Doktorsvörn Þórunnar Pétursdóttur í umhverfisfræðum

Þórunn Pétursdóttir ver doktorsritgerð sína á sviði umhverfisfræða, við Náttúru- og skógardeild Landbúnaðarháskóla Íslands. Ritgerðin heitir Stýring á landnotkun og endurheimt vistkerfa. Langtíma árangur umhverfis- og landbúnaðarstefnu á sjálfbæra landnýtingu og endurheimt vistkerfa á Íslandi. [Governing land use and restoration. The long-term progress of environmental and agricultural policies on sustainable rangeland management and restoration in Iceland].

Vörnin fer fram 16. júní og hefst kl 15:00, en vegna aðstæðna verður henni streymt beint í gegnum zoom fjarfundabúnað. Linkur inná vörnina er hér. Allir áhugasamir eru velkomnir að tengja sinn inn á hana og biðjum við þá sem vilja tengja sig að gera það í síðasta lagi k. 14:50. Jafnframt eru þeir beðnir að slökkva á eigin hljóðnemum á meðan fyrirlesturinn fer fram, en mega gjarnan kveikja á þeim þegar gefið verður færi á spurningum í lok varnarinnar.

Andmælendur ritgerðarinnar eru Eric Higgs, prófessor við University of Victoria og Jón Geir Pétursson, dósent við HÍ og skrifstofustjóri skrifstofu landgæða í Umhverfis- og auðlindaráðuneytinu. Ása L. Aradóttir, prófessor við Landbúnaðarháskóla Íslands (LbhÍ) er aðalleiðbeinandi Þórunnar en Susan Baker, prófessor við Cardiff University og Guðmundur Halldórsson, gestaprófessor við LbhÍ og sérfræðingur hjá Landgræðslunni eru meðleiðbeinendur. Doktorsvörninni verður stýrt af Isabel C. Barrio, forseta deildar Náttúru- og skógar.

Þórunn Pétursdóttir lauk BS prófi í landfræði frá Háskóla Íslands árið 2002 og MS prófi í landgræðsluvistfræði frá Landbúnaðarháskóla Íslands árið 2007. Hún hóf störf hjá Landgræðslunni sem héraðsfulltrúi á Vesturlandi árið 2003 og sinnti því starfi til ársins 2008 er hún færðist yfir á rannsóknasvið stofnunarinnar. Hún hefur starfað hjá Landgræðslunni síðan þá, utan áranna 2010-2013 er hún sinnti rannsóknarnámsstöðu hjá einni af rannsóknarstofnunum (IES, JRC) framkvæmdaráðs Evrópusambandsins á Norður Ítalíu og ársins 2017 er hún var aðstoðarmaður Bjartar Ólafsdóttur, þáverandi umhverfis- og auðlindaráðherra. Síðan 1. febrúar 2019 hefur hún starfað sem sviðsstjóri sviðs Samskipta og áætlana hjá Landgræðslunni. Þórunn situr einnig í bæjarstjórn Hveragerðisbæjar fyrir bæjarmálafélagið Okkar Hveragerði og er formaður Náttúruverndarsamtaka Suðurlands.

Ágrip

Stór hluti íslenskra úthagavistkerfa er vistfræðilega í hnignuðu eða alvarlega röskuðu ástandi. Hluti þessara svæða er engu að síður nýttur til sauðfjárbeitar. Undanfarna áratugi hafa íslensk stjórnvöld lagt áherslu á bætta landnýtingu og endurheimt úthagavistkerfa og sett fram nýjar landbúnaðar- og umhverfisstefnur til þess að vinna að þeim markmiðum. Frá árinu 1990 hafa stjórnvöld innleitt nýjar stefnur, áætlanir og verkefni sem miða að því að viðhalda og bæta vistfræðilegt ástand úthaga og stuðla að því að landnýting á vegum sauðfjárbænda verði sjálfbær. Lítið er vitað um langtíma árangur þessara stefna og tengdra verkefna og ferlar þeirra og útkomur hafa aldrei verið skoðaðar samþætt eða þverfaglega.

Meginmarkmið þessarar ritgerðar var að rannsaka stjórnun á nýtingu og endurheimt úthagavistkerfa í gegnum samfélags- og vistfræðilega greiningu, til að meta hvort langtímaárangur valinna stefnumiða stjórnvalda, og verkefna tengdum þeim, hafi náðst. Fyrsti hluti rannsóknarinnar fól í sér að gera sögulega greiningu á helstu hvötum að endurheimt vistkerfa á Íslandi síðustu 100 árin og kortleggja hvort hvatarnir hefðu breyst í gegnum árin. Rannsóknin byggði á yfirliti yfir 100 endurheimtarverkefni og svæði þar sem unnið hafi verið að endurheimt (75-85% af öllum endurheimtaraðgerðum á Íslandi). Í öðrum hluta hennar var samfélags- og vistfræðilega kerfið tengt endurheimt úthagavistkerfa á Íslandi skoðað til að meta hvort félagslegir þættir eins og viðhorf og hegðun hagaðila hefðu áhrif á innleiðingu og virkni landbúnaðar- og umhverfisstefna tengdum stjórnun á nýtingu og endurheimt úthagavistkerfa.

