NordForsk hópurinn LostToClimate heimsótti Hvanneyri

Í október fengum við heimsókn á Hvanneyri frá alþjóðlegum rannsóknarhópi sem styrktur er af NordForsk sjóðnum og samanstendur bæði af vísindamönnum og fulltrúum frumbyggjaþjóða frá Bandaríkjunum, Kanada, Noregi, Finnlandi, Færeyjum, Íslandi, Svíþjóð, Danmörku og Grænlandi.

Hópurinn vinnur saman í rannsóknarverkefninu „LostToClimate“, (Addressing Unavoidable Non-Economic Losses to Climate-Induced Events for Communities in the Arctic), sem er til fjögurra ára og lýkur árið 2029. Í verkefninu verða rannsökuð óhjákvæmileg tjón, önnur en efnahagsleg, sem samfélög á Norðurslóðum verða fyrir vegna loftslagsbreytinga. Þetta samstarfsverkefni sameinar vísindamenn og samfélög á Norðurslóðum til að skapa nýja þekkingu sem getur stutt við aðlögun í framtíðinni. Á Norðurslóðum er ein hraðasta hlýnun á jörðinni, sem veldur meðal annars eyðingu á strandsvæðum, bráðnun sífrera, gróðureldum og minnkandi hafís. Þrátt fyrir aðlögunaraðgerðir grafa þessar breytingar undan velferð samfélaga á Norðurslóðum, bæði efnahagslega (t.d. með því að skemma innviði) og á annan máta sem erfitt er að meta í krónum talið (t.d. með því að valda tjóni á menningararfi og hafa áhrif á andlega heilsu).

LostToClimate verkefnið mun nýta fjölbreyttar rannsóknaraðferðir til að virkja samfélög í uppbyggilegu samtali um þær breytingar sem íbúar verða fyrir vegna loftslagsbreytinga. Verkefnið mun einblína á fjórar meginspurningar: að greina hvaða tegundir tjóns samfélög á Norðurslóðum standa frammi fyrir, kanna hvernig þessi samfélög takast á við slíkt tjón í gegnum aðlögun, hvernig hægt er að setja fram þau sönnunargögn sem nauðsynleg eru til að móta réttlát viðbrögð við tjóni og skaða sem eru ekki efnahagslegs eðlis, og meta hvaða aðgerðir samfélög á Norðurslóðum kjósa til að draga úr áhrifum loftslagsbreytinga.

Dr. Matthias Kokorsch, sérfræðingur í rannsóknum við Háskólasetur Vestfjarða, og Jóhanna Gísladóttir, lektor við LbhÍ, taka þátt í rannsókninni og munu þar beina sjónum að því hvernig loftlagsbreytingar geta falið í sér áskoranir fyrir bændasamfélög á Íslandi í framtíðinni. Hópurinn fundaði á Hvanneyri, heimsótti Landbúnaðarsafnið og fékk þar leiðsögn frá Ragnhildi Helgu Jónsdóttur, safnstjóra og aðjúnkts við LbhÍ. Einnig hitti hópurinn Unnstein Snorra Snorrason, aðjúnkt við LbhÍ, og fékk að heimsækja sauðfjárbú hans. Í heimsókninni fékk hópurinn því innsýn inn í sögu íslensks landbúnaðar og helstu áskoranir sem bændasamfélög á Íslandi standa frammi fyrir í dag.

logo

Þekking á sviði sjálfbærrar nýtingar auðlinda, umhverfis, skipulags og matvælaframleiðslu.

LBHÍ

Hvanneyri - 311 Borgarbyggð
Sími 433-5000
lbhi@lbhi.is
Kt. 411204-3590
Rafrænir reikningar
Image

Starfsstöðvar

Flýtileiðir

Samfélagsmiðlar

Image
Image