Mastersvörn - Svæðanotkun og skyldleiki hrossa í hálfvilltu stóði í Austur Landeyjum 2007-2008

Svæðanotkun og skyldleiki hrossa í hálfvilltu stóði í Austur Landeyjum 2007-2008 er heiti mastersvarnar Helgu Maríu Hafþórsdóttur, sem verður föstudaginn 13. september kl. 13 í Brú, Ásgarði á Hvanneyri.

Háskóli Íslands

Leiðbeinandi er Anna Guðrún Þórhallsdóttir prófessor við LbhÍ og meðleiðbeinandi Hrefna Sigurjónsdóttir prófessor á menntavísindasviði HÍ. Jóhannes Sveinbjörnsson deildarforseti Auðlindadeildar stjórnar fundi.

Ritgerðin
Í ritgerðinni er gerð grein fyrir niðurstöðum rannsóknar á hópaskiptingu í stóði sem fjórir stóðhestar skiptu frjálst á milli sín í 210 ha. girðingu í Austur Landeyjum. Í girðingunni voru, auk stóðhestanna, 68 fullorðnar hryssur og 56 folöld auk 19 tryppa. Hrossin höfðu gengið sjálfala í girðingunni, án mikilla afskipta mannsins í um 30 ár. Árlega var flestum folöldum og tryppum lógað að undanskildum nokkrum merfolöldum og unghryssum til endurnýjunar stofnsins. Af þeim sökum var kynjahlutfallið nokkuð skekkt.

Markmið rannsóknarinnar sem birtast í þessari ritgerð voru að skoða; 1) hópastærð, samsetningu hvers hóps og stöðugleika hópanna á rannsóknartímanum, 2) heimasvæði stóðhestanna og skiptingu lands þeirra á milli, 3) erfðafjölbreytileika meðal og innan hópanna fjögurra og breytingar sem urðu á hópunum með tilliti til skyldleika og 4) áhrif þess að fjarlægja tímabundið einn stóðhestinn á samsetningu hópanna innan stóðsins m.a. með tilliti til ættgleggni.

Vor og sumar 2007 var fylgst með staðsetningu og samsetningu hópanna auk tilraunar með að fjarlægja stóðhest. Sumarið 2008 var samsetning hópanna skráð á ný og sýni tekin til DNA greiningar.

Helstu niðurstöður voru þær að hóparnir voru misstórir og voru stóðhestarnir með 8-23 hryssur hver, auk ókynþroska tryppa af báðum kynjum. Hóparnir voru stöðugir og lítið var um breytingar á milli hópa. Stóðhestarnir höfðu afmörkuð heimasvæði þar sem hver hélt sinn hóp. Ekki var um óðalshegðun að ræða og er það í samræmi við niðurstöður annarra rannsókna á hrossahópum með stóðhestum. Heimasvæðin sköruðust nokkuð, þó hóparnir væru sjaldnast samtímis á sama svæði og hópastærð virtist ekki vera áhrifaþáttur í stærð heimasvæðanna. Aldur stóðhestanna virtist hafa áhrif á stærð hópanna þar sem elstu stóðhestarnir héldu stærri hópana. Erfðafjölbreytileiki hópsins í heild mældist HO 0,72, HE 0,73 sem telst nokkuð hár í lokuðum erfðahópi. Það gæti bent til þess að erfðahópurinn hafi ekki verið jafn lokaður og upplýsingar voru um og flæði erfðaefnis inn í stóðið því meira, eða að stóðhestarnir æxlist ekki tilviljunarkennt. Innan hópanna reyndust 13 fullorðnar hryssur (af 63 sem tekin voru sýni úr) vera dætur stóðhestanna fjögurra og þrjár þeirra voru í hópum feðra sinna og áttu með þeim folöld, en í einum hóp sást stóðhestur reka dóttur sína í burtu. Stóðhesturinn sem var fjarlægður náði að endurheimta flestar hryssurnar sem hann hafði áður, en það tók hann rúmlega ár að ná hópnum saman aftur. Þær hryssur sem fóru til annarra stóðhesta eða voru sóttar af þeim voru ekki skyldari stóðhestinum sem var fjarlægður en þær sem héldu sér áfram innan síns fyrra heimasvæðis.

Niðurstöður rannsóknarinnar sýna að stóðhestar ásamt hryssum geta verið innan sömu girðingar í sátt og samlyndi, þar sem þeir skipta landinu á milli sín, hver með sitt heimasvæði. Forsendur þess að hafa fleiri stóðhesta í stóði innan sömu girðingar eru þó trúlega þær að girðingin sé nægjanlega stór og ekki verði samkeppni um auðlindir, s.s. vatn og beit. Einnig er það trúlega mikilvægt að stóðhestarnir þekkist og hafi reynslu af hvor öðrum. Niðurstöðurnar veita innsýn í frjálsa kynhegðun hrossa og þær benda til þess að stóðhestarnir makist sjaldan við dætur sínar. Niðurstöðurnar benda einnig til að það sé ekki einungis stóðhesturinn sem haldi hópnum saman heldur skipti sterk tengsl milli hryssnanna í hópnum ekki síður máli.

logo

Þekking á sviði sjálfbærrar nýtingar auðlinda, umhverfis, skipulags og matvælaframleiðslu.

LBHÍ

Hvanneyri - 311 Borgarbyggð
Sími 433-5000
lbhi@lbhi.is
Kt. 411204-3590
Rafrænir reikningar
Image

Starfsstöðvar

Flýtileiðir

Samfélagsmiðlar

Image
Image