Rannsóknin byggði á eigindlegri rannsókn (viðtölum) þar sem rætt var við 15 hagaðila. Þriðji hlutinn fól í sér að meta hvort samstarfsverkefni Landgræðslunnar og bænda um endurheimt úthagavistkerfa (Bændur græða landið) hefði stuðlað að viðhorfs- og hegðunarbreytingum á meðal sauðfjárbændanna sem tóku þátt í verkefninu. Sú rannsókn byggði á spurningakönnun þar sem allir sauðfjárbændur voru spurðir um viðhorf sín og hegðun í tengslum við endurheimt úthagavistkerfa og landnýtingu. Svör bændanna sem tóku þátt í endurheimtarverkefninu voru síðan borin saman við svör þeirra bænda sem ekki tóku þátt. Fjórða hlutinn snérist um að kortleggja stjórnsýsluna utan um nýtingu úthagavistkerfa og skoða samsetningu og virkni stjórnkerfisins til að skilja betur tengingarnar á milli núverandi landbúnaðar- og umhverfistengdra stefnumiða og umhverfisins sem markar stefnurnar. Þessi síðasti hluti rannsóknarinnar byggði einnig á niðurstöðum spurningakönnunar sem var dreift til valinna aðila sem störfuðu innan stjórnsýslunnar, tengdra samtaka og til sauðfjárbænda. Niðurstöðurnar voru nýttar til að meta viðhorf þátttakanda til stjórnunar á nýtingu úthagavistkerfa, skoðanir á stuðningi ríkisins til þessa málaflokks, vægi samstarfs um endurheimt úthagavistkerfa og sýn þeirra á núverandi stefnumið tengd nýtingu úthagavistkerfa.

Niðurstöður fyrsta hluta rannsóknarinnar sýndu að gríðarleg jarðvegseyðing sem eyddi bújörðum í upphafi síðustu aldar, var upphafshvati endurheimtar vistkerfa á Íslandi. Í upphafi 21. aldarinnar var vægi jarðvegseyðingar enn hátt þó aðrir hvatar, svo sem siðferðileg gildi, náttúruvernd og útivistargildi svæða væru einnig sterkir hvatar að baki endurheimtarverkefnum. Opinberar stefnumótunaráætlanir reyndust ekki öflugir hvatar, sem gaf til kynna undirliggjandi veikleika í opinberum stjórntækjum sem ætlað er að hafa áhrif á bætta landnýtingu og aukna endurheimt raskaðra vistkerfa.

Niðurstöður annars hluta rannsóknarinnar bentu til að hægt sé að nýta samfélagslega þætti eins og viðhorf og hegðun fólks til að meta virkni stefnutengdra markmiða hvað varðar endurheimt vistkerfa. Niðurstöðurnar bentu einnig til takmarkana á virkni stjórnkerfis innan samsetts samfélags- og vistfræðilegs kerfis sem geta dregið úr möguleikum á að ná stefnutengdum markmiðum og hugsanlega einnig hindrað nauðsynlegar breytingar sem þurfa að verða á hegðun fólks til að markmiðin náist.

Niðurstöður þriðja hluta rannsóknarinnar sýndu að endurheimtarverkefnið (Bændur græða landið, BGL) sem var til skoðunar hafði ekki ýtt marktækt undir hegðunarbreytingar hvað varðaði skipulag landnýtingar á meðal þeirra bænda sem tóku þátt í verkefninu samanborið við þá sem tóku ekki þátt í því. Bændurnir sem voru þátttakendur í verkefninu voru engu að síður betur meðvitaðir um hvaða svæði var mögulegt að endurheimta og voru tilbúnari í samstarf um slík verkefni en þeir bændur sem ekki tóku þátt. Rannsóknin leiddi einnig í ljós að beinu hvatarnir sem fylgdu þátttöku í verkefninu virtust ýta bændunum frekar í átt að nota ræktunarmiðaðar aðferðir í stað vistfræðilegra nálgana við endurheimt vistkerfa. Matið sem gert var í þriðja hluta rannsóknarinnar leiddi í ljós nokkrar skipulagsvillur (e. organizational errors) innan stjórnunar BGL verkefnisins sem gætu verið að aftra frekari árangri þess. Villurnar tengdust til að mynda innleiðingu þátttökunálgana í verkefnið sem og styrk persónulegra tengsla milli þátttakenda í verkefninu og starfsmanna Landgræðslunnar annars vegar og hins vegar traust þátttakenda til Landgræðslunnar sem stofnunar. Niðurstöður fjórða hluta rannsóknarinnar gáfu sterklega til kynna að hvorki núverandi stjórnsýslukerfi sem heldur utan um nýtingu úthagavistkerfa, né stjórnarhættir innan þess, hafi marktækt ýtt undir væntar viðhorfsbreytingar á meðal sveitarstjórnarfólks eða sauðfjárbænda, eitthvað sem nauðsynlega þarf að gerast svo að núverandi nýtingarform úthagavistkerfa innan landbúnaðargeirans batni til frambúðar.

Meginniðurstöður þessarar ritgerðar voru að skilgreind stefnumið stjórnvalda sem lúta að því að bæta vistfræðilegt ástand úthaga sem og markmið núverandi landbúnaðar- og umhverfistengdra áætlana og verkefna sem tengjast stjórnun á nýtingu úthagavistkerfa hafa ekki náðst að fullu. Ritgerðin sýndi einnig fram á nauðsyn bættra stjórnunarhátta með því að draga fram að stjórnkerfið sem tengist úthaganýtingu var ekki nógu vel uppbyggt og það hamlaði öllu flæði tengdu því. Hvorki láréttar né lóðréttar tengingar kerfisins voru nægjanlega samþættar eða fyllilega virkar og stjórnkerfið því ekki í stakk búið til að viðhalda og efla vistfræðilegt ástand úthagavistkerfa miðað við núverandi beitarstjórnunarkerfi.

Þú ert að nota: brimir.rhi.hi.is