Tvö ný rit LbhÍ um sauðfjárrækt

Komin eru út tvö rit Landbúnaðarháskóla Íslands um sauðfjárrækt sem bæði eru afrakstur verkefnisins Ræktun fyrir hæfilegri fitu á lambakjöti sem var styrkt af Matvælasjóði. Rit LbhÍ nr. 180 nefnist Ræktun fyrir hagkvæmri lambakjötsframleiðslu og fjallar um hvaða áherslur í kynbótastarfi varðandi sláturlömb eru líklegastar til að skila mestu fyrir rekstur sauðfjárbúa. Mikilvægt atriði í þeirri vinnu var hvernig á að haga vali varðandi fitu á lambskrokkum, vegna þess að bæði of feitir og of magrir skrokkar skila lágu verði til framleiðenda. Fyrir flest bú eru heppilegustu skrokkarnir meðalfeitir miðað við verðskrá sláturhúsa síðustu ár og í verkefninu voru skoðaðar leiðir til að sníða kynbótastarfið að því. Aftur á móti ættu þau bú sem eru með mikinn meðalfallþunga frekar að velja fyrir minnkaðri fitusöfnun sé markmiðið að fá sem mest fyrir skrokkana miðað við niðurstöður verkefnisins. Val fyrir auknum vaxtahraða skilar sér í auknum tekjum eða minnkuðum kostnaði en þar þarf líka að taka tillit til tengsla haustþunga lamba og þyngdar fullorðinna áa; stórar ær eru líklegri til að skila vænum lömbum en þær eru líka að jafnaði þyngri á fóðrum og plássfrekari þannig að það er hagkvæmara að auka vænleika dilka án þess að ærnar stækki. Niðurstöðurnar benda til þess að sú áhersla sem lögð hefur verið á að bæta holdfyllingu(gerð) sláturlamba borgi sig en með því vali er stuðlað að verðmætari skrokkum án þess að valda auknum kostnaði vegna stærri áa.

Rit LbhÍ nr. 182 nefnist Erfðastuðlar staðalþunga og fæðingarþunga og erfðafylgni þeirra við skrokkeiginleika í íslensku fé. Þar eru birtar niðurstöður útreikninga úr gagnasöfnun fjárbús Landbúnaðarháskólans á Hesti um hvernig erfðir hafa áhrif á fullorðinsþunga við ákveðið holdastig (staðalþunga) og fæðingarþunga hjá íslensku fé. Þar kemur í ljós að staðalþunginn ræðst að mjög miklu leiti af erfðum þar sem arfgengi eiginleikans var 0,65. Erfðir hafa líka heilmikil áhrif á fæðingarþunga, einkum erfðaeiginleikar móður lambanna þó faðirinn hafi líka áhrif. Niðurstöður um erfðafylgni og úrvalssvörun í hjörðinni á Hesti benda til þess að val fyrir haustþunga geti leitt til hækkandi staðalþunga og fæðingarþunga en val fyrir bakvöðvaþykkt og gerð geti haft öfug áhrif. Í ritinu eru líka kynntar niðurstöður um árangur kynbótastarfsins á Hesti síðan um aldamót sem sýna úrvalssvörun í átt að bættri gerð, þykkari vöðvum og minni fitu. Á síðustu árum hefur árangur í þessum eiginleikum minnkað í samræmi við breyttar áherslur en aftur á móti orðið meiri svörun í átt til aukins þunga lamba.

Bæði eru þessi rit aðgengileg hér að neðan og á heimasíðu Landbúnaðarháskóla Íslands:

Rit LbhÍ nr. 180
Ræktun fyrir hagkvæmri lambakjötsframleiðslu 
Höfundar: Jón Hjalti Eiríksson, Anna Guðrún Þórðardóttir, Þórdís Þórarinsdóttir, Jóhannes Sveinbjörnsson og Eyþór Einarsson

Rit LbhÍ nr. 182
Erfðastuðlar staðalþunga og fæðingarþunga og erfðafylgni þeirra við skrokkeiginleika í íslensku fé
Höfundar: Jón Hjalti Eiríksson, Eyjólfur Kristinn Örnólfsson og Jóhannes Sveinbjörnsson

logo

Þekking á sviði sjálfbærrar nýtingar auðlinda, umhverfis, skipulags og matvælaframleiðslu.

LBHÍ

Hvanneyri - 311 Borgarbyggð
Sími 433-5000
lbhi@lbhi.is
Kt. 411204-3590
Rafrænir reikningar
Image

Starfsstöðvar

Flýtileiðir

Samfélagsmiðlar

Image
Image