Jóhannes Kristjánsson ver meistararitgerð sína í búvísindum, Holdafar íslenskra mjólkurkúa

Jóhannes Kristjánsson ver meistararitgerð sína í búvísindum

Jóhannes Kristjánsson ver meistararitgerð sína í búvísindum: „Holdafar íslenskra mjólkurkúa“ e. Body condition score of Icelandic dairy cows, við deild Ræktunar og fæðu við Landbúnaðarháskóla Íslands. 

 

Leiðbeinendur Jóhannesar eru Dr. Jóhannes Sveinbjörnsson, dósent LbhÍ og Berglind Ósk Óðinsdóttir, fóðurfræðingur MSc.  

Prófdómari er Dr. Bragi Líndal fyrrverandi sérfræðingur í fóðurfræði við Landbúnaðarháskóla Íslands 

 

Meistaravörnin fer fram þriðjudaginn 30. maí 2023 kl. 13:00 í Ársal, 3. hæð, Ásagarði Hvanneyri. Vörninni verður einnig streymt á Teams og er hlekkur hér. Mikilvægt er að vera kominn inn tímanlega og hafa slökkt á hljóðnema.

 

Ágrip  

Geta mjólkurkúa til að safna holdaforða og nýta hann er mikilvægur eiginleiki. Of mikill eða of lítill holdaforði getur hins vegar valdið vandamálum tengdum mjólkurlagni, frjósemi og heilsu. Holdafar kúa er almennt metið með sjónrænni stigun, holdastigun, sem gefur kúm einkunn eftir holdafari frá 1-5. Holdafar íslenskra mjólkurkúa hefur ekki verið rannsakað sérstaklega og almenn úttekt á holdastigum kúa hérlendis hefur ekki verið framkvæmd.

Meginmarkmið þessar rannsóknar var því tvíþætt; annarsvegar að fá yfirlit yfir holdastig gripa í íslenskum mjólkurkúahjörðum og breytingar holdastiga yfir mjaltaskeiðið en hinsvegar að meta hvort yfirfæra megi erlendar ráðleggingar um æskilegt holdafar á íslenskar aðstæður. Gagnasöfnun fór fram á sjö kúabúum þar sem kýr og kvígur voru holdastigaðar með um mánaðar millibili yfir 12 mánaða tímabil. Samhliða var gögnum um afurðir, heilsufar, frjósemi og þyngd safnað. Yfir tímabilið var safnað 7.762 holdastigsmælingum á 906 gripum.

Meðalholdastig íslenskra mjólkurkúa í þessari rannsókn reyndist 3,37. Kýr á 2. mjaltaskeiði reyndust holdrýrari að meðaltali (3,33) en kýr á 1. mjaltaskeiði (3,38) og eldri kýr (3,39). Holdmestar eru kýrnar (3,50) á geldstöðu en lækka hratt í holdum eftir burð. Kýr á 1., 2. og 3+. mjaltaskeiði misstu, í sömu röð, 0,38, 0,45 og 0,61 holdastig eftir burð og náðu lágmarki þremur, fjórum og sex vikum eftir burð. Eftir að lágmarksholdum er náð fer meðalgripurinn að bæta á sig holdum aftur og gerir það nokkuð stöðugt út mjaltaskeiðið. Kýr með holdastig 3,75 eða meira fyrir burð voru með marktækt líklegri til að greinast með sjúkdóma (17%) yfir mjaltaskeiðið en kýr sem holdastiguðust 3,25-3,5 fyrir burð (9%). Jákvæð fylgni var á milli holdataps eftir burð og mjólkurlagni á öllu mjaltaskeiðinu (degi 10- 300 frá burði) og nam 1,4 – 5,0 kg/dag eftir tímabilum á hvert holdastig sem kýr misstu á fyrstu vikum mjaltaskeiðsins. Holdafar fyrir burð hafði eingöngu áhrif á mjólkurlagni á tímabilinu 51- 100 sem nam um 0,9 kg/dag á hvert holdastig fyrir burð.

Niðurstöður þessarar rannsóknar benda til þess að æskilegt holdastig íslenskra mjólkurkúa skuli liggja á bilinu 3,25 -3,5 fyrir burð. Æskilegt holdatap á fyrstu vikunum eftir burð virðist liggja á bilinu 0,5-0,75 holdastig. Kýr sem misstu 1 holdastig eða meira eftir burð sýndu skerta frjósemi, en minna holdatap hafði neikvæð tengsl við mjólkurframleiðslu. 

logo

Þekking á sviði sjálfbærrar nýtingar auðlinda, umhverfis, skipulags og matvælaframleiðslu.

LBHÍ

Hvanneyri - 311 Borgarbyggð
Sími 433-5000
lbhi@lbhi.is
Kt. 411204-3590
Rafrænir reikningar
Image

Starfsstöðvar

Flýtileiðir

Samfélagsmiðlar

Image
Image