Landbúnaðarháskóli Íslands tók nýlega á móti sænskum verknámsnemum og kennara frá Munkagårdsgymnasiet. Heimsóknin er liður í áframhaldandi samstarfi skólanna og er styrkt af Erasmus+ áætluninni. Sænsku nemarnir munu dvelja næstu tvær vikurnar og vinna á íslenskum býlum til að öðlast dýrmæta verknámsreynslu.
Samstarfið milli Landbúnaðarháskóla Íslands og Munkagårdsgymnasiet hefur verið farsælt undanfarin ár, en sænski skólinn hefur tekið á móti íslenskum búfræðinemum í verknámsdvöl. Með aðild LBHÍ að Erasmus+ áætluninni fyrir starfsmenntun árin 2024-2027 hefur opnast tækifæri til að styrkja og þróa samstarfið enn frekar. Helgi Eyleifur Þorvaldsson og Eva Hlín Alfreðsdóttir hafa unnið að því að festa verkferla í sessi og styrkja góð tengsl skólanna.