Afhendingin fór fram á Mógilsá. F.v. Guðríður Helgadóttir, Hallgrímur Jónasson, Þórdís Kolbrún Reykfjörð, Björn Bjarndal og Eiríkur Þorsteinsson.

Gæðafjalir - útgáfa rits um viðarnytjar á Íslandi

„Það er okkur sérstök ánægja að afhenda ráðherra nýsköpunarmála þessa bók, gæðaviður úr íslenskum skógum á eftir að verða uppspretta fjölbreyttrar nýsköpunar á næstu árum og áratugum“ segir Guðríður Helgadóttir, verkefnastjóri TreProX um útgáfuna.

Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir og Hallgrímur Jónasson forstöðumaður Rannís tóku formlega við fyrstu eintökum bókarinnar Gæðafjalir – viðskiptaflokkun á timbri úr barrtrjám við stutta athöfn við Rannsóknastofnun Skógræktarinnar á Mógilsá föstudaginn 13. nóvember síðastliðinn, en bókin er fyrsta afurðin úr evrópska samstarfsverkefninu TreProX

Skógræktin, Landsamtök skógareiganda, Landbúnaðarháskóli Íslands og Skógræktarfélag Reykjavíkur, fyrir hönd Skógræktarfélags Íslands, gerðu með sér samkomulag í júní 2018 um samstarf í gæðamálum viðarnytja. Markmiðið með þessu samstarfi er að unnið verði í samræmi við staðla fyrir þær trjátegundir sem nýtast í timburafurðir. Ráðherra lýsti mikilli ánægju sinni með þennan áfanga og hvatti fólk í skógrækt og skógariðnaði til að halda starfinu áfram að nýsköpun á sviði timburnytja hérlendis. Auk bókarinnar þáði ráðherra að gjöf myndarlega fjöl úr íslensku greni sem nú prýðir ráðuneyti iðnaðar- og nýsköpunarmála og vekur athygli á skógarauðlindinni sem er að byggjast upp í landinu segir í frétt á vef Skógræktarinnar.

„Þessi útgáfa markar viss tímamót í íslenskri skógræktarsögu. Þrátt fyrir að þetta sé lítil bók þá er verkefnið stórt. Nú eru nýjir tímar í Íslenskri skógrækt við verðum að fara af stað með mikla nýsköpun, ekki bara í timbri heldur í heild, og þá í gegnum ferðaþjónustu, matvöru og upplifun” segir Björn Bjarndal verkefnastjóri hjá Skógræktinni. 

Í framhaldi af samkomulaginu ákváðu LbhÍ, Skógræktin og Nýsköpunarmiðstoð að búa til Evrópuverkefni og sóttu um styrk til Erasmus+ í samstarfi við Linne háskóla í Svíþjóð og Danska Landbúnaðarháskólann. Seinna dró reyndar Nýsköpunarmiðstöð sig út úr verkefninu en fyrirtækið Trétækniráðgjöf kom inn í staðinn. Með tilkomu þessa evrópska samstarfsverkefnis sem fékk heitið „Innovations in Training and Exchange of Standards of Wood Processing (TreProX)“ og var styrkt af Erasmus+ árið 2019 var ákveðið gefa út bókina Handelssortering av trävaror í íslenskri þýðingu undir nafninu Gæðafjalir – Viðskiptaflokkun á timbri úr barrtrjám. Bókin er upprunalega gefin út í Svíþjóð en Svíar gáfu Íslendingum góðfúslega leyfi til að þýða bókina og gefa út á Íslandi, án endurgjalds. Var það Eiríkur Þorsteinsson, eigandi Trétækniráðgjafar sem sá um þýðinguna. Þetta er fyrsta afurðin úr TreProX verkefninu en þær eiga eftir að verða fleiri.

Hluti af verkefninu verða námskeið sem haldin verða á Íslandi, í Svíþjóð og Danmörku fyrir fólk sem vinnur við viðarvinnslu og munu námskeiðin ganga út á að auka þekkingu og færni okkar í meðhöndlun viðar til að hámarka gæði afurða á öllum stigum. Í því samhengi má minnast á skipulags skógræktarsvæða og viðhald skóga í uppeldi, þurrkun viðar eftir fellingu og sögunaraðferðir.

Opnuð hefur verið vefsíða tileinkuð TreProX verkefninu en þar er að finna upplýsingar og fréttir af framvinduni. Sjá hér: treprox.eu.

--

Tengt efni

--

Erasmus + úthlutun 2019

Þróun á stöðlum og þekkingu fagaðila í viðarframleiðslu á Íslandi 

Endurmenntun LbhÍ

Image
útgáfa bókarinnar markar viss tímamót í íslenskri skógræktarsögu.
logo

Þekking á sviði sjálfbærrar nýtingar auðlinda, umhverfis, skipulags og matvælaframleiðslu.

LBHÍ

Hvanneyri - 311 Borgarbyggð
Sími 433-5000
lbhi@lbhi.is
Kt. 411204-3590
Rafrænir reikningar
Image

Starfsstöðvar

Flýtileiðir

Samfélagsmiðlar

Image
Image