Hér er nærandi að vera

Image
Rafn ásamt samnemendum sínum í fjallgöngu á Hafnarfjalli

Rafn Helgason er nemandi á náttúru- og umhverfisfræðibraut við Landbúnaðarháskóla Íslands. Hann er uppalin í Reykjavík og útskrifast með BS gráðu nú í vor. Rafn segist ekki hafa vitað mikið um námið við LbhÍ eða skólann en hann vissi að námið hefði þróast mikið í átt að nútímanum með fjölbreyttum námsleiðum.  

„Ég hafði einu sinni komið á Hvanneyri og leist strax vel á þetta fallega þorp. Náttúru- og umhverfismál höfðu verið mitt hjartans mál um tíma og þegar ég uppgötvaði að það var hægt að fara í háskóla sem er í eins mikilli nálægð við náttúruna og Lbhí, varð ég mjög spenntur“segir Rafn.

Með náttúru og umhverfi í forgrunni

Rafn segir alltaf hafa verið náttúrubarn og að hann hafi viljað mennta sig á því sviði. Hann vildi komast frá erlinum í höfuðborginni og vera þannig fyrir utan skarkalann þar. Hann vildi finna nám þar sem hann gæti upplifað nándina við náttúruna og fá vitneskju um hvernig hann gæti verndað umhverfið. Námið í náttúru- og umhverfisfræðum hafi því átt mjög vel við hann.

„Ég óttaðist að viðbrigðin yrðu mikil, en treysti á að nándin við kennara og starfslið skólans myndi vera mikill stuðningur til að byrja með. Það reyndist rétt, hér verða kennarar, annað starfsfólk og nemendur mjög samstilltir“ segir Rafn.

Rafn var mjög eftirvæntingarfullur í upphafi og er enn gagnvart náminu. „Ég vonaðist auðvitað til að geta strax tekið virkan þátt í samfélagsumræðu um náttúru- og umhverfismál, en komst fljótt að raun um að ég vissi ósköp lítið. Ég vonaðist til að með námi mínu á Hvanneyri fengi ég tækifæri til að læra fjölmargt um mín hugðarefni og dýpka skilning minn á sviði náttúru og umhverfismála. Hér hef ég vissulega lært heilmargt, skilningur minn á náttúrunni hefur dýpkað og hugmyndir og skoðanir hafa breyst. Námið hefur klárlega staðist væntingar um að uppfylla þörf mína fyrir auknum skilningi á sviðinu og búið mig vel undir að fara í frekara nám“ segir Rafn.

Rafni hefur liðið vel á Hvanneyri og segir dvölin þar vera góð. „Eins og góður vinur minn sagði, “Þetta eru eins og sumarbúðir fyrir fullorðna. Ég hef kynnst mörgum manneskjum hérna sem hafa kennt mér mjög mikið. Hér skapast vináttubönd sem eru dýrmæt. Síðan ég flutti hingað hefur ferðum mínum til Reykjavíkur farið sífellt fækkandi vegna þess að hér er svo nærandi að vera“ segir Rafn.

Magnað að geta endurnýtt koldíoxíð til að búa til eldsneyti

Rafn skilaði inn lokaverkefni sínu í náminu í byrjun maí og fjallar það um notkun og framleiðslu á endurnýjanlegu metanóli.

„Mér finnst Metanól mjög spennandi orkugjafi og ég tel að hann gæti að miklu leyti leyst af hólmi hefðbundið eldsneyti. Vélar sem ganga fyrir metanóli menga(r) minna en bensín- og díselvélar og því til mikils að vinna. Þrátt fyrir að metanól hafi minna orkuinnihald en bensín og díselolía þá er verið að þróa vélar sem heita efnarafgjafar og þeir gætu leyst af hólmi venjulegar vélar (sprengihreyfla). Með þeim er hægt að fá mun meiri afköst út úr orkunni sem er í eldsneytinu. Þar að auki er hérna á Íslandi ein flottasta metanólverksmiðja í heimi sem fyrirtækið Carbon Recycling International rekur. Í henni er framleitt metanól úr raforku,vatni og koldíoxíðmengun. Koldíoxíðmengunin stafar af jarðvarmavirkjun í grennd fyrir metanólverksmiðjuna en metanólverksmiðjan grípur koldíoxíðið sem annars færi út í andrúmsloftið og endurnýtir gróðurhúsalofttegundina... sem er alveg magnað!“

Námið veiti fjölbreytta möguleika á framhaldsnámi

Rafn segir að einn að helstu kostum námsins er að það fylgja því alveg óteljandi möguleikar á framhaldsnámi í mismunandi greinum. Flestir sem eru að útskrifast eru að fara í master og gerir hann ráð fyrir að gera það einnig.

„Mig langar leggja mitt af mörkum í því að gera náttúrunýtingu landsins sjálfbærari. Til dæmis myndi ég vilja nota þekkingu mína til þess að beina raforkunni okkar í hagkvæmari og minna mengandi ferla en hún fer í núna“ segir Rafn að lokum.

logo

Þekking á sviði sjálfbærrar nýtingar auðlinda, umhverfis, skipulags og matvælaframleiðslu.

LBHÍ

Hvanneyri - 311 Borgarbyggð
Sími 433-5000
lbhi@lbhi.is
Kt. 411204-3590
Rafrænir reikningar
Image

Starfsstöðvar

Flýtileiðir

Samfélagsmiðlar

Image
Image