Nýr bókarkafli: Þróun húsnæðis- og skipulagsmála í Reykjavík fyrir og eftir hrun

Á dögunum kom út bókarkaflinn Phantom Suburbs out of the Ashes eftir Sigríði Kristjánsdóttur, lektor við Landbúnaðarháskóla Íslands og Jón Rúnar Sveinsson, félagsfræðing við Reykjavíkurakademíuna. Kaflinn er í bókinni Ways of Residing in Transformation, Interdisciplinary Perspectives. Útgefandi er Ashgate-bókaforlagið í London.
Bókinni ritstýrðu þau Sten Gromark, Mervi Ilmonen, Katrin Paadam og Eli Støa, sem stafa við háskólastofnanir í Svíþjóð, Finnlandi, Eistlandi og Noregi. Bókin er ávöxtur rannsóknarverkefnisins Visions of Residential Futures: Housing in Transformation  VISURF, og er ætlað að veita innsýn í þróun og breytingar á húsnæðis- og skipulagsmálum í Evrópu og víðar. Verkefnið hófst árið 2007 og innan ramma þess hafa verið haldin hátt í tylft funda, málþinga og ráðstefna. Lokahnykkur verkefnisins er útkoma þeirrar bókar, sem hér er kynnt.

Í kynningartexta á bakhlið bókarinnar segir svo, í íslenskri þýðingu:
Djúpstæðar umbreytingar á búsetuvenjum í borgum eiga sér nú stað, jafnt í Evrópu sem annars staðar í heiminum. Þessara breytingar birtast í vaxandi fjölbreytileika í arkitektúr íbúðarhúsnæðis og endurskiplagningu borgarrýmisins víða um heim. Flækjustig nútímaborga og breytingar á samfélagsgerð krefst nýrra rannsóknaraðferða, svo unnt sé að skilja til hlítar þá endurmótun sem er að verða á lífsstíl almennings og búsetuóskum, svo og getu fólks og  framtíðartækifærum þess til þess að viðhalda traustum og lífsseigum búsetuháttum.

Í bókinni er greint frá fjölmörgum rannsóknarverkefnum frá Evrópulöndum og annars staðar að úr heiminum, sem lýsa bæði breyttum búsetuháttum og breytingum á þýðingu og mikilvægi hins félagslega, efnahagslega, pólitíska, menningarlega og táknræna samhengis. Einnig er í bókinni dregið saman þverfaglegt úrval af ólíkum sjónarmiðum, í því skyni að endurspegla annars vegar dýnamískt samspil búsetuvenja í sífelldri framþróun og hins vegar þróun starfshátta á sviði arkitektúrs og hönnunar, áætlanagerðar, stefnumótunar og málefna fasteignamarkaðar. Á þennan hátt veitir bókin öflugan grundvöll fyrir frekari athuganir, sem leitt geta til aukins skilnings á þeim síbreytilegu búsetuháttum sem eru fylgifiskur breytilegrar menningar.

Bókin veitir þannig glögga innsýn í efnisþætti, sem eru áhugaverðir fyrir jafnt háskólasamfélagið og stefnumótendur og sérfræðinga í skipulagsmálum, sem og fyrir nemendur í borgarfræðum, félagsfræði, arkitektúr, húsnæðisrannsóknum, skipulags-fræðum, viðskiptafræði, hagfræði og verkfræði.

Íslenski kaflinn, Phantom Suburbs out of the Ashes, eftir þau Sigríði og Jón Rúnar, fjallar um þróun húsnæðis- og skipulagsmála í Reykjavík í ljósi efnahagsþróunarinnar á Íslandi fyrir og eftir efnahagshrunið 2008 og gaumgæfir þær áherslur sem verið hafa ríkjandi í húsnæðismálum, þ.e. fyrst og fremst á sjálfseignarstefnu, svo og þær breytingar sem eru á döfinni í bæði húsnæðis- og skipulagsmálum. Fyrsti hluti kaflans er yfirlit þróunar síðustu ára sem, virðist stefna í átt að talsverðum breytingum ríkjandi viðmiðana. Þessu næst er lýst risi og hnigni efnahagsbólunnar hér á landi á sl. áratug sem átti sér bæði erlendar og innlendar orsakir. Þá er farið yfir þróun og þýðingu séreignarstefnunnar á Íslandi og hremmingar hennar á eftirhrunsárunum frá 2008. Loks er í kaflanum að finna ítarlega greiningu á nokkrum svæðisbundum skipulagsverkefnum í Reykjavík og hvernig þeim reiddi af árin eftir efnahagsþrengingarnar.

 Hér má sjá upplýsingar um bókina á ensku

 

logo

Þekking á sviði sjálfbærrar nýtingar auðlinda, umhverfis, skipulags og matvælaframleiðslu.

LBHÍ

Hvanneyri - 311 Borgarbyggð
Sími 433-5000
lbhi@lbhi.is
Kt. 411204-3590
Rafrænir reikningar
Image

Starfsstöðvar

Flýtileiðir

Samfélagsmiðlar

Image
Image