulagsmálum og alls konar rágjafastörfum, t.d. í landbúnaði, skógrækt og landgræðslu.“ segir Brita.

 

Háskóli Íslands
Brita Berglund, umhverfissamskiptafræðingur

 

Námskeiðið er fyrir alla þá sem í starfi sínu þurfa að hafa samskipti við aðra hagsmunaaðila í sambandi við land- eða auðlindanotkun. Mannleg samskipti eru lykilatriði í umhverfis- og auðlindamálum og í dag er oftar en ekki gerð krafa um samráð við hagsmunaaðila. Faglega útfærð samskipti er forsenda þess að ná fram farsælum og sjálfbærum lausnum á meðan ófagleg samskipti, eða hreinlega skortur á samskiptum, geta haft þveröfug áhrif.

„Stundum eru svona samskipti auðveld en ansi oft geta þau verið erfið af ýmsum orsökum. Og þá reynir á það sem í smáa letrinu í starfsauglýsingum kallast „hæfni í mannlegum samskiptum“ – sem er erfitt að segja nákvæmlega hvað er, og sem mjög fáir sem vinna í þessum geirum hafa fengið þjálfun í.  Meira að segja „auðveld“ samskipti geta stundum reynt á.“ segir Brita.

13 þáttakendur eru á námskeiðinu og koma þau víða að úr samfélaginu.

„Þetta námskeið vakti áhuga minn þar sem fyrirtækinu sem ég starfa hjá, Orkuveitu Reykjavíkur, hefur verið trúað fyrir mörgum verkefnum sem snúast um skynsamlega nýtingu náttúrugæða. Þar er neysluvatnsauðlindin trúlega mikilvægust. Nýting jarðhitasvæða fyrir þrjá af hverjum fjórum Íslendingum skiptir líka miklu máli og svo sjórinn sem viðtaki fráveitukerfanna. Öll þessi auðlindanýting kallar á samskipti við fjölda fólks og í þeim efnum getur maður og á alltaf að vera að bæta sig.

Háskóli Íslands
Eiríkur Hjálmarsson, upplýsingafulltrúi OR

Þegar maður skoðar verkefni sín í starfi með fræðilegum hætti, opnast augu manns fyrir nýjum flötum og nýjum sjónarmiðum. Í fyrri hálfleik þessa námskeiðs var maður ekki svikinn um það og á námskeiðinu er skemmtileg blanda af fræðilegri nálgun og svo hagnýtum ráðum svo bæta megi samskipti fólks sem láta sig varða nýtingu landsins gæða.“ Segir Eiríkur Hjálmarsson, upplýsingafulltrúi hjá Orkuveitu Reykjavíkur.

Námskeiðið er blanda af „kennslu“, æfingum og samræðum. Þátttakendur læra um aðferðir, hugtök og samskiptamódel sem þau geta svo nytt sér í starfinu og til að ræða um þessi mál. Á námskeiðinu fá þau líka tækifæri til að ræða um og vinna með sína eigin reynslu, eitthvað sem þau hafa ekki endilega tækifæri til á sínum vinnustöðum. Námskeiðið er kennt í tveimum lotum og á milli lotna vinna þáttakendur verkefni tengt starfi sínu.

„Námskeiðið miðar að því að hjálpa þátttakendum að auka hæfni til að fást við starfstengd samskipti. Þau eru yfirleitt eins konar sérfræðingar, en ekki sérfræðingar í samskiptafræðum! Flestar þessar hugmyndir og módel gilda fyrir samskipti almennt – og eins og við verðum vör við í daglegu lífi og samfélagsumræðunni er víða þörf á að bæta mannleg samskipt hér á landi.“ Segir Brita  

„Ástæðan fyrir því að ég sóttist eftir að fara á námskeiðið var aðallega sú að þegar maður er menntaður í náttúrufræðum, þá lærir maður mjög mikið um náttúruna; eiginleika hennar, ferli og þess háttar og er með það nokkuð vel á hreinu. Svo þegar ég fór að vinna hjá  Landgræðslunni þá sé ég að vinnan mín snýst meira og minna um samskipti við fólk. Ég fer ekki og geri hlutina upp á mitt einsdæmi heldur reyni ég að hafa áhrif á að fólk geri hlutina eins og mín þekking segir til um að sé rétt.

Þó svo að fólk sé mis gott í grunninn að vinna með öðru fólki, útskýra hluti, komast að málamiðlunum, fræða og vonandi stundum fá sínu framgengt, þá held ég að flestir hefðu gott af því að skoða þessi mál betur ss. auka hæfni sína í samskiptum, samráði og átakastjórnun og ég á von á að námskeiðið komi mér að þeim notum í vinnunni minni.

Háskóli Íslands
Sunna Áskelsdóttir, héraðsfulltrúi hjá Landgræðslunni

Helmingur af námskeiðinu er búinn og var virkilega áhugaverður. Fjallað um ýmsa hluti og þeir settur upp á hátt sem að maður hafði ekki pælt í sjálfur. Fólkið sem að er á námskeiðinu er líka fjölbreytt og kemur úr ýmsum áttum og þá er gaman að heyra þeirra sýn og skoðanir, en líka hvernig vandamálin sem við stöndum frammi fyrir í okkar störfum,  eru að flestu leiti lík“ segir Sunna Áskelsdóttir, héraðsfulltrúi á Vesturlandi hjá Landgræðslu ríkisins.

Háskóli Íslands
Þátttakendur á námskeiðinu

logo

Þekking á sviði sjálfbærrar nýtingar auðlinda, umhverfis, skipulags og matvælaframleiðslu.

LBHÍ

Hvanneyri - 311 Borgarbyggð
Sími 433-5000
lbhi@lbhi.is
Kt. 411204-3590
Rafrænir reikningar
Image

Starfsstöðvar

Flýtileiðir

Samfélagsmiðlar

Image
Image