Kristín Sveiney Baldursdóttir ver meistararitgerð sína í skógfræði

Kristín Sveiney Baldursdóttir ver meistararitgerð sína í skógfræði

Kristín Sveiney Baldursdóttir ver meistararitgerð sína í skógfræði „Ásókn asparglyttu (Phratora vitellinae L.) í mismunandi klóna Alaskaaspar (Populus balsamifera L. ssp. trichocarpa): Skaðsemi, útbreiðsla og lífsferill asparglyttu á Íslandi“ við deild Náttúru & Skóga við Landbúnaðarháskóla Íslands.

Leiðbeinendur Kristínar Sveineyjar eru Dr. Guðmundur Halldórsson, skordýrafræðingur; Dr. Halldór Sverrisson, plöntusjúkdómafræðingur; Dr. Edda Sigurdís Oddsdóttir, sviðsstjóri rannsóknasviðs Skógræktarinnar; Dr. Brynja Hrafnkelsdóttir, doktor í skordýrafræði og sérfræðingur á Rannsóknasviði Skógræktarinnar. Prófdómari er Dr. Gísli Már Gíslason, prófessor emeritus.

Meistaravörnin fer fram 19. maí 2023 kl 11:00 í Sauðafelli 3. hæð, Keldnaholti Reykjavík. Vörninni verður einnig streymt á Teams og er hlekkur hér. Mikilvægt er að vera kominn inn tímanlega og hafa slökk á hljóðnema.

Ágrip

Frá árinu 2005 hefur asparglytta Phratora vitellinae L. (Coleoptera: Chrysomelidae) dreift sér hratt um landið og valdið skaða á bæði aspar- (Populus spp.) og víðitegundum (Salix spp.). Fyrir áframhaldandi ræktun á Alaskaösp (Populus balsamifera L. spp. trichocarpa (Torr. & Gray) Brayshaw) er mikilvægt að afla upplýsinga um þennan skaðvald.

Meginmarkmið verkefnisins var að meta líkur á skemmdum af völdum asparglyttu á mismunandi klónum Alaskaaspar. Einnig að ákvarða útbreiðslu, skaðsemi og fjölda kynslóða asparglyttu á Íslandi. Í áttilraun í rannsóknastofu voru bornir saman tíu klónar af Alaskaösp með tilliti til asparglyttuskemmda. Skemmdir á sömu klónum voru einnig metnar í útitilraun með eins árs gömlum plöntum og í klónatilraunum.

Upplýsingum um útbreiðslu og skaðsemi var safnað með spurningakönnun og vettvangsferð um landið. Árlegur kynslóðafjöldi asparglyttu var ákvarðaður með vöktun á tveimur stöðum. Niðurstöður sýndu marktæk áhrif klóna á skemmdir í áttilraun í rannsóknastofu. Mestar líkur voru á að klónarnir Keisari (61%), S23 (60%) og R2 (57%) væru skemmdir, en minnstar líkur á að klónarnir Hve16 (20%), S19 (21%) og Sv10 (25%) væru skemmdir. Marktækur munur var á milli þessara tveggja hópa.

Niðurstöður úr klónatilraun og útitilraun sýndu einnig marktæk áhrif klóna á skemmdir. Þar voru mestar skemmdir á Keisara og minnstar á Hve16 og Sv10. Niðurstöður fyrir aðra klóna bentu hinsvegar til þess að hýsilval í rannsóknastofu endurspegli ekki fyllilega hýsilval í náttúrunni. Vöktun á lífsferli asparglyttu sýndi að hún kemur upp einni kynslóð á ári hérlendis.

Niðurstöður þessarar rannsóknar veita nýjar upplýsingar sem geta nýst við ræktun Alaskaaspar hér á landi.

logo

Þekking á sviði sjálfbærrar nýtingar auðlinda, umhverfis, skipulags og matvælaframleiðslu.

LBHÍ

Hvanneyri - 311 Borgarbyggð
Sími 433-5000
lbhi@lbhi.is
Kt. 411204-3590
Rafrænir reikningar
Image

Starfsstöðvar

Flýtileiðir

Samfélagsmiðlar

Image
Image