Endurmenntun Landbúnaðarháskóla Íslands hefur opnað fyrir skráningu í Keppnisnám Reiðmannsins sem haldið er á fjórum stöðum á landinu á tímabilinu janúar til apríl 2026. Keppnisnám í Reiðmanninum er nám á vegum Endurmenntunar LBHÍ fyrir alla sem vilja öðlast aukna færni í að undirbúa bæði sjálfan sig og hestinn fyrir þátttöku í keppnum. Námið er einstaklingsmiðað og hentar jafnt þeim sem eru að stíga sín fyrstu skref í keppnisreiðmennsku sem og reynslumiklum keppendum sem vilja bæta árangur sinn í keppnum og þjálfa hestinn sinn í keppni.
Markmið námsins er að nemendur öðlist aukna færni í að undibúa og þjálfa sig og hestinn fyrir þátttöku í keppnum, og öðlist færni í markvissri markmiðasetningu við þjálfun keppnishesta með áherslu á þær æfingar sem skipta máli í keppnisþjálfun. Áhersla er lögð á að geta riðið hestinum í réttri líkamsbeitingu með léttleikandi samband til afkasta. Jafnframt er lögð áhersla á líkamsbeitingu, orkustig, söfnun, fjaðurmagn og rými hestsins. Á námskeiðinu öðlast þátttakendur einnig færni í að skynja andlegt jafnvægi, samstarfsvilja og einbeitingu hestsins við mikið þjálfunarálag.
Námið er kennt á fjórum verklegum helgum og fjórum eftirmiðdögum á tímabilinu janúar – apríl. Kennsla fer fram í einstaklings- og paratímum, einkakennslu í reiðhöll og úti á hringvelli eða skeiðbraut. Á eftirmiðdögum er kennt frá ca. kl. 15-20 og á laugardögum og sunnudögum frá ca. kl. 8-18.
Fyrstu helgina í náminu er gerð ítarleg úttekt á knapa og hesti. Eftir fyrstu helgi setur knapinn upp markmið annarinnar fyrir sig og hest sinn í samráði við reiðkennara.
Síðasta helgin í náminu er haldin í glæsilegri hestamiðstöð LbhÍ á Mið-Fossum í Borgarfirði þar sem allir fjórir hóparnir koma saman og keppa á útivelli skólans.
Skráning og nánari upplýsingar á vef Endurmenntunar LbhÍ.





