Lára Ingimundardóttir ver meistararitgerð sína í skipulagsfræði: „Gæði barnvæns umhverfis á þéttingarreitum í Reykjavík - þróun matsramma fyrir barnvænt borgarumhverfi“ við deild Skipulags og hönnunar við Landbúnaðarháskóla Íslands.
Leiðbeinendur Láru eru Dr. Harpa Stefánsdóttir, prófessor í skipulagsfræði við Landbúnaðarháskóla Íslands og Matthildur Kr. Elmarsdóttir skipulagsfræðingur. Prófdómari er Jón Kjartan Ágústsson skipulagsfræðingur.
Meistaravörnin fer fram mánudaginn 26. maí 2025 kl. 13:00 í Sauðafelli, 3. hæð á Keldnaholti í Reykjavík og á Teams og er opin öllum. Hlekkur á vörnina á Teams.
Ágrip
Viðfangsefni þessarar ritgerðar er að meta hversu vel er tekið tillit til þarfa barna í skipulagi nýrra þéttingarreita í Reykjavík. Börn eru einn viðkvæmasti hópur borgarbúa og geta skipulag og hönnun byggðar haft veruleg áhrif á velferð þeirra, þroska og daglegt líf. Ekki hefur áður verið lagt formlegt mat á hvernig til hefur tekist við að gera umhverfi barna á nýjum þéttingarreitum í Reykjavík barnvænt. Verkefnið er liður í aukinni umræðu um barnvæna borgarhönnun og hvernig tryggja megi að borgarumhverfi styðji við þroska, öryggi og vellíðan barna.
Verkefnið er tilviksrannsókn þar sem eigindlegum aðferðum var beitt til að afla fræðilegra gagna sem eru grunnurinn að matsramma þeim sem þróaður var út frá því hvernig hið byggða umhverfi er hannað og útfært. Honum var svo og beitt á vettvangi. Tveir nýlegir þéttingarreitir, Hlíðarendi og Vogabyggð, voru greindir með hliðsjón af fjórum grunnþáttum barnvæns umhverfis: (1) umferð og öryggi, (2) grænum svæðum, (3) leiksvæðum og (4) möguleikum til athafna, hvötum til athafna og vegalengdum. Tilgangurinn var að meta hversu barnvænt umhverfi reitanna er.
Niðurstöður benda til þess að barnvæn sjónarmið séu ekki nægilega samþætt skipulagsgerð í þéttingarverkefnum borgarinnar. Þrátt fyrir að ákveðnir þættir séu til staðar á báðum reitunum skortir í ákveðnum atriðum þau umhverfisgæði sem talin eru nauðsynleg til að svæðin teljist sannarlega barnvæn. Með ritgerðinni er lagt fram verkfæri sem stuðlar að markvissu mati á barnvænni byggð og varpar ljósi á mikilvægi þess að forgangsraða hagsmunum barna í mótun borgarumhverfis.