Meistaravörn: Sindri Birgisson og Sjöfn Ýr Hjartardóttir

Miðvikudaginn 3. júní nk. ver Sindri Birgisson meistararitgerð sína, Úr sementstétt í skapandi stétt - Akranes á tímum sköpunar, við umhverfisdeild LbhÍ. Leiðbeinendur eru Gauti Sigþórsson og Erla Margrét Gunnarsdóttir. Prófdómari er Axel Benediktsson, skipulagsfræðingur og forstöðumaður Sesseljuhúss á Sólheimum. Athöfnin fer fram í Sauðafelli á Keldnaholti (3. hæð) og hefst kl 16.00. Allir velkomnir.

Um verkefni Sindra:

Breyttir tímar kalla á breyttar áherslur og breyttar aðgerðir. Með auknu vægi skapandi starfsemi í nútíma hagkerfi er litið til vaxtarmöguleika Akraness, sem stendur frammi fyrir þéttbýlisendurnýjun með endurbótum á gömlu stóru iðnaðarsvæði í hjarta bæjarins. Framundan eru spennandi tímar hjá iðnaðarbænum Akranesi, sem liggur í útjaðri stórhöfuðborgarsvæðisins og hefur gengið í gegnum nokkrar sviptingar í atvinnulífinu. Hverjir eru möguleikar Akraness á tímum sköpunar?

Velt er upp framtíðarmöguleikum Akraness í von um að efla bjartsýni og styrkja sjálfsmynd íbúa, og þar með framgangi atvinnu- og menningarlífs og samfélagsins í heild. Vonast er til að verkefnið hafi breiðari skírskotun til annarra sveitarfélaga, geti gefið þeim innblástur og veitt breiðari sýn og styrkt heildræna nálgun til skipulagsvinnu.

Með því að sameina eigindlegar og megindlegar aðferðir við skipulagsfræði, félags- og efnahagsmál og skoða samband skapandi starfsemi, staðsetningar og vaxtarmöguleika, þá er niðurstaða rannsóknarinnar að skapandi starfsemi þrífst á Akranesi, en betur má ef duga skal. Hægt er að auka vaxtarmöguleika Akraness með því byggja upp innviði sem styðja við skapandi starfsemi og skapa félagslegar og efnahagslegar aðstæður fyrir skapandi fólk til að starfa í. Mikil sóknarfæri felast í nálægðinni við Reykjavík og góðu framboði af húsnæði á Akranesi, sem er ódýrara en á höfuðborgarsvæðinu. Endurbætur á gömlu iðnaðarsvæði geta gegnt veigamiklu hlutverki í þéttbýlisendurnýjun Akraness. Þar mætti veita skapandi starfsemi aðstöðu og skapa fjölbreytt og lifandi athafnasvæði með góðum tengingum við nærumhverfið.

 

Háskóli Íslands

Á undan Birgi ver Sjöfn Ýr Hjartardóttir meistararitgerð sína, Þróun skipulags á Heimaey – Forvarnir og eldfjallavá, við umhverfisdeild LbhÍ. Leiðbeinendur eru Sigríður Kristjánsdóttir og Páll Zóphóníasson. Prófdómari er Bjarki Jóhannesson. Athöfnin fer fram í Sauðafelli á Keldnaholti (3. hæð) og hefst kl 15.00.

Um verkefni Sjafnar:  

Skipulag og náttúruvá er spennandi viðfangsefni fyrir þær sakir að ákvarðanir í skipulagsmálum á svæðum nálægt náttúruvá varða öryggi fólks. Í verkefninu er fjallað um þróun skipulags á Heimaey í Vestmannaeyjum. Byggð hefur verið á Heimaey síðan seint á landnámsöld en eftir eldgosið sem varð árið 1973 átti sér stað hröð uppbygging og sterk krafa varð um nýtt skipulag. Áhugavert er að skoða hvaða áhrif gosið hafði á skipulag og byggðarþróun á Heimaey og hvernig sveitarfélagið tekst á við hin eilífu átök mannsins við náttúruöflin. Athugað er hvort tillit sé tekið til eldfjallsins í skipulaginu og samspil byggðar og eldfjalls kannað. Þá er einnig skoðað hverskonar áhrif hröð uppbygging eftir gos hafði á byggðarmynstrið. Eitt af markmiðum verkefnisins er að komast að því hvernig gosið hafði áhrif á byggðarmynstur á eyjunni. Kenningar í borgarformfræði eru skoðaðar og heimfærðar á Heimaey. Loks er fjallað um hvernig styrkja má byggðina í Eyjum hvað varðar eldfjallið, með tilliti til forvarna. Það er áhugavert að skoða hvernig hættumati í tengslum við skipulag og náttúruhamfarir er háttað hjá sveitarfélaginu sem og hvernig stefna Almannavarna er fyrir Vestmannaeyjar. Með sérstöðu Vestmannaeyja í huga sem og forvarnir gegn náttúruvá í nálægð við byggð er í kjölfarið athyglisvert að skoða hvernig æskilegt er að framtíðarbyggðarþróun verði.

 

logo

Þekking á sviði sjálfbærrar nýtingar auðlinda, umhverfis, skipulags og matvælaframleiðslu.

LBHÍ

Hvanneyri - 311 Borgarbyggð
Sími 433-5000
lbhi@lbhi.is
Kt. 411204-3590
Rafrænir reikningar
Image

Starfsstöðvar

Flýtileiðir

Samfélagsmiðlar

Image
Image