Yfirlýsing rektors LbhÍ vegna kynbundins ofbeldis gegn konum í vísindum

Sæmundur Sveinsson, rektor LbhÍ, hefur sent eftirfarandi yfirlýsingu frá sér vegna frásagna kvenna í vísindum af kynbundnu ofbeldi.

"Ég var að enda við að lesa 106 frásagnir kvenna um kynbundið ofbeldi sem þær hafa upplifað á starfsævi sinni. Ég hvet alla þá sem stunda nám og starfa innan háskóla að lesa þessar frásagnir (aðgengilegar hér: https://www.docdroid.net/4BWO18e/i-skugga-valdsins-visindin.pdf).

Ég er í senn miður mín og bálreiður eftir þennan lestur. Flest okkar sem stundað hafa nám og starfað hafa innan háskóla, eiga margar góðar minningar um skemmtilegar bekkjarsystur og frábærar vísindakonur sem kenndu okkur eða leiðbeindu í rannsóknum. Það er hryllilegt að uppgötva að margar þeirra hafi upplifað ofbeldi eða áreitni og algjörlega ólíðandi að slíkt viðgangist. Persónulega hafði ég aldrei áhyggjur af því á mínu 10 ára háskólanámi að vera beittur ofbeldi eða áreitni af samnemendum eða kennurum. Þetta fannst mér sjálfsögð mannréttindi, sem ég þurfti ekki að velta sérstaklega fyrir mér. Þessi lestur opnaði augu mín fyrir því hversu útbreitt það er í háskólasamfélaginu að karlar traðki á mannréttindum kvenkyns nemenda og vísindakvenna. Sú staðreynd er með öllu ólíðandi, slíkt verður að breytast og það hratt.

Upplifun mín á þeim gerendum sem vísindakonurnar lýsa í mörgum frásögnum sínum er eftirfarandi: Hér eru á ferðinni menn sem misbeita valdi sínu á svívirðilegann hátt gagnvart konum sem nema eða starfa í akademísku umhverfi. Þessir gerendur hafa ákveðið vald, t.d. sem leiðbeinendur framhaldsnema eða starfsmenn sem hafa klifrað hærra í hinum akademíska framgangsstiga. Staða þeirra felur í sér að þeir hafa öðlast ákveðna virðingu, sem veitir þeim raunverulegt vald. Þessi misbeiting á valdi birstist víða í fyrrnefndum frásögnum, í óviðeigandi framkomu gagnvart konum eða jafnvel enn alvarlegra ofbeldi. Það er kristaltært í mínum huga, að ef tiltekinn starfsmaður gerist uppvís af því að misbeita valdi sínu á slíkan hátt gagnvart kollega eða nemenda þá missir hann allt sitt faglega traust. Mín skoðun er sú að slíkir einstaklingar hafi afsalað sér þeim forréttindum að geta starfað innan skóla- og fræðastofnanna.

Sem rektor hef ég mikla ábyrgðartilfinningu gagnvart nemendum og starfsfólki þessarar menntastofnunnar. Ég heiti því að gera allt sem í mínu valdi stendur til þess að tryggja að allir nemendur og starfsfólk geti stundað nám og unnið sitt starf, án þess að þurfa að óttast að verða fyrir barðinu á kynbundnu ofbeldi og áreitni. Ennfremur verða nemendur og starfsfólk upplýst um ferla til að tilkynna slíkt ofbeldi, auk afleiðinga þess að gerast uppvís að því að beita slíku ofbeldi.

LbhÍ ætlar að hrinda af stað aðgerðum til þess að meta umfang kynbundins ofbeldis innan stofnunarinnar og til þess að stemma stigum við að slíkt ofbeldi viðgangist. Þetta viljum við gera með könnunum, skýrum verkferlum og fræðslu til starfsfólks og nemenda. Ég óska hér með eftir tillögum frá ykkur um hverjar þessar aðgerðir gætu verið.

Sæmundur Sveinsson, rektor LbhÍ"

logo

Þekking á sviði sjálfbærrar nýtingar auðlinda, umhverfis, skipulags og matvælaframleiðslu.

LBHÍ

Hvanneyri - 311 Borgarbyggð
Sími 433-5000
lbhi@lbhi.is
Kt. 411204-3590
Rafrænir reikningar
Image

Starfsstöðvar

Flýtileiðir

Samfélagsmiðlar

Image
Image