Skordýr sem fóður og fæða nýsköpunarkeppni á sviði lífvísinda

Ísland tekur þátt í nýsköpunarkeppni á sviði lífvísinda í fyrsta sinn

Þann 8. september síðastliðinn var hin árlega BISC-E samkeppni háskólanemenda á sviði lífvísinda haldin. BISC-E stendur fyrir Bio-Based Innovation Student Challenge Europe og er nýsköpunarkeppni fyrir háskólanemendur sem eru að vinna með líffræðitengdar lausnir. 

Þetta árið sendu 15 lönd nemendur til keppninnar og þar keppti Ísland í fyrsta sinn. Önnur lönd sem tóku þátt voru Írland, Frakkland, Þýskaland, Króatía, Tékkland, Grikkland, Belgía, Litháen, Ítalía, Lettland, Búlgaría, Slóvenía, Portúgal og Pólland. Fyrst fóru fram keppnir innanlands milli nemendahópa, þar sem eitt lið frá hverju landi komst áfram í evrópsku samkeppnina.

 

Skordýr sem fóður og fæði 

 

Að þessu sinni vann Rúna Þrastardóttir doktorsnemi í skordýrarækt við Landbúnaðarháskóla Íslands íslensku keppnina ásamt liðsfélögum sínum Siv Lene Gangenes Skar doktorsnema í ylrækt við Landbúnaðarháskóla Íslands og Karli Ólafssyni BSc nema í verkfræði við Háskóla Íslands með verkefnið skordýr sem fóður og fæði. Verkefnið snýst um að framleiða mjölorma og svartar hermannaflugulirfur með notkun á grænni orku og mismunandi fóðri þar á meðal brauðafgöngum sem falla til í bakaríum, bjórhrati og lúpínufræjum og nýta skordýrin sem fóðurhráefni fyrir dýr.

Markmið verkefnisins er að stuðla að minni matarsóun og þar með minni útblæstri gróðurhúsalofttegunda hefta útbreiðslu Alaska lúpínu á Íslandi og þar með auka líffjölbreytni, og enn fremur auka matvælaöryggi í Evrópu.

Þeir nemendur sem komust áfram frá hverju landi var boðið að taka þátt í námskeiði þar sem farið var yfir það hvernig maður á að kynna nýsköpun sína fyrir fjárfestum, hvernig á að vekja áhuga fjárfesta og hvernig á að sannfæra fjárfesta um að fjárfesta í þinni nýsköpun.

Fyrsti hluti aðalkeppninnar fór fram  á Teams þar sem hvert lið fékk að kynna nýsköpun sína og svara spurningum dómnefndar. Allir fengu að fylgjast með öllum þannig að ferlið var afar lærdómsríkt. Dómnefndin dæmdi verkefnin út frá tæknilegri hagkvæmni, hvort að lausnin sé raunhæf og heildarmats á verkefninu.

Dómnefndin valdi 5 lið til þess að halda áfram keppninni þann 28. september. Því miður komst Ísland ekki áfram í 5-liða úrslitin að þessu sinni en þau lið sem komust áfram voru frá Frakklandi, Póllandi, Ítalíu, Belgíu og Litháen. Þrjú efstu liðin vinna peningaverðlaun, 5.000, 2.500 og 1.000 evrur og ýmis hlunnindi BISC-E. Þau fá einnig að kynna verkefnin sín í Brussel þann 5. október á alþjóðlega BISC-E viðburðinum sem haldin verður í 10. skipti á þessu ári.

Rúna og lið hennar var ánægð með þátttökuna og reynsluna sem fékkst í BISC-E og hvetur háskólanemendur til þátttöku í BISC-E 2024 en opið er fyrir skráningar liða til loka október 2023. Allar nánari upplýsingar má finna á vefsíðunni www.bisc-e.eu.

---

Opnað hefur verið fyrir skráningar í evrópsku nýsköpunarsamkeppnina BISC-E 2024

logo

Þekking á sviði sjálfbærrar nýtingar auðlinda, umhverfis, skipulags og matvælaframleiðslu.

LBHÍ

Hvanneyri - 311 Borgarbyggð
Sími 433-5000
lbhi@lbhi.is
Kt. 411204-3590
Rafrænir reikningar
Image

Starfsstöðvar

Flýtileiðir

Samfélagsmiðlar

Image
Image