Náttúrumeðferðir við Nýjan Landspítala: Grænir innviðir sem lykill að betri heilsu sjúklinga

Í nýrri meistararitgerð í skipulagsfræði við Landbúnaðarháskóla Íslands (LbhÍ) kemur fram að með markvissu skipulagi grænna innviða við Nýja Landspítalann er hægt að innleiða náttúrumeðferðir sem styðja við bata sjúklinga og bæta vellíðan. Þóra Margrét Júlíusdóttir, höfundur ritgerðarinnar, leggur fram tillögur að fjórum sérhönnuðum meðferðargörðum á lóð spítalans, sem gætu dregið úr streitu, minnkað lyfjanotkun og stytt legutíma. Þetta gæti orðið fyrirmynd fyrir heilsueflandi umhverfi á Íslandi, þar sem engir opinberir náttúrumeðferðargarðar eru enn til staðar þrátt fyrir vaxandi þörf.

Viðfangsefni ritgerðarinnar er sérstaklega mikilvægt fyrir skipulagsmál á Íslandi vegna þess að það tengir náttúrumeðferðir við græna innviði í þéttbýli, þar sem um 80% Íslendinga búa nú þegar. Í borgum eins og Reykjavík eykst skortur á grænum svæðum sem leiðir til "náttúruleysis" (e. nature deficit disorder) hjá kynslóðum sem þekkja aðeins byggt umhverfi og veldur aukinni vanlíðan, þunglyndi og kvíða. Með því að innleiða græna innviði í skipulag sjúkrahúsa getum við spornað við heilsuójöfnuði og stutt við stefnur stjórnvalda um heilsueflandi hverfi, sem tiltaka að græn svæði ættu að vera innan 300 metra frá heimili.

Markmið verkefnisins var að kanna hvernig grænir innviðir í deiliskipulagi Nýja Landspítalans gætu stuðlað að innleiðingu náttúrumeðferða til að bæta heilsu og vellíðan sjúklinga. Til að svara þessu var gerð eigindleg samanburðarrannsókn, skoðaðar voru fræðilegar heimildir um náttúrumeðferðir og græna innviði, greint fyrirmyndardæmi um meðferðargarðarð í Alnarp í Svíþjóð, og borin saman deiliskipulag Nýja Landspítalans við tvö deiliskipulög norrænna sjúkrahúsa í Sahlgrenska í Gautaborg, Svíþjóð annars vegar og Hvidovre í Kaupmannahöfn, Danmörk hins vegar. Auk þess var farið í vettvangsferð á svæði Landspítalans til að meta núverandi græn svæði og tengingar við nærliggjandi græn almenningssvæði.

Rannsóknin leiddi í ljós að náttúrumeðferðir, eins og garðyrkja, skógarböð og núvitund í grænum umhverfi, styrkja ónæmiskerfið, draga úr streitu og styðja við bata sjúklinga, samkvæmt fjölmörgum rannsóknum. Á Íslandi eru engir opinberir meðferðargarðar enn, þrátt fyrir að heilsuójöfnuður aukist og geðheilbrigðisvandamál séu vaxandi, og sem gætu minnkað álag á heilbrigðiskerfinu með minni kostnaði. Niðurstöðurnar eru byggðar á tilviksrannsókn, sem er ekki alhæfanleg á öll sjúkrahús, en þær benda til þess að með breytingum á skipulagi gæti Nýi Landspítalinn orðið fyrirmynd annarra sjúkrahúsa.

Niðurstaðan hefur mikla þýðingu fyrir skipulagsmál við Nýja Landspítalann og á Íslandi almennt, þar sem hún mælir með því að breyta núverandi grænum svæðum í virka meðferðarinnviði, eins og að bæta við gróðurskálum, gönguleiðum og rólegum görðum til að tengja þau við klíníska starfsemi. Í umræðu ritgerðarinnar er bent á að síðari breytingar á deiliskipulaginu hafa minnkað græn svæði og aukið bílamiðaða hönnun, sem gengur gegn upprunalegum markmiðum um vistvænt umhverfi og því ættu skipulagsaðilar að forgangsraða náttúrutengingum til að styðja við lýðheilsustefnu stjórnvalda. Á vörn verkefnis kom fram umræða um samstarf við aðra aðila eins og skógræktarfélög í forvörnum með skógarböð sem gæti styrkt innleiðingu náttúrumeðferða og minnkað einangrun viðkvæmra hópa og einnig hve mikilvægt samstarf heilbrigðis- og skipulagsyfirvalda er til að sporna við þeirri þróun sem blasir við okkur ásamt ákveðnu skilningsleysi á mikilvægi grænna innviða.

Þessi rannsókn er mastersritgerð unnin við námsbraut í skipulagsfræði við LbhÍ, undir leiðsögn Páls Líndals, doktors í umhverfissálfræði, og Astrid Lelarge, doktors í sagnfræði. Hún byggir á kenningum eins og streitulækkun, endurheimt athyglinnar og lífsálfélagslegri seiglu, sem undirstrika hvernig náttúran róar heilastarfsemi, dregur úr andlegri þreytu og eflir seiglu fólks. Í Alnarp er garðinum skipt í náttúrulegan hluta fyrir ró og formlegan fyrir garðyrkju, og slíkt líkan gæti hentað við Landspítalann, þar sem vettvangsferðin sýndi möguleika á svæðum eins og leiksvæðum við geðdeildina og bílastæðum sem hægt væri að umbreyta í grænt almenningssvæði. Dæmin frá Sahlgrenska og Hvidovre sýndu hvernig góðar tengingar við nærliggjandi náttúrusvæði og nýting innigarða sem meðferðarinnviðir styðja við fjölbreytt form náttúrumeðferða fyrir sjúklinga, aðstandendur og starfsmenn en einnig þjóna almenningi vel sem grænt almenningssvæði.

Með tillögum að fjórum görðum – einum fyrir skynörvun barna, öðrum fyrir garðyrkju, þriðja fyrir ró með bláum innviðum og fjórða fyrir félagslega samveru – gæti spítalinn bætt vellíðan ekki bara sjúklinga heldur líka aðstandenda og starfsfólks. Þetta samræmist heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna um sjálfbærni og heilbrigði og gæti dregið úr kostnaði heilbrigðiskerfisins með styttri legutíma og minni lyfjanotkun, eins og rannsóknir Ulrichs frá 1984 sýna. Í lokaorðum ritgerðarinnar er áréttað að skipulagsfræðingar þurfi að spyrja: "Fyrir hverja er ég að skipuleggja?" – og svarið ætti að vera fyrir viðkvæmustu hópa samfélagsins, þar sem maðurinn er hluti af náttúrunni og þarf hana til að þrífast.

Með innleiðingu slíkra breytinga gæti Nýi Landspítalinn orðið brautryðjandi í náttúrutengdri heilsueflingu á Íslandi og rannsóknin hvetur yfirvöld til aðgerða til að tengja græn svæði betur innbyrðist og við nærliggjandi náttúru eða almenningssvæði eins og Öskjuhlíðina, Tjarnarsvæðið og Klambratún. Þetta er ekki bara skipulagsmál heldur lýðheilsumál sem snertir okkur öll í þéttbýlinu.

logo

Þekking á sviði sjálfbærrar nýtingar auðlinda, umhverfis, skipulags og matvælaframleiðslu.

LBHÍ

Hvanneyri - 311 Borgarbyggð
Sími 433-5000
lbhi@lbhi.is
Kt. 411204-3590
Rafrænir reikningar
Image

Starfsstöðvar

Flýtileiðir

Samfélagsmiðlar

Image
Image