Nýtt nám í keppnisreiðmennsku á þremur stöðum á landinu

Keppnisnám í Reiðmanninum er nýtt nám á vegum Endurmenntunar LBHÍ fyrir alla sem vilja öðlast aukna færni í að undirbúa bæði sjálfan sig og hestinn fyrir þátttöku í keppnum.

Námið er einstaklingsmiðað og hentar jafnt þeim sem eru að stíga sín fyrstu spor í keppnisreiðmennsku sem og reynslumiklum keppendum sem vilja bæta árangur sinn í keppnum og þjálfa hestinn sinn í keppni. Námið er opið öllum sem náð hafa 18 ára aldri og með reynslu af hestamennsku. Ekki er skilyrði að hafa farið í gegnum annað nám í Reiðmanninum. 

Markmið námsins er að þátttakendur öðlist aukna færni í að undirbúa og þjálfa bæði sjálfan sig og hestinn fyrir þátttöku í keppnum og sýningum, sem og að öðlast færni í markvissri  markmiðasetningu við þjálfun keppnishesta með áherslu á þær æfingar sem hafa hvað mest nytsamlegt gildi fyrir keppnisþjálfun.

Áhersla er lögð á að geta riðið hestinum í réttri líkamsbeitingu með léttleikandi samband til afkasta. Jafnframt er lögð áhersla á líkamsbeitingu, orkustig, söfnun, fjaðurmagn og rými hestsins. Á námskeiðinu öðlast þátttakendur einnig færni í að skynja andlegt jafnvægi, samstarfsvilja og einbeitingu
hestsins við mikið þjálfunarálag. Kennsla miðuð út frá markmiðum og getu hvers og eins.

Námið er metið til 6 framhaldsskólaeininga (fein) og kennt á þremur stöðum á landinu: Í reiðhöll LBHÍ á Mið-Fossum í Borgarfirði, Í reiðhöll Sleipnis á Selfossi og hjá hestamannafélaginu Létti á Akureyri. Opnað er fyrir skráningar 1. nóvember og hægt að skrá sig til 5. janúar 2024. 

Allar nánari upplýsingar á vef Endurmenntunar: https://endurmenntun.lbhi.is/keppnisnam/

 

logo

Þekking á sviði sjálfbærrar nýtingar auðlinda, umhverfis, skipulags og matvælaframleiðslu.

LBHÍ

Hvanneyri - 311 Borgarbyggð
Sími 433-5000
lbhi@lbhi.is
Kt. 411204-3590
Rafrænir reikningar
Image

Starfsstöðvar

Flýtileiðir

Samfélagsmiðlar

Image
Image