Meistaravörn í Skipulagsfræði - Þóra Margrét Júlíusdóttir

Hvernig gætu grænir innviðir í deiliskipulagi Nýja Landspítala stuðlað að innleiðingu náttúrumeðferðar sem meðferðarúrræðis á Íslandi til að bæta heilsu og vellíðan sjúklinga?

Meistaravörnin fer fram mánudaginn 16. desember 2025 kl. 15:10 í Geitaskarði, Keldnaholti, Árleyni 22 112 Reykjavík og á Teams. Hér má nálgast hlekk á vörnina. Vörnin er öllum opin.

Leiðbeinendur:

Jakob Líndal dr. í umhverfissálfræði og Astrid Lelarge dr. í sagnfræði

Prófdómari

Prófdómari: Sigrún Birna Sigurðardóttir, skólasálfræðingur hjá Reykjanesbæ

Ágrip

Markmið þessarar rannsóknar er að kanna hvernig markviss notkun grænna innviða (GI) í deiliskipulagi Nýja Landspítala við Hringbraut geti stuðlað að innleiðingu náttúrumeðferðar (NM) sem viðurkennds meðferðarúrræðis innan íslenska heilbrigðiskerfisins og þannig bætt heilsu og vellíðan sjúklinga. Rannsóknin er samanburðar tilviksrannsókn og byggir á fræðilegri yfirsýn yfir sögu, kenningar og mismunandi gerðir NM, tengsl hennar við GI, hlutverk skipulagsfræðinnar í lýðheilsu og stefnur stjórnvalda. Meðferðargarðurinn í Alnarp, Malmö (Svíþjóð) er skoðaður sem fyrirmynd af garði sem nýtir GI fyrir NM. Greind eru tvö norræn deiliskipulög sjúkrahúsa til samanburðar við Nýjan Landspítala um GI og möguleika til innleiðingar NM: Sahlgrenska sjúkrahúsið í Gautaborg (Svíþjóð) og Hvidovre sjúkrahúsið í Kaupmannahöfn (Danmörku).

Deiliskipulagssvæði Landspítalans er greint út frá gildandi skilmálum, byggingaáformum og þeim breytingum sem gerðar hafa verið á skipulaginu og borið saman við norrænu dæmin. Niðurstaða greiningarinnar er að núverandi áhersla á GI sé takmörkuð og styðji aðeins í litlum mæli við markvissa NM. Græn svæði eru að mestu skilgreind sem leik-, útivistar- eða upplifunarsvæði en ekki sem virkir meðferðarinnviðir.

Tillögurnar fela í sér aðgerðir til að tengja GI svæðis sterkar við klíníska starfsemi spítalans:

  • Aðgengilegir meðferðargarðar með ólíkum eiginleikum fyrir mismunandi sjúklingahópa.
  • Vel tengdar gönguleiðir um GI og að nálægum grænum almenningssvæðum sem henta breiðum hópi einstaklinga.

Niðurstaðan er að með markvissu og þverfaglegu skipulagi geti GI Landspítalans orðið mikilvægur þáttur í að innleiða NM á Íslandi, stuðlað að jöfnuði í heilsu og dregið úr álagi á hefðbundna sjúkrahúsþjónustu. Til að það takist þarf aukið samstarf milli skipulagsyfirvalda, heilbrigðiskerfisins, stofnanna og annarra hagaðila.

Lykilorð: náttúrumeðferð, grænir innviðir, deiliskipulag, Landspítali, meðferðargarðar, lýðheilsa, heilsujöfnuður, norræn dæmi, heilsuefling, skipulagsfræði

logo

Þekking á sviði sjálfbærrar nýtingar auðlinda, umhverfis, skipulags og matvælaframleiðslu.

LBHÍ

Hvanneyri - 311 Borgarbyggð
Sími 433-5000
lbhi@lbhi.is
Kt. 411204-3590
Rafrænir reikningar
Image

Starfsstöðvar

Flýtileiðir

Samfélagsmiðlar

Image
Image