Þann 15. október var haldin kynningarfundur í höfuðborg Belgíu, Brussel, þar sem öll verkefni sem hlutu styrk úr LIFE áætluninni á árinu komu saman, en LIFE er samkeppnissjóður sem fjármagnar verkefni á sviði loftslags- og umhverfismála. Í ár bárumst yfir 130 umsóknir í undirflokk sjóðsins sem snýr að náttúru og lífbreytileika, og um 40 verkefni hlutu brautargengi. Markmiðið með undirflokki LIFE um náttúru og lífbreytileika er annars vegar að stuðla að vernd og endurheimt evrópskrar náttúru og hins vegar að vinna gegn og snúa við hnignun líffræðilegrar fjölbreytni. Peatland LIFEline.is er fyrsta íslenska verkefnið til þess að hljóta styrk úr þeim undirflokk. Markmið þess er að auka þekkingu og skilning á votlendi á láglendi á Íslandi, vistfræði þess, líffræðilegri fjölbreytni og búskap gróðurhúsalofttegunda. Áhersla er lögð á vistgerðina starungsmýrarvist sem hefur mjög hátt verndargildi og á þrjár fuglategundir sem eru tákn um heilbrigt votlendi en það eru tegundirnar jaðrakan, stelkur og lóuþræll.
Þær Jóhanna Gísladóttir, lektor við LbhÍ, sem og Kristín Theodóra Ragnarsdóttir, rekstrarstjóri LbhÍ, voru fulltrúar háskólans á fundinum. Þar kynntu starfsmenn Evrópusambandsins sig fyrir styrkþegum og veittu mikilvægar upplýsingar fyrir verkefni sem hefjast eða hafa nú þegar hafist á árinu. Þá héldu fulltrúar allra LIFE verkefnanna stutta kynningu fyrir þátttakendur til þess að veita innsýn inn í helstu verkþætti, markmið og áskoranirnar fram undan.
Þar sem Peatland LIFEline.is verkefnið er fyrsta íslenska verkefnið til þess að hljóta styrk úr náttúru- og lífbreytileika undirflokk LIFE áætlunarinnar var mikill áhugi á því meðal þátttakenda. Margir nálguðust íslensku fulltrúana um samstarfsmöguleika í framhaldi kynningarinnar. Ljóst er að þátttaka í verkefni sem styrkt er af LIFE opnar á margar dyr og tækifæri til þess að efla samstarf og samtal við evrópska vísindamenn á sviði náttúru- og lífvísinda.