Kynning: Þróun húsnæðis- og skipulagsmála í Reykjavík fyrir og eftir hrun

Fimmtudaginn 2. júní verður kynning á bókarkaflanum Phantom Suburbs out of the Ashes eftir Sigríði Kristjánsdóttur, lektor við Landbúnaðarháskóla Íslands og Jón Rúnar Sveinsson, félagsfræðing við Reykjavíkurakademíuna. Kynningin verður á Keldnaholti í Reykjavík og hefst kl 12.00.  Allir velkomnir.

Kaflinn, Phantom Suburbs out of the Ashes, eftir þau Sigríði og Jón Rúnar, fjallar um þróun húsnæðis- og skipulagsmála í Reykjavík í ljósi efnahagsþróunarinnar á Íslandi fyrir og eftir efnahagshrunið 2008 og gaumgæfir þær áherslur sem verið hafa ríkjandi í húsnæðismálum, þ.e. fyrst og fremst á sjálfseignarstefnu, svo og þær breytingar sem eru á döfinni í bæði húsnæðis- og skipulagsmálum. Fyrsti hluti kaflans er yfirlit þróunar síðustu ára sem, virðist stefna í átt að talsverðum breytingum ríkjandi viðmiðana. Þessu næst er lýst risi og hnigni efnahagsbólunnar hér á landi á sl. áratug sem átti sér bæði erlendar og innlendar orsakir. Þá er farið yfir þróun og þýðingu séreignarstefnunnar á Íslandi og hremmingar hennar á eftirhrunsárunum frá 2008. Loks er í kaflanum að finna ítarlega greiningu á nokkrum svæðisbundum skipulagsverkefnum í Reykjavík og hvernig þeim reiddi af árin eftir efnahagsþrengingarnar.

Kaflinn er í bókinni Ways of Residing in Transformation, Interdisciplinary Perspectives. Útgefandi er Ashgate-bókaforlagið í London.

Bókinni ritstýrðu þau Sten Gromark, Mervi Ilmonen, Katrin Paadam og Eli Støa, sem stafa við háskólastofnanir í Svíþjóð, Finnlandi, Eistlandi og Noregi. Bókin er ávöxtur rannsóknarverkefnisins Visions of Residential Futures: Housing in Transformation VISURF, og er ætlað að veita innsýn í þróun og breytingar á húsnæðis- og skipulagsmálum í Evrópu og víðar. Verkefnið hófst árið 2007 og innan ramma þess hafa verið haldin hátt í tylft funda, málþinga og ráðstefna. Lokahnykkur verkefnisins er útkoma þeirrar bókar, sem hér er kynnt.

Hér má sjá upplýsingar um bókina á ensku.

logo

Þekking á sviði sjálfbærrar nýtingar auðlinda, umhverfis, skipulags og matvælaframleiðslu.

LBHÍ

Hvanneyri - 311 Borgarbyggð
Sími 433-5000
lbhi@lbhi.is
Kt. 411204-3590
Rafrænir reikningar
Image

Starfsstöðvar

Flýtileiðir

Samfélagsmiðlar

Image
Image